Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Blómstrandi Lúll

Í dag fórum við hjónaleysin og gróðursettum nokkrar stjúpur á Lúllinu hjá Gullrassinum mínum. Settum niður gular og bláar sem er voða fínt en samt er ég ekki viss um hvort að ég sé alveg sátt við Lúllið eins og það er. Kannski er það vegna þess að stjúpurnar eru ljósbláar en ekki alvöru bláar eða kannski þarf ég að venjast þeim. Kemur í ljós og ef ég er ekki nægilega sátt við þetta eins og það er þá bara breyti ég. Set kannski inn mynd seinna af blómum skreyttu Lúllinu til að sýna ykkur.

Bloggvinkona mín hún Ragnheiður var með færslu í dag um hvort hún ætti að segja að hún ætti fimm börn eða fjögur. Þetta er erfið spurning því hún á fimm en einungis fjögur eru með henni á þessu tilverustigi. Ég er því miður í sömu sporum og hún því ég á fimm börn en bara fjögur hér með mér. Ég segi að ég eigi fimm börn en ég veit að stundum er auðveldara að segja að maður eigi bara fjögur til að losna við allar spurningar og útskýringar sem fylgja hinu svarinu. Komst að því um daginn þegar ég var að skrifa bréf þar sem fram kom hversu mörg börn ég ætti en minn yndislegi unnusti reddaði því fyrir mig og sagði að ég ætti fjögur og að eitt til viðbótar hefði látist í vetur. Einfalt í bréfi en kannski ekki munnlega.

Þangað til næst, knúsið börnin ykkar og látið þau vita hvað þau eru ykkur mikilvæg.


Skemmtilegur dagur

Þetta er búinn að vera skemmtilegur dagur í dag. Við fórum fjögur á sumarhátíð Barnaspítalans en þar var mikið um dýrðir. Grillaðar pulsur, töframaður og maður sem er snillingur í að búa til allskonar hluti úr blöðrum. Einnig kíktu Skoppa og Skrítla í heimsókn með nokkrum vinum sínum úr leikhúsinu og síðan komu Ingó og Veðurguðirnir og spiluðu nokkur lög. Bara skemmtilegt. Við hittum fullt af fólki sem við þekkjum, bæði starfsfólk og aðra foreldra. Ljúft að hitta þau öll.

Eftir Sumarhátíðina ákváðum við að skella okkur á Austurvöll og njóta þessa dásamlega veðurs sem hefur verið í dag og fá okkur ís. Það var ekkert svo margt fólk á Austurvelli og sátum við í rólegheitum og borðuðum ísinn okkar þegar við sáum ráðamenn þjóðarinnar týnast út úr þinghúsinu og ákvað prinsessan að skella sér of taka nokkrar ljósmyndir af liðinu. Hún fékk alltaf góðar móttökur hjá ráðamönnunum og sínu bestar hjá Guðna nokkrum Ágústssyni en hann ræddi við hana í bundnu máli og fékk vegfaranda til að taka mynd af þeim saman. Þá tók skottan eftir því að forsetabílnum var lagt fyrir utan þinghúsið og ákvað hún að bíða eftir forsetanum. Á meðan við biðum spjallaði hún við forsetabílstjórann og annað fólk sem átti leið hjá, fundum jörðina hristast og héldum öll að einhver hefði verið að hrista bekkinn sem við sátum á allt þar til einhver sagði að það hefði verið sagt frá jarðskjálftanum í útvarpinu. Fyndið og það fannst fleirum því fólkið sem sat á bekkjunum í kring hafði einmitt verið að hugsa það sama og við. Þegar forsetinn kom að bílnum talaði bílstjórinn hans við hann og kallaði síðan á Skottuna mína sem fór og spjallaði við forsetann sem síðan bað einhverja konu um að smella mynd af þeim saman. Bara frábært nema hvað? Konan tók engar myndir og við sáum það ekki fyrr en allt of seint.

Síðan á leiðinni heim gerðist svolítið skemmtilegt. Við fórum í Nóatún í Hafnarfirði til að versla eitthvað djúsí á grillið í blíðunni og þar sem við stóðum við kjötborðið að velja steikina kom að okkur ókunnug kona og tók utan um okkur, kyssti og vottaði okkur samúð sína vegna andláts litla Gullrassins míns. Hún er ein af þessu yndislega fólki sem hefur fylgst með Hugin og sent okkur kraft til að geta það sem við gerðum. Ótrúlega skemmtilegt að upplifa þetta og mér þykir svo vænt um þetta. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á eiginlega að segja nema bara TAKK.

Held þetta dugi í bili og þangað til næst bið ég alla um að brosa framan í heiminn því þá brosir heimurinn við ykkur, jafnvel þó jörðin hristist aðeins.


Í fréttum er alltaf þetta helst

Alltaf gaman að fréttum á Íslandinu okkar góða. Undanfarið höfum við farið hamförum yfir meintum fordómum og rasisma sumra Frjálslyndra á Akranesi, síðan kom blessuð Júróvisjón þar sem við öll sem eitt vorum búin að vinna og enn einu sinni voru uppi vangaveltur um hvar best og hægt væri að halda keppnina að ári. Lausnin fékkst og hún er Moskva, flott mál þó ég hafi ekki endilega verið sammála austurblokkinni, mér fannst lagið frá Rúmeníu flottara, en það skiptir ekki máli núna. Síðan leit allt út fyrir að einu fréttirnar sem við fengjum væru frá Eldhúsdagsumræðum á Alþingi og þessum venjulegu olíuverðshækkunum, því ekki eru vörubílstjórar að gera neitt fjölmiðlum til skemmtunar, ja nema kannski Sturla sem var svo heppinn í kreppunni að fá auglýsingasamning við EJS. Þá gerðist það að það var fótboltaleikur spilaður í Keflavík þar sem meintir fordómafullir rasistar frá Akranesi komu i heimsókn. Leikurinn spilaður og Akranes tapar. Þjálfarinn missir sig yfir tapinu og lætur orð falla í hita leiksins í garð KSÍ og dómarans sem fjölmiðlar fara nú hamförum yfir. Frábært fyrir mig sem hef gaman að fylgjast með fréttum, alltaf eitthvað stuð í gangi og engin lognmolla. Kannski ég ætti að prófa þennan vettvang, mér myndi a.m.k. ekki að leiðast. 

Þangað til næst, verið góð við hvert annað þó svo það komi gúrkutíð.


Í flækju

Seinustu daga hefur mig langað til að setja hingað inn svo margt og mikið. Það er svo margt sem ég hef  frá að segja en ég hef oft byrjað að skrifa en eytt því jafnóðum út. Veit bara ekki hvernig í ósköpunum ég á að koma þessum óreiðu hugsunum mínum í orð sem síðan hægt er að skilja. Ég er búin að hugsa frekar mikið undanfarið, pælt og pælt en það skemmtilega við allar þessar djúpu pælingar mínar er að ég hef enga hugmynd um hvað ég er í raun að hugsa og get því ekki sagt almennilega frá. Ana úr einu í annað og skipulagða ég er í smá flækju Frown.

Farin að skrifa lista eða eitthvað til að vinda niður af mér og þangað til næst minni ég ykkur á að hugsa um hvað það er sem er ykkur mikilvægast í lífinu og knúsa það síðan þegar þið hafið fundið það mikilvægasta.


Stundum er ...

...ég sorgmædd og full söknuðar eftir Gullrassinum mínum. Í dag var ég svolítið sorgmædd. Ég var að setja ýmsar blaðagreinar í fallegan fjólubláann kassa sem geymir meðal annars öll samúðarkortin sem þið yndislega fólk senduð okkur eftir að Huginn varð Engill. Það var svona ljúfsárt að skoða greinarnar og kortin, handleika borðana af krönsunum, sálmaskrána og fleira. Við þurfum að fara að huga að því að taka leikföngin hans saman, það er alveg ljóst að hann er ekki að koma heim eftir helgi. Mér finnst stundum eins og hann sé bara í Rjóðrinu og komi heim bráðum. Við erum búin að kaupa stóra gegnsæjan plastkassa undir leikföngin og bíður hann eftir að verða notaður hérna á gólfinu skammt frá leikföngunum. Ég veit að það verður ekki auðvelt að setja dótið niður og ég er viss um að kassinn fái að standa hérna í stofunni í einhvern tíma eftir að við verðum búin að setja í hann. En stundum er lífið bara erfitt.  Við þurfum líka að fara í það að skila hjálpartækjunum og ég held að það verði ekki auðvelt. Við höfum þó alltaf leikföngin og getum leikið okkur smá með þau. Verst held ég þó að það verði að skila rúminu hans. Herbergið okkar verður galtómt á eftir og ég veit ekki hvort að ég sé tilbúin fyrir það.

Þrátt fyrir að vera stundum sorgmædd þá er ég samt almennt glöð. Ég er þakklát því sem ég hef og því sem ég hafði. Ég hef verið og er heppin því það er svo margt sem gefur lífinu tilgang og ég held að ég kunni að meta þessu litlu hluti sem almennt eru svo sjálfsagðir að enginn tekur eftir þeim fyrr en þeir eru ekki lengur möguleiki. Ég hef lært ótrúlega margt á síðastliðnum árum og þá helst hversu mikið ég á eftir ólært. En eitt af því sem ég veit er að lífið er yndislegt.

Þangað til næst býð ég ykkur að njóta lífsins og brosa svolítíð út í bæði. Knús á ykkur öll.


Með brosi birtir

Spakmæli dagbókarinnar minnar frá því í síðustu vikur er á þessa leið: Hamingja heila ævi, enginn maður þyldi slíkt, það yrði jarðneskt víti.  Kannski yrði lífið víti ef ekkert blési á móti, aldrei. Ég veit það ekki en stundum finnst mér blása full mikið á sumt fólk. Ég er þó alveg sannfærð um að það sé alltaf auðveldara að berjast á móti storminum með bros í hjarta og sál. Það er ekki alltaf auðvelt en það verður að minnsta kosti að reyna og trúa.

Undanfarna daga hef ég verið að dunda mér við að taka herbergi Prinsessunnar minnar í gegn. Spartlað, málað, smíðað og leikið mér aðein að rafmagninu. Það var reyndar ekki vanþörf á smá yfirhalningu því það hefur ekkert verið gert fyrir herbergið síðan við fluttum hingað fyrir 4 árum. Það vantaði parketlista, innstungurnar voru ýmist ótengdar eða illa farnar. Ljósin voru blá og það passar illa við bleikt. Núna eru komnir listar og nýjar innstungur, veggirnir bleikir, flottir risa stórir púðar í rúmið til að nota þegar setið er í rúminu, ný falleg ljós og lampi í óskalitnum. Sem sagt bara flott. Stelpan er alla vega mjög sátt og hamingjusöm með þessa breytingu.

Þangað til næst, munið að brosa þótt stundum sé stormurinn í fangið.


Líffæragjöf = lífgjöf

  • Vissir þú að með því að gefa blóð þá bjargarðu mannlífum?
  • Vissir þú að með líffæragjöf er hægt að bjarga mörgum mannslífum?
  • Vissir þú að í flestum tilvikum þar sem líffæragjöf er möguleiki, er hafnað á Íslandi?
  • Vissir þú að samkvæmt Íslenskum lögum er gengið út frá neitun mögulegs líffæragafa?
  • Vissir þú að flest líffæri fullorðinna passa ekki í börn?

Þú verður að láta aðstandendur þína vita um afstöðu þína til líffæragjafar, hver svo sem hún er. Það er erfið og ósanngjörn ákvörðun fyrir aðstandendur á ögurstundu að þurfa að taka ákvörðun um hvað þú myndir vilja. Ef þú hefur tekið ákvörðun og látið vita af henni þá verður ákvarðanataka auðveldari. Taktu líka ákvörðun um börnin þín.

  • Mundu, það er alltaf hægt að skipta um skoðun.
  • Taktu afstöðu í dag, því lífið er núna.

3 ár

Í dag eru 3 ár síðan ég gaf Gullrassinum mínum lifur til þess að hann gæti lifað. Lifrin virkaði fullkomlega frá fyrstu stundu. En því miður var góð lifur ekki nóg, hann varð aftur veikur og...


Söngstjarnan hún dóttir mín.

Ásdís Rán að syngja

Brjálað að gera hjá minni í gær. Byrjaði eftir hádegi að greiða og krulla hárið á prinsessunni minni vegna sögvakeppni sem haldin var í skólanum hennar. Keppnin er í tengslum við evróvision og kallast því Mylluvision. Prinsessan var löngu búin að ákveða að taka þátt í keppninni, hún tók einnig þátt í fyrra með annarri stelpu. Þá fannst ekki playback fyrir lagið þannig að þær urðu að syngja án undirspils. Þá lentu þær í 3. sæti. Núna ætlaði hún að syngja á íslensku eitt ákveðið lag en fékk því

Með sigurlaunin, pizzaveislu

miður svar of seint frá höfundum lagsins um playbackið þannig að hún ákvað að syngja lagið Fabulus úr High school musical í staðinn. Fékk 2 vinkonur sínar til að dansa með sér en sá sjálf um sönginn. Til að gera langa sögu stutta þá var gríðarlega hamingjusöm stúlka sem sveif heim í 7. himni eftir að hafa sigrað keppina með glæsibrag. Verð að viðurkenna að barnið hefur afar fallega rödd og mikið raddsvið og þrátt fyrir ungan aldur er röddin vel þroskuð. Hún verður örugglega fræg einhvern daginn, það er að segja ef hún vill það. Ok ég er að springa úr monti en ég má það. Ég er mamma hennar.

Fór síðan eftir söngvakeppnina á fótboltaleik og einhverra hluta vegna datt mér í hug að taka með mér teppi. Hef ekki gert það áður. Ég get svo svarið það að þetta teppi varð okkur til lífs. Þvílíkur kuldi. Meira að segja var mínum yndislega unnusta ískalt og er það mikið sagt. Honum er næstum alltaf heitt. Fórum síðan heim glöð í bragði eftir sigra dagsins, bæði  í söng og sparki og fengum okkur að borða nautasteikina sem ég grillaði um leið og ég greiddi stjörnunni.

En þar til næst bið ég alla um að eiga stórgóða helgi og knúsast svolítið fyrir mig.

Ps. Takk kærlega fyrir upplýsingarnar sem ég var að vandræðast með í síðustu færslu.


Ég er latur bloggari, held ég

Úpps alltof langt síðan ég bloggaði síðast en ætla að reyna að bæta úr því núna. Síðustu dagar hafa verið nokkuð umsetnir. Ég fór heim í heiðardalinn um helgina og tók með mér slatta af fjölskyldunni. Áttum við yndislega daga í sveitinni hjá foreldrum mínum, sáum folöld og allt. Það er alltaf gaman að sjá þessi kríli svona nýköstuð, þau eru svolítið fyndin svona óstyrk á fótunum og hrædd við allt. Þetta óöryggi varir ekki lengi og eftir smá stund eru þau orðin fótfrá og óhrædd. Verð líka að viðurkenna að það er yndisleg tilbreyting að láta dekra svona við sig eins og foreldrar mínir gerðu við okkur, skil vel að börnin séu spennt fyrir því að fara til þeirra. Knús á ykkur mamma og pabbi.

Í gær skellti ég mér út í garð og afrekaði það að klippa limgerðið og rífa upp njóla og anað fínt illgresi. Fór síðan út aftur í morgun og viti menn. Ég er byrjuð á pallinum mínum! Ætla ekki að koma með áætlaðan verklokadag, er nefnilega ekki viss um að geta staðið við hann og þyrfti þá jafnvel að borga sektir en samt er það einlæg von mín og trú að hægt verði að bleyta í kroppnum að utanverðu á Ljósanótt. Dagskrá morgundagsins er að halda áfram að smíða pall en vegna gamals vana þá eru allar áætlanir skráðar með blýanti sem auðvelt er að stroka út og rita nýja áætlun. Er annars með svaka strengi í höndunum og gæti því þurft að eyða deginum í sjálfsmeðaumkun og ræfildómi.

Við fórum áðan að heimsækja Hugin og ákváðum að fara að skreyta Lúllið hans með gulum blómum fljótlega. Við höfum verið að velta fyrir okkur einu en það eru reglur kirkjugarðanna. Við vitum að það er fullt af hlutum sem eru ekki leyfilegir að gera við leiði eins og að planta trjám en okkur langar að vita hvað má og hvað ekki má. Við hliðið að garðinum er fólki bent á að kynna sér reglur garðsins á húsinu sem er þarna en þar eru einu leiðbeiningarnar við hvern maður á að tala ef um legsteinaviðgerð er að ræða. Veit einhver hvar er hægt að finna þessar upplýsingar á netinu, við höfum ekki fundið þær ennþá.

En þangað til næst, hvenær sem það verður, mundu að þú ert frábær persóna.


Næsta síða »

Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband