Færsluflokkur: Bloggar
17.3.2008 | 13:30
Borða, borða, borða mmm
Ég og flestir úr minni fjölskyldu fóru í fermingarveislu í gær hjá annarri systurdóttur minni sem lætur fermast þetta árið. Veislan var frábær, fullt af fólki og maturinn æðislegur. Borðaði eins og venjulega þannig eins og þetta væri síðasta máltíðin í viku og flestir myndu sennilega segjast vera enn saddir. En ekki ég. Ég er auðvitað orðin glorhungruð og ætti því að fá mér eitthvað að borða í staðinn fyrir að skrifa hér. Borða bráðum. Hitti í veislunni litla frænku mína sem fæddist í desember í fyrsta sinn. Þvílík dúlla. Verð að viðurkenna að þegar maður sér svona fallegt barn þá langar mig smá í eitt lítið líka. Ef ég gæti fengið 100% vissu fyrir því að ég myndi eignast heilbrigt barn þá myndi ég jafnvel skella í eins og eitt en þar sem líkurnar á svipuðum veikindum og hrjá Gullrassinn minn eru mjög miklar þá hreinlega þori ég ekki að eiga fleiri börn. Heigulsháttur kannski en okkar Unnustans ákvörðun að vel ígrunduðu máli.
Eftir þarmahreinsun í síðustu viku var ég svo heppin að næla mér í smá kvef og finnst ég eiga svolítið pínu bágt núna með síflæði úr nösum og rauðan nebbann eftir snýturnar. Við förum á eftir og sækjum Gullrassinn og ég vona að mér takist ekki að smita hann af þessu kvefi mínu. Núna hlakka ég til fimmtudagsins því þá mun hin systurdóttir mín láta fermast og þá er líka veisla og ég veit matseðilinn mmm.
Held ég ætti að stökkva til og ákveða matseðilinn yfir páskana fyrst ég er í svona miklu matarfíling.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.3.2008 | 11:18
Dásemd framundan
Mönnum með miklum gáfum eru síst fyrirgefnar smá yfirsjónir - Þetta er spakmæli vikunnar í boði dagbókarinnar.
Það var eins gott að ég náði smá slökun í síðustu viku því þessi vika er búin að vera töluvert fyrirhafnarsöm. Við fórum og sóttum Gullrassinn í Rjóður síðasta föstudag. Fannst hann svolítið slappur og skrifaði það á þreytu. Komst að annarri niðurstöðu á laugardag því barnið var orðið töluvert lasið. Hann hafði nælt sér í þennan fína magavírus og eins og venjulega fór hann ekki vel í Gullrassinn. Hann er með öðrum orðum búinn að vera töluvert veikur alla vikuna með mikil uppköst og niðurgang ásamt mikilli vanlíðan. Sofið illa og þurft að láta mikið halda á sér og ganga um gólf. Þetta væri svo sem ekki alslæmt ef hann hefði ekki náð að smita alla aðra sem komu nálægt honum líka. Þannig að vikan er búin að fara í yndislegan magavírus. Núna eru allir orðnir frískir aftur og Gullrassinn minn liggur hér á gólfinu með leikföngin sín og leikur sér á fullu með léttu hjali og hlátri. Yndislega dásamlegt að hlusta á hann. Þegar hann er veikur þá brosir hann ekki einu sinni smá. Hinir fjölskyldumeðlimir komnir í vinnu og skóla aftur. Börnin fóru glöð í bragði í skólann í morgun enda síðasti skóladagur fyrir langþráð páskafrí. Gullrassinn fer síðan í Rjóður aftur á morgun, átti að fara í dag en við viljum leyfa honum að jafna sig aðeins betur, og verður fram á mánudag.
Dásamlegir tímar framundan fyrir fólk eins og mig. 2 systurdætur mínar munu staðfesta skírnarheitin á næstu dögum, önnur á sunnudaginn og hin næsta fimmtudag. Foreldrar þeirra munu halda upp á áfangann með veislum og dásemdum. Ég hlakka mikið til að hitta alla fjölskylduna mína samankomna á sama stað, á sama tíma. Alltof sjaldan sem það gerist. Síðan koma páskarnir og þá fæ ég líka fullt af dásamlegum kræsingum. Sem ég segi dásamlegir tímar fram undan og eins gott að vera búin að jafna sig á magvírusnum góða.
Þangað til næst, elskið friðinn og strjúkið kviðinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.3.2008 | 22:29
Fór á rúntinn
Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir - Þetta spakmæli er í boði dagbókarinnar.
Gullrassinn er enn og aftur í Rjóðrinu og er því þessari viku eytt í slökun. Ja, eða slökun eftir aðstæðum. Fór til dæmis aftur upp í rúm í morgun eftir að hafa skutlað börnunum í skólann og steinsofnaði, vaknaði ekki fyrr en unnustinn vakti mig með ljúfum kossi í hádeginu. Undursamlegt að vakna svoleiðis.
Seinnipartinn í dag datt okkur í hug að skreppa aðeins á rúntinn. Gátum talið börnunum trú um að við værum að fara að skoða hús sem við værum að fara að kaupa í Höfnum. Stoppuðum síðan fyrir utan lítinn ljótann kofa og sögðum að þetta væri húsið. Mikill feginleiki sveif yfir bílnum þegar búið var að leiðrétta lygina.
Fórum síðan áfram út að Reykjanesvita. Veðrið var yndislegt og töluvert brim. Varð alveg heilluð af því og ákvað að taka nokkrar myndir af því. Held að hún Gurrí bloggvinkona mín í Himnaríki sé búin að smita mig af brimáhuga.
Á bakaleiðinni komum við aðeins við á brúnni milli heimsálfanna og þrátt fyrir að unglingurinn sé á hækjum fannst honum ekki mikið mál að hoppa upp á brúna, yfir hana og síðan langt út í hraunið og síðan til baka.
Hann var reyndar orðinn dálítið lúinn þegar við komum niður í bíl aftur. Hann talar mikið um hvað þetta hopp reyni mikið á magavöðvana og handleggina. Það er gott finnst honum, því þá stækka vöðvarnir. Hann hefur lengi dreymt um útlit eins og kraftajötnar og vaxtaræktarmenn hafa. Upphleyptar æðar á handleggjum fá sérlega aðdáun.
Farin í bili og þangað til næst njótið samveru með þeim sem þið elskið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.3.2008 | 18:22
Barn í molum
Guði sé lof fyrir einstæða sokka- Þetta spakmæli er í boði Unglingsins .
Ég sagði frá því að unglingurinn hefði ákveðið að sparka gólfinu í íþróttahúsinu í mark og uppskorið stórt bágt á stórutána og næstu tá við hliðina. Hann hefur verið svo mikið aumur og kvartað helling sem er mjög sérstakt hjá honum því hann hefur háan sársaukaþröskuld og kvartar yfirleitt ekki. Skoðaði því hina meiddu tá og leist ekkert alltof vel á hana og ákvað því að skella barninu til læknis í frekari skoðun. Fórum því í morgun og útkoman var að barnið er brotið í mél. Kannski ekki alveg í mél en á myndinni sem var tekin í morgun komu í ljós tvær sprungur í sitthvorum lið á stóru tánni ásamt tognun á liðböndum og blæðingum inn á liðina. Aumingja snúllinn minn. Hann hoppar bara á hækjum um allt og hefur svo sem gaman af enda einstaklega fær í því að sjá spaugilegu hliðarnar á flestum hlutum. Honum þótti þó verra að missa af því að fara á skauta með bekkjarfélögunum í gærkvöldi. Ég þarf síðan að hafa tal af rándýra fyrirtækinu Stoðtækni til að fá hjá þeim einhverskonar spelku til að hafa undir fætinum næstu vikurnar svo drengurinn geti gengið á sem sársaukaminnstan hátt.
Annars sagði læknirinn við strákinn að hann ætti alvarlega að íhuga að snúa sér alfarið að skákinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.2.2008 | 09:31
Vikan í stuði
Hamingjan er eins og ilmvatn, sem þú getur ekki sett á aðra án þess að nokkrir dropar loði við þig - þetta er spakmæli vikunnar í boði dagbókarinnar og að vanda er mikið til í því.
Vikan er búin að vera nokkuð annasöm. Gullrassinn er í Rjóðrinu og unir sér einstaklega vel. Fékk símtal frá þeim þar sem mér var tjáð að þær hefðu aldrei haft hann eins hressan og kátan eins og núna þessa dagana. Honum hefur reyndar liðið mjög vel síðan um árshátíðarhelgina og það skilar sér í auknum krafti sem aftur skilar sér í meiri getu til að gera alla hluti. Hann meira að segja gat setið aleinn í dálitla stund um daginn í fyrsta sinn.
Prinsessan vaknaði á mánudagsmorgun með hálsríg dauðans og var um kvöldið orðin stokkbólgin þannig að ég stökk með hana til læknis. Meðferð: Bólgueyðandi og nudd. Er mun skárri í dag en samt ekki það góð að hún treysti sér til að spila fótbolta. Fórum samt i bæinn á þriðjudagskvöldið þar sem við áttum flotta fjölskyldusamveru með stóru börnunum okkar í Keiluhöllinni. Ég komst að því að það er miklu mun auðveldara að spila Pool í tölvunni heldur en með kjuða. En ef ég æfi mig þá gæti ég kannski orðið nokkuð góð eftir svona 10 - 15 ár.
Unglingurinn lifði sig rösklega inn í sokkabolta í leikfimi í gær. Svo mikið að honum datt í hug að sparka gólfinu í markið. Það þýddi slit á naglabandi og gríðarlega mikla blæðingu. Fór og hitti lækninn sem setti stóran plástur á bágtið. Er núna hoppandi á hækjum alveg að drepast í fætinum og talar um að honum líði eins og hann sé með hjartað í tánni sem og brotið bein. Það getur svo sem alveg verið. Hann græddi þó það að fá frí í skólanum í dag enda illfært á hækjum utanhúss þessa dagana.
Þangað til næst, skvettið ilmvatni hamingjunnar á náungann og uppskerið eigin hamingju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.2.2008 | 21:22
Stopp í eitt andartak
Það að nema staðar andartak stöku sinnum er oft eina leiðin til að vera fær um að halda áfram. Þetta spakmæli er í boði dagbókarinnar þessa vikuna. Fer einhver eftir þessu nú á dögum?
Loksins loksins er ég að fá vinnu mína metna að verðleikum. Kannski ekki miklum verðleikum en verðleikum samt. Hvaða vinnu? Ég sem er heima allan daginn og geri ekki neitt. Ja nema kannski að hugsa um litla Gullrassinn minn allan sólarhringinn sem er misauðvelt. Suma daga er það meira að segja mjög erfitt en þetta er það sem ég vel að gera.
Fór sem sagt í gær og sótti um að fá hinar nýju greiðslur sem foreldrar langveikra barna eiga rétt á. Þessar greiðslur munu koma til með að skipta öllu máli fyrir margar langveikar fjölskyldur því ég tel að í sumum tilfellum eru þessar greiðslur, þótt ekki háar séu, það sem gerir foreldrum kleift að hafa veika barnið sitt heima hjá sér í stað þess að verða að setja það á stofnun. Því sannarlega þá verða allir að borða, eiga heima einhvers staðar og föt til að klæðast. Á Íslandi er nær nauðsynlegt að hafa 2 fyrirvinnur til að geta lifað. Langveikar fjölskyldur hafa ekki möguleika á nema kannski 1 fyrirvinnu og því miður er það frekar algengt að það sé engin fyrirvinna. Það eru ótrúlega margir einstæðir langveikir foreldrar í landinu. Samt er það líka vel skiljanlegt því álagið sem fylgir því að eiga alvarlega veikt barn ásamt gríðarlegum fjárhagsáhyggjum og mörgum öðrum erfiðum þáttum sem fylgja gjarnan veikindum barnsins er ómannlegt.
Þangað til næst, munum að heilbrigt barn er ekki svo sjálfsagt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2008 | 22:54
Óseðjandi?
Kannski maður hendi hér inn nokkrum orðum. Helgin er búin að vera stórfín. Fór á árhátíð með unnustanum í Bláa Lónið. Hin besta skemmtun. Dásamlegur matur. Hefði alveg viljað fá meiri mat samt, ekki það að maturinn væri ekki vel útilátinn, nei þvert á móti. Mér finnst bara svo gaman að borða góðan mat að ég get vel dundað mér við það í nokkra klukkutíma, eins og þeir sem þekkja mig vita vel. En það var víst ekki í boði en í staðinn var boðið upp á Pál Óskar og ekki var hann síðri en maturinn og líkt og hann, varði ánægjan einnig í of skamman tíma. Þrátt fyrir að auglýst hefði verið að hvítt væri liturinn sá ég ekki nema 2 konur hvítklæddar og einungis 1 karlmann á hátíðinni. Reyndar voru nokkrar konur með hvítt í fötunum sínum og karlarnir gjarnan í hvítum skyrtum eða með hvít bindi. Flestir voru bara svartklæddir eins og venjulega.
Well mæ pípúl þrátt fyrir nærri 10 tíma svefn er eins og ég hafi lítið sofið og ætla því að fara að skríða í ból og heyri bara í ykkur á morgun. Góða nótt og njótið hvíldar og svefns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.2.2008 | 17:19
Ljótur kall
Vaknaði allt of seint í morgun en náði þó að koma börnunum út úr húsi fyrir 8 svo þau náðu strætó í skólann. Í nesti tóku þau með sér skilaboð um að gæta sín á ljótum köllum sem narra börn upp í bílana sína til að beita þau síðan kynferðislegu ofbeldi. Aðvörun hafði verið birt á vef Víkurfrétta þannig að þau fengu að sjá mynd af þurfandi manni enda hefur hann fengið að dúsa á bak við lás og slá undanfarið en er nú nýlaus og gr.... Honum þótti skynsamlegt að kíkja hingað suður til að skoða börnin. Börnin fengu reyndar líka nesti með sér sem til að borða, þóttist góð að muna eftir því vegna mikillar gleði hjá mér vegna fréttanna um komu ljóta kallsins í bæinn. Eitt sem ég furða mig er að á vef Víkurfrétta er sagt að börnum í Myllubakkaskóla hafi verið sagt frá manninum og gefnar ýmsar leiðbeiningar um hvernig gott sé að varast svona menn. Mín börn eru í 5. og 9. bekk og þau segjast ekki hafa fengið neina vitneskju um kauða frá hendi skólans.
Verð að hætta í bili því ég er á fullu að skrifa ritgerð fyrir unglinginn um, ykkur getur ekki dottið það í hug, en engu að síður er hún um fótboltamanninn Cesc Fábregas. og ég ætla ekki að muna neitt um dúddann eftir að ég er búin að skrifa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.2.2008 | 09:53
Hún á afmæli
Fyrir 11 árum varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fæða í þennan heim mikla prinsessu. Þar er á ferð sterkur persónuleiki sem veit hvað hún vill. Hún er hvers manns hugljúfi með gleði sinni og húmor. Yljar með hugljúfum söng allan daginn, alla daga. Til hamingju með afmælið elsku Ásdís Rán .
Ásdís Rán
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.2.2008 | 21:35
Vangavelta
Betra er að spyrja til vegar en villast segir spakmæli dagbókarinnar að þessu sinni.
Hef tekið eftir því að sumum finnst mjög erfitt að spyrja til vegar ef þeir eru ekki vissir um hvaða leið sé sú besta til þess áfangastaðar þeir eru á leið til. Hvers vegna er það svona erfitt? Er það vegna stoltsins, ég get þetta sjálfur hugsunin, eða er það þrjóskan, ég skal ekki gefast upp þetta hlýtur að virka einhvern tímann, eða er maður minni maður af því að leita sér aðstoðar einhvers sem veit?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Þegar kviknar á deginum
Tenglar
Fólk á förnum vegi
- Huginn Heiðar Ofurkrúttið
- Berglind vinkona
- Stína Blöndal
- Árný
- Ragnheiður
Vert að skoða
Bloggvinir
- Mummi Guð
- Evaa<3
- Ásdís Rán
- Áslaug Helga Hálfdánardóttir
- Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
- Gerða Kristjáns
- Anna Gísladóttir
- Rannveig Lena Gísladóttir
- .
- Dísa Dóra
- Ólafur fannberg
- Huld S. Ringsted
- Gísli Torfi
- Halla Rut
- Guðsteinn Haukur Barkarson
- Lady Elín
- Emma Agneta Björgvinsdóttir
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Gulli litli
- Bryndís
- Brynja skordal
- Vertu með á nótunum
- Guðrún Hauksdóttir
- Erna Sif Gunnarsdóttir
- Anita Björk Gunnarsdóttir
- Bwahahaha...
- Ragnar Emil
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar