Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Einn sveittur næst?

Eftir að hafa haft margréttað í gær ákvað ég að elda bara fisk í dag og bera hann fram með gommu af grænmeti. Held að næst þegar verði stungið upp á því að hafa bjúgu, sperla, bjúgur eða grjúpán í matinn að ég stingi upp á því að fara bara á Villa og fá sér einn sveittan. Síðan er á matseðlinum fyrir morgundaginn gamall og að sumra  mati ónýtur matur en vegna skólahreystis og bekkjarskemmtunar lítur allt út fyrir að maturinn fái að skemmast aðeins lengur eða fram á helgina. Annars finnst mér þessi svokallaði þorramatur góður, get reyndar lítið borðað hann núorðið en alltaf gaman að smakka smá. Þegar ég var að alast upp í sveitinni þá var alltaf besti maturinn þegar mamma ákvað að hafa snarl í matinn. Þá fór hún í súrtunnuna og fann til ýmisslegt góðgæti og bestar voru sviðalappirnar, spældi eða sauð egg og fann til eitthvað fleira og síðan var þetta borðað með rúgbrauði sem mamma bakar af hreinni snilld eða flatkökum sem mamma steikir líka. Reyndar er flest allt sem ég hef borðað sem mamma eldar gott enda er hún ótrúlega góður kokkur og vona ég að ég komist einhvern tímann með tærnar þar sem hún hefur hælana í eldhúsinu. Kannski hljómar þetta ekki eins jafnréttissinnað og ég en þar sem ég hef mikla ánægju af því að borða þá er gott að geta gert almennilegan mat svo ánægjan verði enn meiri.

Þangað til næst munið eftir ykkur sjálfum því það er auðvelt að týnast í erli dagsins. Knús.


Bjúgu eða bjúgur?

Gullkorn vikunnar í boði dagbókarinnar minnar er:  eldingu slær niður Þeir sem halda þrumandi ræðu, gæta þess ekki ætíð, hvar eldingunni slær niður.  

Annars voru undarlegar samræður á þessu heimili í kvöld. Umræðan var um hvað væri í kvöldmatinn og voru ekki allir á eitt sáttir um hvað væri í matinn. Mér var farið að finnast að ég væri að elda tvenns konar mat í einum potti. Málið var að sumir sögðu mig elda bjúgur á meðan aðrir töluðu um bjúgu. Á endanum var því tvíréttað, bjúgur með kartöflumús og bjúgu með kartöflumús, því enginn var tilbúinn til að viðurkenna að hinn gæti haft rétt fyrir sér.

Ég er enn sannfærð um að best sé að segja upp áskriftinni að stöð2 á mánudögum vegna þess að þar er á dagskrá allt kvöldið þátturinn "Látum fávíst fólk standa fyrir framan myndavél og gerum grín að því". Reyndar var ég svo heppin að þurfa ekki að horfa á þetta því það var verið að sýna frá fótboltaleik og aldrei held ég að ég hafi búist við því að ég myndi segja frá því að ég væri ánægð með að hafa stillt á fótboltaleik í sjónvarpi. Hef líka á tilfinningunni að þeir sem þekkja mig hafi heldur ekki átt von á því. Alltaf gaman að koma á óvart.

Þangað til næst bið ég ykkur að njóta góðra stunda með gleði í hjarta.


versti dagur ársins

Núna er Gullrassinn kominn í Rjóður þar sem hann ætlar að vera fram á föstudag. Þess vegna hugsaði ég mér að eiga notalegt kvöld við kertaljós og áhorf á sjónvarpið, einhverja spennþætti lúmsku dramagaman ívafi, EN á stöð 2 er komið að hinum sívinsæla niðurbrotsþætti american idol sería örugglega 10 og ekki nóg með að það sé verið að sýna 1 þátt heldur er allt kvöldið tekið í að sýna þessi ósköp. Held ég fari að ræða um uppsögn á stöð 2. Alla vega á mánudögum. Er að verða komin að sömu niðurstöðu og vísindamaðurinn sem fann það út að dagurinn í dag sé versti dagur ársins. Annars er allt fínt að frétta héðan þrátt fyrir allt.

Munið að passa vel upp á hvert annað og njótið þess að vera til, líka á verstu dögunum.


Stundum...

sætur 

Stundum ....

þegar þú grætur ... sér enginn tárin.

Stundum ....

þegar þú ert sár ... sér enginn sársaukann.

Stundum ....

þegar þú ert áhyggjufullur ... sér enginn álagið.

 

Stundum ....

þegar þú ert glaður ... sér enginn brosið. 

Svo prumparðu einu sinni ....

og það virðast ALLIR vita af því!!

 


Alltaf að vinna í lottó.

Undanfarið hef ég fengið nokkra tölvupósta frá hinum ýmsu aðilum, þar sem mér er tilkynnt að netfangið mitt hafi verið dregið út og ég hljóti svo og svo mikið að launum. Einnig hef ég unnið í hinum og þessum lottóum töluverðar upphæðir síðustu vikur. Alveg þó án þess ég hafi spilað mér vitanlega með í neinu þeirra.  Í fljótu bragði virðist mér sem ég hafi unnið um 4.508.000 bresk pund sem samsvara um 507.331.160 íslenskum krónum á gengi Seðlabankans í dag.

Peningar
Þá má ekki gleyma tölvupóstinum sem ég fékk frá ekkju nokkurri í Fjarkasistan sem bað mig kurteislega að passa upp á að peningar látins eiginmanns hennar rynnu til góðrar og heittrúaðar múslimasamtaka. Hún gat ekki hugsað sér konu greyið að einhverjir villutrúarmenn kæmust yfir þetta fé og eftir því sem hún sagði þá virtust vera miklar líkur á því að það væri að gerast og áttu okkar viðskipti að fara fram með mikilli leynd.  Ég átti að fá slatta að launum fyrir viðvikið. Í öllum tilvikum á ég að senda staðfestingu til baka að ég væri ég ásamt nokkrum upplýsingum um mig eins og til dæmis hjónabandsstöðu, starfsvettvang og bankareikning.  Til hvers er ætlast til þess að maður gefi upp hjónabandsstöðu sína og starf? Ætli það hafi áhrif á greiðslu vinningsins ef maður er giftur karlmaður í starfi ríkissaksóknara eða lögreglustjóra, eða ógift einstæð og atvinnulaus móðir? Maður bara spyr sig.

Skil bara ekkert í því hvers vegna ég fæ ekki tölvupóst frá Íslenskri Getspá með tilkynningu um að ég hafi unnið í lottói á þeirra vegum. Ég spila þó með í því. Miðað við mína heppni í lottóum sem ég tek ekki þátt í er þó líklegt að hann komi bráðlega.

Kannski er galdurinn við að vinna fólginn í því  að vita ekki af því að maður spili með.


Litlir kassar

Búin að pakka jólunum niður afturCrying en á eftir að setja alla kassana út í bílskúr þar sem þeir ætla að búa þangað til þeim verður boðið inn á ný. Þarf bara smá aðstoð við það, þar sem ég er svo stutt í annan endann og var svo örlát að lána einhverjum með minnimáttarkennd hinn endann og get ómögulega munað hver það var.

Síðustu daga hafa verið fínir. Við hjónaleysin héldum upp á afmæli unnustans með smá partýi sem tókst það vel að hann er farinn að hlakka til að verða fimmtugur. Ekki veit ég hvernig á að túlka það. Gullrassinn var í Rjóðri á meðan og var síðan boðið að vera lengur sem hann þáði og kom því ekki heim fyrr en á miðvikudag.  Á þeim tíma hamaðist ég við að gera sem minnst. Fór reyndar í bæinn á þriðjudag og eyddi jólagjöf sem ég fékk. Það var fínt, ég þarf þá ekki að hafa áhyggjur af henni meir. Gærdeginum eyddi ég síðan í símanum við að redda málunum vegna áramótanna. Alveg merkilegt hvað margt verður stopp bara vegna þess að það kemur nýtt ár. Held að flestir hlutir séu komnir á gott ról og ættu að vera orðnir frágengnir í næstu viku.

Farin í bili og þangað til næst knúsist svolítið og brosið. Þá verður allt betra.


Það sem breytist á einni nóttu.

Í gærkvöldi lagðist ég til svefns í fangi manns á fertugsaldri. Síðan vaknaði égí morgun í fangi manns á fimmtugsaldri. Hvað gerðist eiginlega í nótt?

Jú það sem gerðist var að minn yndislegi InLoveHeartInLoveunnustiInLoveHeartInLove á afmæliWizard í dag. Til hamingju með daginn ástin mínInLoveHeartInLove


Ég setti mér markmið en strengdi ekki áramótaheit en samt...

Gleðilegt ár, kæru vinir. Vona innilega að það komi til með að færa ykkur, og mér líka, gæfu og gjörvileika á alla mögulega vegu.

Nú er víst tíminn til að strengja áramótaheit, segja frá þeim og síðan eftir um það bil 2 vikur að brjóta þessi umtöluðu áramótaheit sín.  Ég strengdi engin áramótaheit um þessi áramót þannig að ég þarf ekki að brjóta neitt eftir 2 vikurLoL. Reyndar datt mér í hug á jóladag að það gæti verið sniðugt að setja sér smá markmið og hef ég lagt mig alla fram við það síðan að vinna að þessu háleita markmiði mínu. Hversu lengi mér tekst að standa við markmiðið er ekki gott að segja en ef ég þekki mig rétt þá endist það ekki lengi, lítur meira að segja þannig út núna að úthaldi sé lokiðCrying.

Þá er að upplýsa um hið umtalaða markmið mitt. Það er að halda kjörþyngd amk. í nokkrar vikur í röð Happy. Hef unnið eins og áður segir markvisst að því síðan á jóladag með allskonar aðgerðum sem felast aðallega í því að fá mér rjóma útí kaffið, borða konfekt í kílóavís, klára allt laufabrauðið alein og borða allan annan mat í miklu óhófi Devil.

Ég svo sem geri mér alveg grein fyrir því að þetta er dæmt til að mistakast, því mér finnst nammi yfirleitt ekki gott, rjómi fer ekki vel í mig, laufabrauð á bara að vera í boði á jólunum og matur í óhófi fer víst heldur ekki vel í migSick. Þannig að ég verð að viðurkenna vanmátt minn í aukakílóagerð og fáránlegra markmiðasetninga og skella mér bara í sund eða göngutúrGrin já eða út að hjóla á nýja fína ofurbláa hjólhestinum mínum. Er ekki alltaf sagt að vöðvar séu þyngri en fita?

Þangað til næst vona ég að ykkur gangi betur en mér að halda áramótaheitin eða önnur markmið sem þið setjið ykkur. Knúsist samt sem áður sem aldrei fyrr, það er bara svooo gott.


Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 110292

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband