Skemmtilegur dagur

Þetta er búinn að vera skemmtilegur dagur í dag. Við fórum fjögur á sumarhátíð Barnaspítalans en þar var mikið um dýrðir. Grillaðar pulsur, töframaður og maður sem er snillingur í að búa til allskonar hluti úr blöðrum. Einnig kíktu Skoppa og Skrítla í heimsókn með nokkrum vinum sínum úr leikhúsinu og síðan komu Ingó og Veðurguðirnir og spiluðu nokkur lög. Bara skemmtilegt. Við hittum fullt af fólki sem við þekkjum, bæði starfsfólk og aðra foreldra. Ljúft að hitta þau öll.

Eftir Sumarhátíðina ákváðum við að skella okkur á Austurvöll og njóta þessa dásamlega veðurs sem hefur verið í dag og fá okkur ís. Það var ekkert svo margt fólk á Austurvelli og sátum við í rólegheitum og borðuðum ísinn okkar þegar við sáum ráðamenn þjóðarinnar týnast út úr þinghúsinu og ákvað prinsessan að skella sér of taka nokkrar ljósmyndir af liðinu. Hún fékk alltaf góðar móttökur hjá ráðamönnunum og sínu bestar hjá Guðna nokkrum Ágústssyni en hann ræddi við hana í bundnu máli og fékk vegfaranda til að taka mynd af þeim saman. Þá tók skottan eftir því að forsetabílnum var lagt fyrir utan þinghúsið og ákvað hún að bíða eftir forsetanum. Á meðan við biðum spjallaði hún við forsetabílstjórann og annað fólk sem átti leið hjá, fundum jörðina hristast og héldum öll að einhver hefði verið að hrista bekkinn sem við sátum á allt þar til einhver sagði að það hefði verið sagt frá jarðskjálftanum í útvarpinu. Fyndið og það fannst fleirum því fólkið sem sat á bekkjunum í kring hafði einmitt verið að hugsa það sama og við. Þegar forsetinn kom að bílnum talaði bílstjórinn hans við hann og kallaði síðan á Skottuna mína sem fór og spjallaði við forsetann sem síðan bað einhverja konu um að smella mynd af þeim saman. Bara frábært nema hvað? Konan tók engar myndir og við sáum það ekki fyrr en allt of seint.

Síðan á leiðinni heim gerðist svolítið skemmtilegt. Við fórum í Nóatún í Hafnarfirði til að versla eitthvað djúsí á grillið í blíðunni og þar sem við stóðum við kjötborðið að velja steikina kom að okkur ókunnug kona og tók utan um okkur, kyssti og vottaði okkur samúð sína vegna andláts litla Gullrassins míns. Hún er ein af þessu yndislega fólki sem hefur fylgst með Hugin og sent okkur kraft til að geta það sem við gerðum. Ótrúlega skemmtilegt að upplifa þetta og mér þykir svo vænt um þetta. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á eiginlega að segja nema bara TAKK.

Held þetta dugi í bili og þangað til næst bið ég alla um að brosa framan í heiminn því þá brosir heimurinn við ykkur, jafnvel þó jörðin hristist aðeins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Yndisleg færsla hjá þér, og þessu trúi ég á Guðna (hann er barnagæla) verst að myndir af forsetanum klikkuðu !

Næstum hefðum við getað hist í þessu Nóatúni, ég skrapp þangað um kvöldmatarleytið !

Ragnheiður , 29.5.2008 kl. 22:47

2 Smámynd: Þórunn Eva

já æji við ætluðum að reyna að fara á sumarhátíðina en við vorum í innskrift fyrir aðgerð þannig við misstum af henni og varð litli kútur frekar sár.. en við mætum bara næst....

Þórunn Eva , 31.5.2008 kl. 17:49

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ekki amalegt að vera í svona flottum félagsskap þegar jörðin hristist. Ég var bara í vinnunni og ruggaði aðeins til, sonurinn lék aftur á móti á reiðiskjálfi heima á Skaga.

Guðríður Haraldsdóttir, 31.5.2008 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 110304

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband