Er bloggið.. æ-i ég veit ekki hvað það er.

Ég hef verið að pæla aðeins í þessu bloggi. Hvers vegna að blogga? Sumir gera það til að létta á sér, aðrir til að deila sínum hugsunum og skoðunum með öðrum, einhverjir til að miðla upplýsingum um það sem er að gerast í þeirra lífi til sinna nánustu sem búa kannski í mikilli fjarlægð. Enn aðrir virðast vera að blogga fyrir athugasemdirnar og síðan eru alltaf einhverjir að þessu til að fá sem flestar heimsóknir til að komast sem efst á vinsældalista bloggsins. Einnig er bloggið ágæt leið til að kynna sjálfan sig og ýmiss málefni líðandi stundar. En hvað með allar þessar ástæður þá er ég að blogga líkt og svo mjög margir aðrir. Er það athyglisýki? Já örugglega, á vissan hátt en engu að síður finnst mér þetta ágæt leið til tjáningar og finnst frábært að fólk noti þennan miðil til þess.

Áður en Huginn fæddist opnuðum við Mumminn síðu á Barnalandi fyrir hann til þess að ættingjar okkar gætu fengið að fylgjast með litla Gullrassinum okkar. Þessi síða, sem átti að vera bara svona venjuleg sæt síða fyrir litla barnið okkar breyttist þegar hann fæddist og það kom í ljós að hann væri veikur. vefsíðan varð síðan mikil heimild um allt líf Hugins. Hún var okkur, er enn og verður áfram mikill styrkur, því stundum voru kveðjur á henni það sem hélt okkur á floti í oft miklum erfiðleikum og getum við seint þakkað öllum þeim sem aðstoðuðu okkur á þeim tímum.

Þar sem síðan hans Hugins er síðan hans þá var ekki viðeigandi að skrifa það sem ég var að hugsa þar. Þess vegna var þessi bloggsíðan stofnuð. Ég hef stundum hugsað um hvers vegna ég sé að rembast við að halda henni út því ég er ekki duglegasti bloggari landsins en samt held ég áfram að skrifa það sem mér býr í brjósti hverju sinni og ég hef mikla trú á að ég muni halda því áfram sem fyrr. Ég ætla að halda áfram að skrifa til að mér geti liðið betur, um það sem mér dettur í hug hvort sem það er til að vekja athygli á mér eða einhverju sem ég er að pæla í hverju sinni eða hreinlega að miðla upplýsingum.

Takk fyrir að nenna að lesa þetta bull mitt sem oft er þannig gert að ég skil það ekki einu sinni sjálf. En þangað til næst eigið góðar stundir í faðmi fjölskyldunnar og munið að í dag er nýtt upphaf.


Veistu hvað ég var að gera?

Ég var að koma upp úr heita pottinum mínum í fyrsta sinn. Já ég er að segja frá því að LOKSINS er búið að tengja sullupollinn. Framundan er þá að klára að smíða í kringum hann og þá verður pallurinn minn margumtalaði, orðinn frábærlega flottur. En það verður ekki gert nema að það sé gott veður og ég hafi tíma og nennu í hámarki.

Þangað til næst óska ég ykkur slökunar og yndislegheita. 


Ég afrekaði...

...það í kvöld að heimsækja alla mína bloggvini og skilja eftir mig spor hjá þeim flestum. Hjá sumum gat ég það ekki því þeir eru annað hvort með læst blogg eða að leyfður tími commenta var liðinn. Ég vil helst ekki skrifa í gestabók því ég held að allir séu eins og ég og kíki helst aldrei í hana. Ég kíkti þó um daginn og sá þá fallega kveðju til mín. Það er langt síðan ég las alla mína bloggvini á einu kvöldi og ég þakka eiginlega fyrir, í kvöld amk. að ég eigi ekki 300. Ég hef verið ferlega löt á blogginu undanfarið bæði mínu og annarra og skrifa það á stórar breytingar í lífi mínu ásamt einskærri leti. Ekki að það séu neinar né heldur góðar afsakanir en þær eru samt sem áður sannar.

Héðan er annars allt ágætt að frétta þrátt fyrir að Keflavík hafi ekki náð að verða Íslandsmeistarar í þetta sinnið, kemur bara næst. Skrímslin hafa ekki náð að ganga frá mér ennþá. Ég hef reyndar eina stórfrétt. Ég hef stundum sagt frá því að ég sé að smíða pall og á þessum palli eigi að vera heitur pottur. Það er svolítið langt síðan allt var klárt fyrir að tengja blessaðan pottinn en þar sem píparar eru afskaplega sjaldséð sjón og mjög vandfundnir (held þeir séu eins og þessir sjaldséðu kvistir í þjóðfélaginu, sem eru alltaf að deyja út) en haldiði ekki að einn hafi birst hjá mér í gær og byrjaði að gera klárt fyrir lagningu vatnsröra að sullupollinum mínum. Vá ég sé fram á að komast í pottinn fyrir jólin. Hann stefnir á að koma aftur á mánudaginn og klára verkið. Ég þori varla að trúa þessu.

Ætla að hætta þessu rausi en þangað til næst. ÁFRAM KEFLAVÍK.


Langt en samt stutt

Síðustu sex mánuðir hafa verið þeir lengstu sex mánuðir sem ég hef lifað. Samt hafa þeir ekki verið þeir lengstu sex mánuðir sem ég hef lifað. Skrítið. En svona er þetta nú samt. Í dag eru sex mánuðir síðan litli Gullrassinn minn ákvað að tími væri kominn á að hlaupa um himininn og pússa regnbogann. Ég var búin að kvíða þessum degi svolítið en þrátt fyrir allt, var dagurinn bara fínn dagur. Held reyndar að Gullrassinn minn styðji svolítið við mig og sýni mér stórglæsilega og nýpússaða regnboga reglulega til að gleðja mitt hjarta. En ég sakna hans samt endalaust. Ég er reyndar svo heppin að eiga helling af frábærum minningum og myndum af honum sem slá á söknuðinn. Ég er bara svo þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hann hjá okkur svona lengi og svo þakklát fyrir það sem hann kenndi mér og öðrum. Ég mun alltaf hafa þann lærdóm í farteskinu.

Huginn Heiðar

Aðkomuveður, stóð og stuð.

Alveg ótrúleg þessi aðkomuveður sem hafa gengið yfir hérna undanfarið og ekki er lát á að svo stöddu. Trén eru farin að missa laufið, blómin fokin út í veður og vind ásamt einhverjum lausamunum sem fólk gleymdi að taka inn áður en aðkomuveðrin mættu í bæinn. Vona að fólk hirði draslið áður en það skemmir eitthvað í næsta aðkomustormi. 

Það hefur verið mikið að gerast hjá mér undanfarna daga. Til að byrja með leið Ljósanóttin hjá með glæsibrag að venju og hlakka ég mikið til þeirrar næstu. Síðan fórum við fjölskyldan norður í sveitina í stóðréttirnar þar var margt um manninn og hrossin voru heldur ekki ófá. Þar hitti ég margt fólk sem ég hef ekki hitt í mörg ár enda hef ég ekki verið daglegur gestur norðan heiða síðustu ár og var frábært að hitta allt þetta fólk.

Eftir stóðréttarhelgina tók ég stórt skref og fór að vinna utan heimilis. Það er í sjálfu sér ekki merkilegt en þar sem ég hef verið utan vinnumarkaðs í 4 ár þá er þetta svolítið stórt skref og enn stærra fannst mér skrefið þegar ég ákvað starfsvettvanginn. Henti mér beint út í djúpu laugina. Viðurkenni að ég hafði mikinn hjartslátt og stóran hnút í maganum þegar ég gekk inn á gamla vinnustaðinn minn til að hefja þar aftur störf. Ég virðist þó enn kunna að synda, að minnsta kosti að troða marvaðann. Börnin eru ekki svo mikil skrímsli að ég þoli það ekki og hingað til hefur bara verið fínt að kenna grislingunum guðs ótta og góða siði.

Framundan er áfram töluvert á dagskrá hjá okkur hjónaleysunum og erum við markvisst að vinna að því að koma okkur aðeins út úr húsi og taka virkari þátt í samfélaginu. Þetta hefur ekki verið eins auðvelt fyrir okkur og það ætti kannski að vera. Vissulega er nægilegt framboð af alls konar afþreyingu og við eigum marga vini sem við getum sótt heim en það er mjög erfitt að hafa sig af stað. Við erum þó ofur bjartsýn á að okkur takist að aðlagast þessum nýja vinkli í lífi okkar.

Er hætt í bili og þangað til næst segi ég bara knúsist og kúrið.


Fjórir ...

Ég verð víst að taka þátt í þessu þar sem ég hef verið klukkuð. 2x.

 Fjögur störf sem ég hef unnið um æfina:

Bakarí, sjoppu, rækjuvinnslu og leikskólakennari.

Fjórar bíómyndir:

Kill Bill, Lord of the rings, Pulp fiction, og Pet cemetery.

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Sveitin mín, Skagaströnd, Pittsburgh, Keflavík.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

Grey's Anatomy, Hótel Babylon, Las Vegas, CSI.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Ísland, Írland, Portúgal, London.

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

mbl.is, visir.is, vf.is, leikjaland.is

Fernt sem ég held uppá matarkyns:

Kjúklingur, Kjúklingur, jólamaturinn og almennt matur yfirhöfuð.

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:

Aðalnámskrá leikskólanna, bækurnar eftir Arnald, Bækur eftir Stephen King og Kunzt

Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna:

Í draumalandinu, í USA, niðri í bæ, á sólarströnd.

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

Dísa Dóra, Huld, Ragnheiður og Hafrún Eva.

 

Eigið síðan öll sömul frábærlega gleðilega Ljósanótt.


Ljósanóttin framundan

Núna eru skólarnir komnir á fullt skrið og ég er viss um að allir krakkarnir hafi verið ágætlega sátt við að setjast aftur á skólabekkinn. Þrátt fyrir það er ég líka sannfærð um að þau muni seint viðurkenna ánægjuna. Ég varð fyrir smá sjokki þegar ég var viðstödd skólasetninguna með prinsessunni minni. Það var þegar skólastjórinn las upp nöfn barnanna sem áttu að vera í bekkjunum. Þegar hann las upp nöfn 5. bekkjar las hann upp nöfn leikskólabarnanna "minna". Vá litlu börnin "mín" komin í 5. bekk er eitthvað sem ég á erfitt að fatta. Það sem tíminn þýtur.

En að öðru. Ljósanóttin er framundan. Hún verður sett við hátíðlega athöfn á fimmtudaginn fyrir utan Myllubakkaskóla kl. 11, þar sem meðal annars verður helling af allskonar litum blöðrum sleppt upp í himininn. Blöðrurnar eiga að tákna það mikla fjölmenningarsamfélag sem við lifum í. Mér finnst þetta flott og hátíðlegt. Bæjarbúar eru hvattir til að lýsa upp hús sín og garða í tilefnfi hátíðarinnar en ég veit ekki alveg hvað við munum gera mikið. Ég veit þó að við gerum ekki næstum eins mikið og Helga og Hrafn á Faxabrautinni. Ótrúlega flott hjá þeim. Prinsessan ætlar að taka þátt í söngvarakeppni barna. Undankeppni á morgun og reiknum við með að hún komist áfram og muni syngja á stóra sviðinu á föstudagskvöld. Hana hlakkar ekkert smá til og er búin að vera að æfa lagið sitt í nokkra daga.

Hætt í bili og hvet alla til að kíkja á Ljósanótt og njóta margs konar menningar í miklu magni og skemmta sér konunglega. Dagskrána má sjá hér. Mér sýnist hún stækka með hverjum deginum.


Jesús Pétur Guðmundur og Geir

VÓHÓHÓ Íslendingar eiga í fyrsta sinn í sögunni möguleika á Ólimpíugulli. Ég sit hérna með hjartað á yfirsnúningi. Ásdís veifar Íslenska fánanum svo gríðarlega að hér er hávaðarok. Bara dásamlega frábært!

En eitt sem ég hef oft pælt í en aldrei fengið svör við en það er hvers vegna er alltaf föðurnafn Íslenskra leikmanna sett á bakið á búningunum? Hvers vegna er ekki skírnarnafnið þeirra notað? Íslendingar heita skírnarnafni sínu en ekki föðurnafni. Mér finnst þetta asnalegt og finnst að það eigi að virða Íslenska nafnamenningu og nota skírnarnafnið.

ÁFRAM ÍSLAND!!!


Chillað sumar

Núna er farið að síga á seinni hluta sumarsins. Það þýðir að maður verður að hætta að chilla og láta alvöruna taka við.   Krakkarnir hafa reyndar lítið verið að chilla þó ég hafi gert það en þau hafa haft í nógu að snúast í sumar. Elstu yrðlingarnir verið að vinna á fullu og sú litla einbeitt sér af miklum krafti að áhugamálum sínum, söng og fótbolta. Skólarnir byrja í næstu viku og ég veit að afleggjarana hlakkar mis mikið til. Sá stóri er staddur í þessum tölum orðum í Tyrklandi í útskriftarferðalagi með skólafélögum sínum og ekki veit ég hvort hann verði námstækur í vetur því ég frétti af honum í yfir 50°C hita og óttast að heilinn sé nú well done. Hann verður bara að dvelja í frysti um tíma þegar hann kemur aftur heim svo hann geti nú klárað skólann, því þrátt fyrir að vera í útskriftarferð þá útskrifast hann ekki fyrr en næsta vor. Eldri stelpan heldur bara áfram með sitt nám sem hún byrjaði á síðasta haust. Yngri guttinn stendur á tímamótum í vetur því hann mun sitja í 10. bekk. Síðan kemur skottið sem er að fara í 6. bekk.

En aftur að mér. Nú er víst kominn tími á að fara að vinna utan heimilis. Ég hef reyndar ekki hugmynd um hvað ég ætla að taka mér fyrir hendur en ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því, það kemur. Það gengur víst ekki að hanga bara heima og gera ekki neitt. Sumarið hefur verið fínt fyrir mig og reyndar okkur öll. Við erum búin að ferðast svolítið og á þessum ferðum okkar förum við gjarnan í hina ýmsu leiki. Eins og til dæmis að hugsa sér persónu eða hlut, telja bíla og svo framvegis. Þessir leikir gera langar og leiðinlegar bílferðir stuttar og bráðskemmtilegar. Mæli með þessu fyrir alla. Ég hef m.a. komist að því í þessum leikjum okkar hvað hóruhús og viti eiga sameiginlegt, sem er ágætis afrek út af fyrir sig. Veist þú hvað þau eiga sameiginlegt? Á leiðinni á Dalvík um síðustu helgi fórum við í bílaleik, þ.e. að telja ákveðinn lit á bílum. Ásdís sigraði með töluverðum yfirburðum með 8 stig, við Mumminn fengum bara 1 og 2 stig. Verð þó að taka fram að leikurinn hófst ekki fyrr en við ókum upp úr Mosfellsbæ, stigin hefðu legið öðruvísi hefðum við byrjað strax í Keflavíkinni. Guðjón byrjaði þó ekki að taka þátt fyrr en á Blönduós en samt fékk hann 3 stig. Ótrúlegur árangur hjá okkur.

Nú ætla ég að hætta að bulla hér og fara í sokka og fara að gera eitthvað mis gáfulegt en hvað með það? Þangað til næst, njótið dagsins því lífið er núna.


Á skíðum skemmti ég mér...

Skrapp um helgina á Dalvík og upplifði þar Fiskidaginn Mikla og var það góð upplifun. Mikið af fólki og afar margir sem við Mumminn höfum ekki hitt í mis mörg ár urðu þarna á vegi okkar. Við fórum á fimmtudaginn og tjölduðum draghýsinu okkar á fráteknum stað. Áætlunin var nefnilega sú að við myndum hitta þarna stóru systur mína og mágkonu hennar. Það breyttist aðeins því þegar upp var staðið þá var reist heil gata sem auðvitað fékk nafnið Fjölskyldustræti. Við götuna voru átta hús og númerum raðað eftir röð reisunar. Sem sagt algjörlega í kaosi. En það var allt í lagi því allir vissu hvar hver átti heima og enginn villtist að neinu ráði. En systir mín talaði samt um að hún myndi ekki vilja vera póstútburðarmaður í þessu hverfi.

Verð nú að viðurkenna að þrátt fyrir að sofa yndislega í tuskuhúsinu þá er alltaf best af öllu að leggjast í rúmið mitt hér heima eftir flækinginn og sofna. Í gærkvöldi var engin undanteknig á því. Varð reyndar fyrir áhrifaríkri upplifun stuttu eftir að ég sofnaði. Hún var sú að Gullrassinn minn kom hlaupandi til mín og stekkur upp í fangið á mér og talar við mig. Ég faðmaði hann fast að mér og það var svo yndislega gott að finna hann halda utan um hálsinn á mér. Síðan leystist hann upp í fanginu á mér og ég fór að gráta. Vaknaði síðan upp, enn grátandi og haldandi utan um litla Gullrassinn minn.  Ég hef ekki dreymt hann áður og fannst mér mjög gott að sjá hann ganga og tala en það gat hann ekki gert á meðan hann lifði og hann var svo glaður og leið svo vel.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband