ég geri það sem ég vil

Long tæm nó sí. Ég hef fengið af því fréttir að það sé langt síðan ég bloggaði síðast og fór því og athugaði það. Fréttirnar eru nokkuð sannar því ég hef víst ekki birt neitt síðan í janúar. OK ég ætla að breyta því núna. Annars hef ég sæmilegar afsakanir fyrir þessu ef þannig er á það litið. Facebook, skóli, vinna og allt hitt. En samt sem áður, lélegar afsakanir.

Annars er það af mér að frétta að ég er búin að komast að því að það er ekki skynsamlegt að vera í fullu háskólanámi með fullri vinnu og heimilisstörfum. Hangi þó enn með meðaleinkunn yfir átta, held enn vinnunni, heimilið mitt lítur sæmilega út og fjölskyldan ekki horfallin, a.m.k. ekki ennþá. Það er eitthvað, er það ekki?  En á þessu má sjá að það er töluvert í gangi hjá mér dagsdaglega og tel ég það því að þakka/kenna að ég er svolítið virk manneskja að ég er enn með sönsum þó þeir séu ekki miklir kannski.

Síðasta vika var dálítið snúin svona tilfinningalega séð en þá var ár, þann 24. mars, liðið síðan litli Gullrassinn minn ákvað að það væri kominn tími til að hlaupa og leika sér í ljósinu og yfirgaf þetta jarðlíf . Þetta ár hefur verið ákaflega sérstakt. Stundum svo fljótt að líða og stundum svo langt. Ég hef farið allan tilfinningaskalann og geri stundum enn. Sakna hans óskaplega. En það sem eftir stendur er ég hugsa til baka er þetta endalausa þakklæti. Þakklæti fyrir það sem ég hef átt og það sem ég enn á. Það er ekki svo lítið.

Hef nú fengið að gleðjast yfir því að hin börnin mín eldast og eldast. Ásdísin varð 12 þann 12. febrúar, Hafrún varð sjálfráða þann 22. mars og Guðjón náði 16 ára áfanganum þann 23. mars. Einnig varð tengdadóttirin 20 ára í enda febrúar og Natan verður jafn gamall henni 13. júní. En ég verð bara áfram 29 er það ekki Cool 

Núna er sumarið framundan og lít ég til þess með tilhlökkun. Stefnan er að taka draghýsið og fara út um víðan völl og njóta náttúrunnar í faðmi fjölskyldunnar eða bara Mummans míns ef þannig stendur á. Ætla að gera svo margt og svo skemmtilegt sem ég ætla að halda fyrir mig aðeins lengur en kemur síðar í ljós. Ég ætla líka bara að njóta þess að vera til, vera í sólbaði við sullupollinn minn á pallinum mínum og verða bara sólbrún og sæt ásamt öllu því sem mér dettur í hug hverju sinni en ef ég þekki mig rétt þá verður það örugglega eitthvað þar sem ég á frekar erfitt með að gera ekki neitt. Skelfilegt hreint alveg að vera svona.

Ætla að leggja lyklaborðið frá mér í bili en þangað til næst bið ég ykkur vel að lifa og muna að í dag er besti dagur lífsins. Því kannski er enginn morgundagur.


Ég var að blogga.

Ég hef verið að pæla í þessu bloggi mínu og komst að þeirri niðurstöðu að ég blogga þegar mig langar. Og núna langar mig.

Undanfarið hefur töluvert gengið á hjá mér. Mér datt það í hug fyrir jól að skella mér í háskólann aftur og sótti um. Auðvitað komst ég inn og þá ætlaði ég bara að taka þetta létt en endaði auðvitað á því að vera skráð í fullt nám. Veit ekki alveg hvað ég var að hugsa en það er önnur saga. Þannig að staða mín er sú að ég vinn fullan vinnudag á leikskóla og er í fullu námi við Háskóla Íslands ásamt því að vera móðir, unnusta og húsmóðir og einnig öll hin hlutverkin sem ég þarf að skella mér í svona endrum og eins. Ég trúi því sem sagt að í mínum sólarhring séu fleiri klukkutímar en hjá ykkur hinum.

Núna fer að líða að því að við förum í draumaferðina hennar Ásdísar og það er mikill spenningur hjá okkur þó meiri hjá sumum. Það er búið að sörva netið til að skoða hvað sé skemmtilegast og hvað sé sniðugast að gera þarna úti í Orlando og búið að leggja a.m.k. nokkrar línur að því hvað við munum taka okkur fyrir hendur þarna. En það sem máli skiptir er að við verðum þarna saman og skemmtum okkur konunglega og komum heim brún, sæl og sæt.

Við hjónaleysin erum af vana dálítið fyrirhyggjusöm og núna erum við að spá og spekúlera í hvernig við eigum að eyða sumrinu og sumarfríinu okkar. Við erum harðákveðin í að nota tuskuhúsið okkar sem mest og best en samt vitum við ekki alveg hvað við ætlum að gera. Það eru komnar nokkrar hugmyndir og allar góðar en samt er eitthvað sem við erum að vandræðast með. Kannski erum við hrædd við að taka ákvarðanir svona langt fram í tímann en það hefur undanfarin ár ekki verið möguleiki. Því miður hefur það breyst og er ekkert við því að gera, bara reyna að lifa með því. Annars finnst mér ég sakna Gullrassins míns meira og meira. Kannski er ískaldur raunveruleikinn að renna upp fyrir mér. Ég veit það ekki. En alla vega sakna ég hans endalaust mikið og meira í dag en í gær. Þetta er kannski stig í sorginni. Við höfum reynt að halda Lúllinu hans sem bestu og flottustu en það er hægara sagt en gert. Starfsmenn kirkjugarðsins eru ekkert alltof viljugir til að vinna vinnuna sína og þó, því stundum eru þeir of duglegir sem þýðir stórkostleg mistök og hrylling þegar kemur mikil rigning til dæmis. A.m.k. væri í lagi að það væri hugsað smá, stundum. Ég verð stundum reið þegar ég fer að Lúllinu. Ætla samt ekki að vera það hér.

Hætt, þar til næst og bið ykkur um að fara með friði.


Árið er liðið

Nú þegar árið er að líða er vani að líta aðeins yfir það. Árið 2008 í mínu lífi hefur verið mér erfitt, sorglegt, ár missis og tómleika. Einnig ár gleðinnar, þakklætis og bjartsýnis. Hér er stutt yfirlit yfir það helsta sem gerðist í mínu lífi á árinu.

Mumminn minn varð stór (40) og héldum við smá partý í tilefni þess í upphafi árs. Auðvitað urðu fleiri fjölskyldumeðlimir aðeins stærri eða amk. eldri á árinu. Ásdís varð 11 ára í febrúar, Hafrún og Guðjón í mars og Natan í júní. Huginn hefði orðið 4 ára í nóvember og vorum við með smá kaffi í í tilefni þess. Afmælisári fjölskyldunnar lauk síðan með mínu eigin afmæli núna í desember. Nú er verið að skipuleggja á fullu 1. afmæli næsta árs sem er bara núna um helgina. Það mætti halda að það væru alltaf afmæli í þessari fjölskyldu enda töluvert mannmörg.

Í mars voru páskarnir og ég var full gleði yfir því að 2 af börnunum mínum héldu upp á afmælin sín þann 22. og 23. En fljótt skipast veður í lofti og stutt á milli hláturs og gráts því Elsku litli Gullrassinn minn kvaddi okkur þann 24. aðfaranótt annars í páskum einungis 3 ára og 4 mánaða. Þessi litli drengur breytti lífi mínu á flestan hátt og kenndi mér aðra lífsskoðun og gildismat.

Við tók tími tómlætis og tími þess að lifa af. Við hjónaleysin skruppum til London í afmælisferð unnustans og var það ágæt ferð eins langt og hún náði. Það var þó tímasetningin sem skemmdi, ekki neitt annað, svona þannig séð. Áður en við fórum út leið okkur stundum eins og við værum aftur orðin 5 ára og eru mæður okkar ástæða þess. Þær börðust fyrir því að við skyldum fara til Lundúna og ekkert múður. Í dag er þessi hegðun okkar ástkæru mæðra kveikja bros og væntumþykju í hugum okkar.

Við ákváðum í upphafi sumars að fjárfesta í Skuldahala svo við gætum lagst út með mannsæmandi hætti án þess að eiga á hættu kvef og eitthvað verra. Ferðuðust við samt ekki eins mikið og við hefðum viljað með Skuldahalann en orsökin er einna helst súað við höfðum skipulagt sumarfríið í febrúar og þá voru allt aðrar aðstæður.

Í haust ákvað ég að ég myndi hætta mér út á almennan vinnumarkað og eftir miklar pælingar tók ég þá ákvörðun um að fleygja mér beint út í djúpu laugina. Í byrjun september hóf ég aftur störf á leikskólanum. Ég vissi að ég hafði kunnað þetta starf mjög vel og ég vissi að ég væri mjög fær í mínu starfi. Það kom í ljós að ég hef litlu gleymt og í raun bætt ansi miklu í reynslubankann sem kemur til með að nýtast mér vel í þessu starfi.

Núna er árið alveg að renna í aldanna skaut og ég er svolítið leið. Því þrátt fyrir hræðilega erfitt ár þá er smá tregi að kveðja árið en ég ætla að trúa á stjörnuspána sem Mogginn birti í morgun fyrir næsta ár en þar segir einhvernvegin á þessa leið: Útlit er fyrir að árið verði þér auðveldara en síðastliðið ár.

Að lokum langar mig til þess að óska öllum gleði og farsældar á komandi ári og þakka kærlega allan þann stuðning sem mér og minni fjölskyldu hefur verið veittur á þessu erfiða ári, hann hefur verið okkur mikils virði. Er farin að horfa á Áramótaskaupið og ég vona að það veri okkur öllum tilefni hláturs sem og komandi ár.


Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott...

Ég vil byrja á að þakka fyrir allar þær kveðjur sem mér hafa borist í tilefni afmælis míns. Einnig allar jólakveðjurnár og sendi til baka mínar bestu jólaóskir um leið og ég óska öllum mikillar farsældar á komandi ári. Megi nýja árið færa ykkur mikla gleði og hamingju. Ég trúi því að ég verði ekki undanskilin. Þrátt fyrir að ég hafi fengið að upplifa þá mestu sorg sem nokkur einstaklingur getur upplifað á árinu sem er nú að líða í aldanna skaut þá er ég nokkuð bjartsýn á að framtíðin beri ekki slíka hörmung með sér fyrir mig. Heldur beri hún með sér gleði og hamingju. Ég er reyndar heppin manneskja. Hef átt gott líf og er það þakkarvert. Gullrassinn minn, kenndi mér marga hluti og breytti lífi mínu til hins betra að ég tel og er eitt af því besta sem fyrir mig hefur komið á minni lífsleið. Ég tel mig bæði betri og meiri manneskju eftir okkar samferð. Ég er í dag í góðu sambandi með mínum yndislega unnusta sem í raun er alls ekki svo sjálfsagt eftir allt sem við höfum þurft að takast á við og fyrir það er ég afar þakklát og tel mig heppna. Hin börnin mín sem ég er svo heppin að fá að hafa hér hjá mér í lífinu gengur vel og virðist framtíðin brosa við þeim öllum. Og er hægt að fara fram á meira? Ég  held ekki.

En að allt öðru. Mumminn minn er núna að farast úr ljósmyndadellu og dundar sér nú við flest tækifæri að taka myndir af öllu mögulegu og leika sér síðan með þær. Ekki verri della en hver önnur. Ég ætla að reyna að smitast aðeins af henni. Við fórum í dag smá rúnt út á Reykjanesið. Það er alltaf jafn fallegt alveg sama hvaða árstími er. Hann tók einhvern helling af myndum og þegar ég skoðaði þær sá ég að ég hafði verið fyrirsæta á ótrúlega mörgumán þess ég vissi. Gaman að því.

Annars var ég að fá nýjan office pakka í tölvurnar mínar. Wordinn er svo flottur að ég er farin að hlakka til að skrifa lokaritgerðina mína. Sagði meira að segja við Mummann minn að wordinn væri svo flottur að ég væri að hugsa um að skrifa bók. Kannski ég geri það, kemur í ljós.

Ætla að hætta núna og bið ykkur um að fara varlega í ræktinni, það er nefnilega ekki gott að meiða sig.


Ég er orðin ári eldri en í gær.

Mér hafa borist kvartanir út af blogginu mínu. Ekki að það sé eitthvað óviðeigandi eða neitt svoleiðis heldur að það sé stórkostlegur skortur á færslum. Mér átti til dæmis að berast afmæliskveðja í gegnum bloggið en vegna tímamarka á athugasemdum var ekki unnt að gera það. Kveðjan barst því á annan hátt ásamt formlegri beiðni um úrbætur.

Annars er svo sem lítið að frétta af mér. Ég vinn og síðan hamast ég við að undirbúa jólin eins og líklega flestir aðrir landsmenn. Mér gengur það ljómandi vel. Jólatréð var skreytt áðan eftir að ég hafði skellt á það u.þ.b. 400 rauðum ljósum. Prinsessan á heimilinu valdi tréð sem er mjög fallegt og að venju óx það helling á þeim tíma sem það beið í bílskúrnum eftir að verða sett upp. Ég get svo svarið fyrir það að það var ekki svona stórt þegar við keyptum það. Ég er að hugsa um að leggja peningana mína inn í bílskúrinn. Þeir hljóta að vaxa líka þar líkt og jólatrén gera alltaf. Kannski verða þeir bara stærri og hver er hagurinn af því.

Jæja núna er ég búin að verða við beiðnunum og blogga og þangað til næst sem ég gæti miðað við undanfarið  orðið ekki alveg strax ætla ég að óska ykkur bloggvinir góðir og einnig öllum öðrum þeim sem hingað villast Gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og megi það bera gæfu og lán í ykkar líf. 


Allt að verða vitlaust og allt úr skorðum fer

Núna er allt að verða vitlaust í þjóðfélaginu. Fólk farið að ryðjast inn á lögreglustöð til að fá fanga látinn lausann sem frekar vildi sitja af sér sekt vegna brota sinna en greiða hana með peningum og er síðan hneykslað á því að lögreglan beiti táragasi til að verjast inngöngunni. Á sama tíma er fólk réttilega að missa sig yfir fólskunni sem sýnd var á myndbandi frá skólalóðinni í Njarðvík um leið og það virðist vera tilbúið til að beita sömu brögðum gegn valdstjórninni og það á að vera í lagi. Ég segi bara eins og nýbúakonan sagði einhvern tímann í Spaugstofunni "ég ekki skilja þessar íslendingur".

En að allt öðru. Ég er búin að vera að baka í dag.  Ekki til jólanna heldur í tilefni þess að Gullrassinn minn varð 4 ára síðastliðinn þriðjudag og er ætlunin að halda upp á daginn á morgun. Í tilefni af afmælinu hans fórum við hjónaleysin síðast liðinn sunnudag og umbreyttum Lúllinu hans. Núna er Lúllið svo mikið fallegt. Við höfum gert ýmislegt fyrir Lúllið í sumar og breytt því nokkrum sinnum vegna þess að við vitum ekki hvernig við viljum hafa það og höfum í raun ekki verið sátt við hvernig það hefur verið. Hvernig á maður svo sem að geta verið sáttur við að Lúllið sem barnið manns sefur í sé í einhverjum kirkjugarði? En við reynum og verðum að sætta okkur við það og núna finnst okkur við hafa gert það sem við gætum verið sátt við þar til við munum setja stein á það. Af fenginni reynslu munum við skoða mikið og vel áður en við tökum ákvörðun um stein og ekki panta fyrsta flotta steininn sem við sjáum fyrr en við höfum skoðað marga aðra. Lúllið er allavega mjög fínt í dag og erum við mjög sátt við það. Núna er höfuðverkurinn, hvernig jólaljós eigum við að setja hjá litla Gullrassinum mínum og hvar fáum við jólaljós. Erum að vinna í því.

Erfiðir dagar búnir og fleiri framundan og ég virðist vera að farast úr stressi. Allavega virðist Óli Lokbrá eitthvað vera að svíkja mig. Það er ekki gott fyrir liði og fjölskylduna mína og er ætlunin að fá sér 1 bjór til að vita hvort hann virki ekki eitthvað svipað og pilla í óræðum lit.

En þar til næst bíð ég bara góða nótt og sofið rótt.


4 ára Engill

Í dag eru 4 ár síðan litli Gullrassinn minn leit dagsins ljós. Hjartanlegustu afmæliskveðjur til þín ástin mín í Englaheiminn. Ég sakna þín endalaust mikið.

IMG_0240


Jesús Pétur Kiljan og hin heilaga jómfrú og aumingja ég

Núna er kominn 15. nóvember og jólin eru handan við hornið LoL eftir nákvæmlega 39 daga mun ég væntanlega sitja hér í sófanum og dást af gleði barnanna minna yfir jólagjöfunum sínum. Gleðin er ekkert minni þó þau séu sum orðin fullorðin og hin alveg að verða það. Ég hlakka líka til jólanna en um leið kvíður mig líka smá til þeirra. Ætla samt að reyna að láta gleðina hafa öll völd. Ætla að fara að henda upp nokkrum jólaseríum í gluggana og spila jólalög á fleiri hljóðfæri en símann minn. Skipti kannski um hringingu og skelli kannski "hæ hó jibby jei, það er kominn 17. júní" í símann. Alveg glatað að hafa eins hringingu og allir aðrir. En.. Kannski ég haldi mig bara við jólalagið mitt þar sem ég þoli illa breytingar amk. sumar.

Annars er ég hrikalega kvíðinn þessa dagana. Gullrassinn minn verður 4 ára á þriðjudaginn, 18. nóvember.  Ég hef ekki hugmynd um hvernig sá dagur verður fyrir mig og fjölskylduna mína því við höfum aldrei prófað svona afmælisdag Crying. Hann verður okkur vonandi þó góður.  Planið er að halda aðeins upp á daginn um næstu helgi.

Við erum að dunda okkur núna við að gera lúllið hans Hugins viðkunnalegra. Kirkjugarðurinn lítur hræðilega út og ég segi það satt að það er ekkert of gott að koma þangað núna. Þess vegna ákváðum við Mumminn minn að reyna að gera eitthvað sem fengi okkur til að líða betur þegar við komum í heimsókn til Gullrassins okkar.

Annars héldum við upp á dag íslenskrar tungu í leikskólanum í gær meðal annars með því að fara í heimsókn í heimaskólann okkar. Þar sungu börn af öðrum leikskóla lagið "snert hörpu mína" og ég get sagt ykkur það að ég beygði af. Ég hef svo oft hlustað á þetta lag síðan Huginn var jarðaður en í gær gerðist eitthvað. Sennilega það að það voru börn sem sungu en ég hef bara heyrt lagið flutt af fullorðnum.

Að lokum ætla ég að vitna í dagbókina mína góðu segir fyrir vikuna 16.-22. nóvember "Foreldrar- munið að allt sem börnin gefa ykkur er fallegt" og verð ég að segja að það er BARA rétt.


Lífið er stundum erfitt, en í samanburði við hvað?

Þar sem ég er næstum heimsins latasti bloggarinn þá hef ég stundum hugsað um að hætta að blogga en akkúrat þá langar mig svo mikið til að blogga þannig að ég ætla ekki að hætta. Það verður bara að fá að líða langt á milli.

Reyndar á þetta bloggleysi sér líka ástæður en þær eru að mér finnst ég hafa svo mikið að gera núna sem ég í raun skil ekki. Ég vinn 8 tíma í leikskólanum þar sem ég reyni að kenna grislingunum nauðsynlega undirstöðu fyrir grunnskóla síðan tekur við um það bil 8 tíma vinna hér heima við hin ýmsu heimilisstörf. Þetta gera um 16 klst á sólarhring sem er ekki neitt því ekki fyrir svo löngu vann ég í 28 tíma á sólarhring og fannst það ekkert mál. Ég skil ekki hvað ég er að kvarta þannig að það er best ég hætti því hér með.

Annars það helsta sem ég hef tekið mér fyrir hendur undanfarið er að ég er búin að nota heita sullupollinn minn þvílíkt mikið og mæli með að allir fái sér slíkan unaðsstað. Með betri fjárfestingum sem ég hef gert.

Um síðustu helgi fór ég og mín fjölskylda á Hótel Loftleiði til að taka á móti gjafabréfi frá Vildarbörnum. Ásdís Rán fékk úthlutað draumaferðinni sinni og þar sem við erum svo heppin að vera í hennar fjölskyldu þá fáum við að fljóta með í hennar draumaferð. Við vitum reyndar ekki alveg hvenær við förum en það er allt í skoðun. Við vitum þó hvert við viljum fara.

Síðan í dag vorum við hjónaleysin á Grand hótel að flytja fyrirlestur á ráðstefnu gjörgæslu-og svæfingarhjúkrunarfræðinga. Fyrirlesturinn hlaut mjög góðar undirtektir og margar fyrirspurnir og að lokum fengum við fallegan blómvönd fyrir okkar framlag. Ég vona bara að það sem við höfðum að segja frá muni koma öðrum til góða sem þurfa á þjónustu gjörgæslu að halda. Það var ekki mikið mál að  flytja þennan fyrirlestur en undirbúningurinn var stundum svolítið erfiður. Við þurftum að rifja upp viðkvæm augnablik og síðan ákváðum við að hafa myndir frá lífi Gullrassins okkar rúllandi undir lestri mínum. Það að fara í gegnum allar myndirnar var stundum ekkert auðvelt en að lokum völdum við tæplega 500 til að fara með. Margar þeirra voru áður óbirtar en við ákváðum að sýna þær þarna.

Núna er ég í miklum pælingum með framtíðina og held að ég sé að taka ákvörðun um hana og það sem meira er rétta ákvörðun. Sko mig. En er maður samt ekki alltaf að pæla í framtíðinni hvort sem er? Eða er núið það sem maður hugsar bara um? Það er svo sem í samræmi við það sem ég segi svo oft "lífið er núna, njóttu þess". Hef samt fulla trú á því að hugsunin um framtíðina eigi stóran þátt í því að gefa lífinu tilgang.

En þangað til næst mæli ég með því að brosa því lífið er núna og því á að grípa augnablikið og njóta. 


Björgun vikunnar í efnahagslægð.

Ótrúlega erfið vika að baki. Vona að komandi vika beri meiri létti í skauti sér en þessi sem er alveg að verða búin. Efnahagsástandið hefur svo greinilega komið fram hjá börnunum "mínum" í leikskólanum og ég er viss um að þau óski þess að ástandið "besni" í næstu viku. En þrátt fyrir erfiða viku þá redduðu krílin vikunni fyrir mér þegar ég fór heim í gær. Ég er búin að vera leikskólakennari í mörg ár og ég hef aldrei lent í annarri kveðjustund eins og í gær, þau komu öll og knúsuðu mig og kysstu bless. Dásamlega frábært hjá þeim.

En að gjaldþroti Íslands. Ég, eins og svo margir Íslendingar hef lagt fyrir í peningamarkaðsjóði til mögru áranna. Nú eru þau runnin upp og sjóðirnir í frosti. Sem þýðir að þair eru að mestu eða öllu leiti tapaðir. Jæja skítt með það, þetta eru BARA peningar. Ég ákvað að hringja í þjónustufulltrúa minn í bankanum til að tékka á stöðunni og hann tjáði mér það að ég yrði að segja upp áskriftinni að þessum glötuðu sjóðum. Ég er ekkert smá undrandi á því. Því ég hélt að það hefði gerst sjálfkrafa um leið og bankarnir voru þjóðnýttir og sjóðirnir frystir. Ónei, þannig er það sko ekki. Ef ég hefði ekki afturkallað innlögnina mína þá hefði hún verið sett í frystan sjóð sem er tómur og eignalaus að mestu.

Er hætt í bili en þangað til næst tékkið á að stöðva innlagnir í botnfrosna sjóði ef þið eigið svoleiðis. Jú reyndar mæli ég með extra knúsi, því það er málið.


Næsta síða »

Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband