Rýnt í síðustu ár

Fyrir tæpum 3 árum eignaðist ég son. Algeran engill, svo undurfagran. Hann fæddist veikur, svo veikur að honum var ekki hugað langt líf. Það vissi enginn hvað var að honum fyrr en 3 vikum eftir fæðingu og á þeim tíma var hann að berjast við þessi ókunnu veikindi, fékk heilahimnubólgu og varð mjög veikur. Við létum skíra hann á Vökudeildinni vegna þess að hann gat dáið hvenær sem er. Þegar loksins var búið að komast að því hvað var að drengnum mínum var hægt að byrja meðferð við sjúkdómnum og við fengum að vita að 4 af hverjum 5 læknuðust með aðstoð lyfjanna og tímans. Þessi eini þyrfti frekari meðferð sem fólst í líffæraskiptum. Litli drengurinn minn var einn af þeim. Við fórum með hann til Bandaríkjanna 5 mánaða gamlan og fárveikann til að skipta um lifur í honum. Við þurftum að skilja hin börnin okkar eftir heima í góðum höndum vina okkar.

Við þurftum að bíða í mánuð eftir að aðgerðin færi fram og á þeim tíma hrakaði drengnum mikið og var hann orðinn svo veikur að læknarnir bjuggust alveg eins við því að hann myndi ekki lifa aðgerðina af. En hann gerði það og hresstist nokkuð fljótt. Þá veikist hann aftur en núna eru lungun að stríða honum og hann er settur í öndunarvél sem hann var í í 42 daga. Oft var hann við það að kveðja okkur á þessum tíma. Varð fyrir því meðal annars að missa nær allt blóð úr líkamanum en fyrir einhverja ótrúlega heppni tókst að bjarga honum enn einu sinni. Næstu mánuði var hann meira og minna í öndunarvél en síðan kom að því að hann var útskrifaður af spítalanum og fórum við með hann heim í íbúðina okkar þarna úti. Þá vildi ekki betur til en svo að við höfðum fengið rangar upplýsingar um fæðublöndunina og hann fárveikist og við förum með hann á bráðamóttökuna þar sem hann fær lost og er nærri dáinn. Hann er fluttur á gjörgæslu og í nokkra daga er hann á milli heims og helju en fer síðan að koma aftur til okkar. Við förum aftur með hann heim í íbúðina okkar, núna með rétta formúlu fyrir fæðuna. Hann veikist aftur og aftur fer hann á bráðamóttöku og á gjörgæslu og aftur í öndunarvél.

Á þessum tíma erum við búin að vera nærri hálft ár í Bandaríkjunum án þess að hitta hin börnin okkar. Vegabréfsáritunin við það að renna út og við búin að taka öll gögn saman til að framlengja vegabréfsáritunina. Þá er ákveðið að við verðum sótt frá Íslandi og kom læknirinn okkar ásamt hjúkrunarfræðingi að sækja okkur. Þegar við komum heim er strax farið með drenginn í sjúkrabíl á Barnaspítalann og trúðum við því að þar yrði hann í 2-3 vikur. Vikurnar urðu að mánuðum og áður en við vissum af var liðið meira en ár og drengurinn okkar enn á spítala. Hann veikist illa í nóvember og lendir í öndunarvél. Náði sér aftur en var samt frekar veikur, það veikur að hann varð að vera á spítala. Við skiptumst á að vera hjá honum frá morgni til kvölds en fórum heim á kvöldin til að sofa. Það okkar sem var heima hugsaði um hin börnin og heimilið. Þegar við vorum búin að vera svona í 5 mánuði gekk það ekki lengur og var bætt við stöðugildi á deildinni sem myndi leysa okkur af kl. 4 á daginn, en bara virka daga, helgarnar urðum við að sjá um. Það var ótrúleg upplifun að geta sest öll fjölskyldan saman við kvölverðarborðið í 2 sinn frá því komum heim frá Bandaríkjunum. Hitt skiptið var á aðfangadagskvöld. 2 á 5 mánuðum er alls ekki ásættanlegt fyrir nokkra fjölskyldu.

Litli drengurinn minn var enn mjög veikur og þurfti lítið til að hann færi á gjörgæslu í öndunarvél. Á annan í páskum erum við vakin með símhringingu og er það læknirinn hans. Hann sagði okkur að litli drengurinn okkar hefði dáið en það hefði verið hægt að endurlífga hann og hann væri núna á gjörgæslu í öndunarvél sem andaði 600 sinnum fyrir hann á mínútu. Við stukkum á fætur og rukum í bæinn til hans. Hann lá á milli heims og helju í þessari vél í nokkra daga og í fyrstu var honum ekki hugað líf en mikið rosalega var gott þegar hægt var að lækka aðeins í stillingunum í vélinni, það væri þó eitthvað aðeins upp á að hlaupa. Hann náði sér enn og aftur upp úr þessu en núna var greinilegt að eitthvað hefði skaðast. Við vissum ekki hversu mikið og vitum ekki enn. Eftir þetta fór honum þó fram og styrktist með hverjum mánuðinum og fór svo að hann var útskrifaður af spítalanum eftir að hafa verið þar í rúma 14 mánuði. Hann var heima hjá okkur um síðustu jól en vegna þess að við vorum ekki með nægilega góð tæki heima dró af honum og var ákveðið að leggja hann inn á spítalann aftur eftir áramótin til að hvíla hann og redda okkur betri tækjum. Þá vill ekki betur til en að á Þrettándanum deyr litli sonur okkar aftur. En núna illu heilli var manneskja hjá honum þegar það gerist og gat kallað á aðstoð um leið og tókst að halda hjartanu í gangi þannig að hann varð ekki fyrir súrefnisskorti í þetta sinn. Ekki tókst að tengja hann við öndunarvél þannig að það varð bara að blása og blása hann. Eftir 45 langar og erfiðar mínútur fer hann loksins að anda sjálfur og er síðan fluttur á gjörgæslu. Við vorum heima sofandi þegar við fáum símtal þar sem okkur er sagt að litli engillinn okkar hefði hætt að anda og komum í þeirri mund á spítalann sem hann byrjaði loksins að anda sjálfur. Mikið rosalega var gott að sjá hann anda og hreyfa sig. Það er ótrúleg tilfinning og er í raun ekki hægt að lýsa henni.

Seinna í janúar var haldinn fundur þar sem okkur er sagt að það séu afar litlar líkur á því að hann verði 3 ára. Í febrúar tökum við drenginn heim og hefur hann verið heima að mestu síðan. Hann hefur reyndar veikst þegar hann fór í Rjóður og verið fluttur á spítala en þá hefur verið um ofþornun að ræða og hann því fljótur að jafna sig eftir það en að öðru leiti hefur hann verið hress. Nú er litla hetjan mín að verða 3 ára og allar líkur á því að allar forspár rætist ekki. Hann hefur sýnt svo ótrúlegan lífsvilja og kraft að það er aðdáunarvert. Hann hefur ekki gefist upp.

Núna þegar hann er að verða 3 ára þá er hann enn mikið veikur og getur ekki setið einn, hann talar ekki orð, borðar ekki venjulegan mat heldur fær næringu í gegnum hnapp sem liggur beint inn í maga, fínhreyfingarnar eru litlar og grófhreyfingarnar mættu vera betri. Hann er tengdur súrefni allan sólarhringinn og sefur tengdur við monitor og í sérstakri öndunarvél. Hann hefur sýnt miklar framfarir en þær mættu samt vera meiri. Hann vex samt eðlilega og er því orðinn stór og þungur eins og önnur 3 ára börn. Þegar hann fer að sofa þá bíð ég litla drengnum mínum góða nótt og bið hann að sofa rótt og anda í alla nótt.

Fyrir mig sem móður hefur þetta verið tími hláturs og gráturs. Það að barnið manns sé alltaf í lífshættu og oft í meiri hættu vitandi það að það þarf ekki mikið til að hann kveðji alveg er ekki auðvelt. Vegna veikindanna hefur mitt líf tekið miklum breytingum.  Ég hef þurft að helga mig umönnun hans og hætta að vinna utan heimilis, hætta í námi og margt fleira. Vegna veikindanna hefur félagslífið orðið útundan því það er svo margt annað sem kemur fyrst í forgangsröðinni sem gerir það að verkum að ég hef misst samband við marga vini og kunningja. Ég er oft það þreytt að ég hef ekki orku í að taka upp símann og hringja í vinkonu hvað þá að fara í heimsókn til hennar. Einnig hef ég vegna stöðu minnar ekki mikið um að tala, lítið meira en veikindi og líf drengsins míns og það er frekar einhæft umræðuefni til lengdar. Fólk er einnig smeykt við að hringja eða koma vegna þess að þau gætu verið að trufla og einnig að þau gætu smitað drenginn af einhverju. Hann er viðkvæmur fyrir sýkingum vegna ónæmisbælingar. Við fengum í sumar algera himnasendingu en þá var ráðin inn kona til að passa drenginn svo við gætum skroppið aðeins út saman en fram að því var það þannig að enginn gat passað drenginn. Það vorum við foreldrarnir og enginn annar. Hann er tengdur í fullt af tækjum og allt mögulegt getur komið upp á og hefur því ekki verið hægt að fá einhvern til að passa. Ættingjar treysta sér ekki í það verkefni sem er vel skiljanlegt. Konan sem var ráðin fékk langa aðlögun og þjálfun á tækin því það er ekki einfalt að læra á þau. Þrátt fyrir að fá þessa konu okkur til aðstoðar þá er ekki auðvelt að fara út af heimilinu. Hvað á að gera, hvert á að fara. Það er spurningin. Við erum búin að gleyma því hvað eigi að gera þegar við eigum frí og hreinlega kunnum það ekki. Við erum þó að læra.

Þessi veikindi hafa ekki einungis haft áhrif á mitt líf heldur líf fjölskyldunnar í heild sinni. Hin börnin okkar hafa liðið fyrir litla bróður sinn á þann hátt að við höfum ekki getað verið eins virk í þeirra félagsstörfum og við hefðum annars verið.  Við höfum lítið getað farið öll saman til að gera eitthvað eins og að fara í bíó, keilu eða bara út að hjóla. Að horfa á börnin sín þegar þau hafa verið að spila fótbolta eða keppa á fimleikamóti er eitthvað sem hefur eiginlega ekki verið í boði, höfum þó reynt allt til að geta gert þetta og stundum tekist en oftar ekki. Allt hefur miðast við það hvernig drengurinn hafi það og "ef og kannski og við skulum reyna" eru orð sem eru of mikið notuð á okkar heimili og allt of oft hafa þau ráðið ferðinni. Samband okkar foreldranna hefur einnig fengið að kenna á þessum veikindum en við höfum borið þá gæfu til að vinna saman að lausnum og teljum að fyrst við höfum komist hingað þá komumst við áfram saman. Skilnaðir eru mjög algengir hjá foreldrum í sambærilegri stöðu og við erum í og er það mjög skiljanlegt því álagið er oft á tíðum ómannlegt, bæði líkamlegt álag og ekki minna andlegt. Það tekur á að lifa stanslaust í ótta.

Jæja, nú ætla ég að fara að hætta þessu kveini mínu og skella Pollíönnu grímunni á aftur. Ég hef reyndar þann mikla kost að vera bjartsýn og glöð að eðlisfari og er sannfærð um að það hafi fleytt mér í gegnum þetta allt. Ég er ekkert að hætta því og hef heldur verið þekktari fyrir að gefast ekki upp frekar en uppgjöf.  Samt er ég svo hrædd. Því vil ég minna alla á að láta ástvini sína vita hversu mikið ykkur þykir vænt um þá, það er ekki víst að allir verði hér á morgun.

Fyrirgefið mér þetta en mig langaði bara til þess að gefa smá innsýn í líf mitt undanfarið og aðeins að prófa hvort að þetta geti ekki létt aðeins á huganum. Eru ekki blogg annars fyrir svoleiðis?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allan þennan tíma hef ég fyglst grannt með drengnum ykkar litla, svo það var kannski ekki margt sem ég sá nýtt hjá þér núna.  Samt var það skelfilega erfitt að lesa þetta svona og sjá  í ekki fleiri línum hve erfitt líf þið öll hafið átt síðastliðin ár og vanmátt manns til að geta hjálpað.  Verst af öllu er þó að vita hve illa þjóðfélagið stendur að málum fólks sem stendur í ykkar sporum.

Knúsaðu kallin þinn og gullrassinn, já og stóru börnin líka frá mér, þið eruð hetjur í mínum huga.

Amma Halla (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 20:19

2 identicon

Sæl, Fjóla mín. Ég var á einhverju netrápi og datt inn á bloggið þitt, kannaðist við nafnið og fór að lesa. Það er langt síðan við höfum hist, það hefur heldur ekki verið oft, síðan þu varst í skóla á Húnavöllum!  Ég varð djúp snortin af sögu þinni. Þú ert mikil hetja að taka saman, í ekki fleiri orðum, frásögn af lífi fjölskyldunnar í þessum erfiðu aðastæðum. Það óskar sér enginn að verða fyrir áföllum og líklega er fátt sárara en að þurfa að horfa á lítið saklaust barn, barnið sitt, verða að berjast svo harðri baráttu fyrir því sem við öll tökum sem sjálfsögðum hlut - lífinu sjálfu - og geta svo lítið orðið að liði. Þakka þér fyrir að deila með okkur öllum þessari yfirlætislausu frásögn af lífi ykkar og veikindum litla drengsins ykkar. Megi bænir og hlýjar hugsanir mínar og annarra lesenda létta ykkur öllum lífið svo þið getið horft fram á bjartari daga.

Ingunn Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 23:00

3 Smámynd: Mummi Guð

Halla, takk fyrir knúsið. Ég fékk flott knús hjá Fjólunni frá þér!

Mummi Guð, 4.10.2007 kl. 23:50

4 Smámynd: Anna Gísladóttir

Þið eruð hetjur  

Kveðja til ykkar allra

Anna Gísladóttir, 5.10.2007 kl. 01:42

5 Smámynd: Rannveig Lena Gísladóttir

Júbb, blogg er sko til að koma svona frá sér... því sem kannski er auðveldara að skrifa niður á blað heldur en að "tala" um.  Saga ykkar og Hugsins er hetjusaga á svo margan hátt. 

Bestu kveðjur í Keflavíkina

Rannveig Lena Gísladóttir, 5.10.2007 kl. 08:33

6 Smámynd: Fjóla Æ.

Takk fyrir falleg orð í minn garð og fjölskyldu minnar.

Fjóla Æ., 5.10.2007 kl. 09:47

7 identicon

Eg er dúpt snortinn af sögu ykkar Mumma, bara takk fyrir að hafa skrifað þetta niður, hleypa okkur aðeins inn í líf ykkar fjölskyldu. Ef ég má, þá vil ég setja tengilinn við þessa grein Fjóla á síðuna mína, það hafa ALLIR gott af að lesa þetta. Þetta hjálpar einnig að þrýsta á stjórnvöld um aðstoð við foreldra langveikra barna eins og ykkar. Bara ástarþakkir og gangi ykkur vel með Huginn litla.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 09:57

8 identicon

Ég elska þig mamma !

Ég elska Huginn Heiðar svo mikið !

Ef einhver er hetja er hann það :**

Hafrún Eva (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 12:54

9 identicon

Ég sit hér með tárin í augunum og kökk í hálsinum eftir þennan lestur því að ég veit svo vel hvað þið hafið þurft að ganga í gegn um. Þið eigið svo óendanlega falleg, dugleg og yndisleg börn að maður tali nú ekki um ykkur og enn og aftur þökkum við Jón fyrir að hafa getað verið ykkur innan handa og við verðum það alltaf

((risaknús)) 

Berglind (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 23:17

10 identicon

Fjóla mín. Í þennan stutta tíma sem ég var eins og grár köttur hjá þér í sumar, sá ég af hve miklu æðruleysi þú tókst þínum/ykkar aðstæðum.

Ég tek ofan fyrir ykkur hjónum, þið eruð hetjur hversdagsins, berjist fyrir syni ykkar og bættri þjónustu við langveik börn og fjölskyldur þeirra.

Gangi ykkur allt i haginn.

flakkari (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 11:13

11 identicon

Sæl Fjóla og fjölskylda.  Ég var alltaf í sveit á Efri-mýrum í denn.  Systir hennar Guðrúnar Aspar.  Það er nú svo einkennilegt með lífið að ég hef verið með opin eyrun og heyrt mikið um baráttu Hugins, ég kannaðist við þig á myndum. En aldrei tengdi ég þig rétt fyrr en í dag þegar ég var að skoða bloggið hennar Höllu í sveitinni(verður alltaf kölluð það).  Ég var í brúðkaupi þann 11. ágúst síðastliðin og þar komu nöfn ykkar fram.  Ég vona að systkini Hugins hafi getið notið velvild gesta brúðkaupsins.  Gangi ykkur sem allra best, þið eruð öll hetjur í mínum huga.  Kv. María Sif

Maria Sif Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 10:21

12 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

.... baráttu- og stuðningskveðjur..... þegar maður les svona þá veit maður ekki hvað maður á að segja.... annað en að maður lifir hálgerðu vernduðu lífi og barmar sér oft yfir hlutum sem skipta akkurat engu máli.... dáist af dugnaði ykkar og kjarki....... takk fyrir að deila með okkur hinum.

Fanney Björg Karlsdóttir, 7.10.2007 kl. 15:24

13 Smámynd: Svandís Rós

Takk fyrir þetta! Það er búið að vera alveg ótrúlegt að fylgjast með baráttu ykkar úr fjarlægð. Ég vona líka að myndin "A Lion in the House" komi til með að hafa jákvæð áhrif og verða til þess að breytingar verði gerðar til að koma til móts við ÞARFIR fjölskyldna eins og ykkar.

Það er ekkert lítið sem þið þurfið að ganga í gegnum, börnin ykkar og samband ykkar Mumma.

Við hin, sem búum ekki við þennan veruleika vitum í raun og veru ekki hvernig þetta er. En með skrifum eins og þínum - þá fáum við smá innsýn.

Takk Fjóla og knús á ykkur öll! 

Svandís Rós, 7.10.2007 kl. 15:34

14 Smámynd: Dísa Dóra

Takk fyrir mjög góðan pistil sem svo sannarlega var erfitt að lesa.  Sat hér og grét vegna litla kraftaverkakallsins sem hefur svo sannarlega sýnt hvílíkan styrk hann hefur.  Hann er algjör hetja.  Grét líka vegna þeirra erfiðleika sem hann hefur þurft að ganga í gegn um og þið fjölskyldan öll.  Hef fylgst með ykkur af og til í gegn um árin en þessi pistill samt segir svo miklu meira en maður gerði sér almennilega grein fyrir.

En ég verð líka að viðurkenna að ég grét vegna gleðinnar yfir að eiga fullkomlega heilbrigða og fallega litla stúlku og þessi pistill sýndi mér svo sannarlega að það er langt í frá sjálfsagður hlutur.  Hún verður svo sannarlega knúsuð extra þegar hún kemur inn af blundinu sínum væra.

Sendi ykkur góða strauma og megi allar góðar vættir styrkja ykkur og styðja í baráttunni 

Dísa Dóra, 8.10.2007 kl. 11:05

15 Smámynd: Árný Sesselja

Elsku Fjóla og Mummi og öll ykkar börn.

Alveg frá byrjun hef ég fylgst með Huginn litla og ykkur. Oft hef ég grátið fyrir lestrinum og verð að játa að ég gerði það líka núna yfir þessum pistli.  Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er að standa í ykkar sporum og allt það sem þið hafið þurft að reyna.  Ég ætla ekki einu sinni að reyna það.  

Mér finnst orðið "hetja" ekki einu sinni vera nógu stórt og mikið orð til að lýsa ykkur og Huginn.  Þvílík raun og þvílík bárátta sem þið hafið gengið í gegnum.  Orð fá því varla lýst. 

Mér fannst svo yndislegt að koma í heimsókn núna fyrir ekki svo löngu síðan og sjá ykkur, þó svo að ekki hafi verið allir heima.  EN sá þá hvernig líf ykkar er á hverjum degi.   Þið eru mun meira en hetjur og eigið allt gott skilið.

Með einskærri von um bjarta og góða daga.

Kveðja Árný Sesselja 

Árný Sesselja, 9.10.2007 kl. 00:32

16 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þið eruð greinilega afskaplega sterk og samhent fjölskylda. Ég á svolítið erfitt með að halda aftur af tárunum núna. Þvílíkt líf! hjá ykkur öllum. Ég bið æðri mátt að fylgja ykkur áfram og vona að þið haldið styrknum ykkar. Þú mátt vera stolt af þessu öllu.

Jóna Á. Gísladóttir, 9.10.2007 kl. 14:18

17 identicon

Æi Fjóla mín....ég bara á ekki orð...það sem lífið getur verið erfitt og ranglátt.Hver er tilgangurinn að láta fólk þjást svona.En það er gott að geta sett upp Pollýönnu grímuna bæði fyrir þig og aðra.Ég veit að þú ferð lengra en margur annar á þinni léttu lund og ákveðni.Ég vona svo sannarlega að hann Huginn fari að braggast og líða betur og ykkur líka.Þegar börnin manns eiga í hlut þá er maður svo vanmáttugur .Ég hugsa fallega til ykkar

Hrönn á Skagaströnd (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 15:23

18 Smámynd: Gerða Kristjáns

Úfff, það er erfitt að skrifa í gegnum tárin, en ekki í fyrsta sinn sem ég les eftir þig og tárast.
Þið eruð svoooo dugleg og standið ykkur svooo vel, framhaldið verður vonandi betra en það hefur verið.
Knús á ykkur öll, ég skal  hafa það af þótt síðar verði að kíkja á ykkur í Keflavíkina :)

Knús
Gerða Kristjáns

Gerða Kristjáns, 9.10.2007 kl. 20:00

19 Smámynd: Fjóla Æ.

Takk fyrir viðbrögðin öll. Mig langar til að segja svo margt við ykkur en er aldrei þessu vant orðlaus. En hef þó það að segja við ykkur sem langar að koma í kaffi, verið innilega velkomin og þið sem hafið komið, takk fyrir komuna ég hlakka til að hitta ykkur aftur.

Hrönn, að fá þessi orð frá þér snerti mig djúpt. Ég veit að þú veist hvað lífið getur verið erfitt og ranglátt og að þú þekkir hana Pollýönnu. Ég hugsa sömuleiðis fallega til þín og það oft.

Fjóla Æ., 9.10.2007 kl. 23:51

20 Smámynd: Ragnheiður

Ég er ein þeirra sem fylgdist með á barnalandssíðunni hans Hugins litla. Við lestur þessa pistils verður mér ljóst að oftar en ekki hef ég ekki skilið hversu litlu mátti muna. Þú ert ótrúlega dugleg kona og ég er viss um að bjartsýni þín gerir mikið fyrir ykkur öll.

Baráttukveðja til ykkar allra

Ragnheiður , 10.10.2007 kl. 09:10

21 Smámynd: Mummi Guð

Ég verð að leggja aðeins orð í munn. Þessi pistill hjá Fjólu er mjög góður og lýsir nokkuð vel því sem við höfum gengið í gegnum. Ég var spurður um helgina hversu oft hefur Huginn verið fluttur á Gjörgæsludeildina síðan við komum heim, ég gat ekki svarað því og það segir mikið um baráttuna hans Hugins. En ég gæti trúað að það væri 10-12 skipti.

Barnalandssíðan hans Hugins var fyrst og fremst hugsuð til að fólk gæti fylgst með baráttu hans, en ekki baráttu okkar. En stundum misstum við okkur aðeins á síðunni hans, en það var bara gott. Þegar upp koma atvik sem gera okkur reið eða finnst á okkur brotið, þá finnst okkur ekki hægt að skrifa alltaf um það á síðunni hans Hugins, þá er fínt að hafa annan vettvang til þess og fá útrás fyrir tilfinningar sínar.

Mummi Guð, 10.10.2007 kl. 09:43

22 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

þið eruð öll miklar hetjur, sérstaklega þó hann Huginn gullmolinn litli.

Bið góðan Guð að styrkja ykkur öll 

Knús tl allra frá Gunna frá Hvammstanga :* 

Guðrún Jóhannesdóttir, 10.10.2007 kl. 12:27

23 Smámynd: Ásta María H Jensen

Lífið heldur ykkur svo sannarlega í heljargreypum.  Ég get aðeins ýmindað mér hvernig tilfinning það er að hræðast að taka upp tólið eða líta inn til barnsins með þeim ótta hvort allt sé í lagi með hann.  Ég býst við að hver sigur hefur ábyggilega alltaf verið von um að nú sé baráttan unnin, en svo virðist ekki.  Að vera endalaust bjartsýnn og að halda í vonina, sættast við það sem orðið er sem getur fylgt svona mörgum skiptum í öndunarvél.  Ég verð bara að segja að þetta rosalega sterk ást sem heldur ykkur öllum saman. Hin börnin eru líka hetjur.  Ég sendi ykkur styrk til að takast á við þetta saman og Guð veri með ykkur.  Mín vegna þá þarftu sko ekki að vera nein Pollíanna, það er ekkert alltaf hægt, það kannski leyfir manni að gleima smá stund erfiðleikunum.  Mér finnst kerfið ekki sinna fólki einsog þér einsog þið eigið skilið.  Þið eruð í fullri vinnu og meira en það.

Ásta María H Jensen, 10.10.2007 kl. 22:12

24 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þetta er rosaleg saga. Fyrir nokkrum mánuðum datt ég inn á Barnalandssíðuna hans Hugins og las alla söguna frá upphafi til enda. Það var fátt annað gert þann daginn og bæði hlegið og grátið í himnaríki. Ég vissi ekkert hver Fjóla, bloggvinkona mín var í fyrstu, hvað þá að Mummi Guð sem ég las oft væri maðurinn hennar ... Æ, þið eruð svo dugleg og frábær, það skín í gegnum öll skrifin ykkar þótt þið gerið ykkur kannski enga grein fyrir því. Mér er farið að þykja voða vænt um Hugin litla þótt ég hafi aldrei séð hann, já, og bara alla fjölskylduna. Knús til ykkar allra!!!

Guðríður Haraldsdóttir, 14.10.2007 kl. 00:06

25 Smámynd: Fjóla Æ.

Takk og Knús til þín sömuleiðis Gurrí.

Fjóla Æ., 14.10.2007 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 110312

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband