Færsluflokkur: Bloggar

unglingapíur óskast

Ég held að það sé nokkuð ljóst sem móðir 3. unglinga að ég fari ekki mikið að heiman og skilji þau eftir eftirlitslaus. Að minnsta kosti ekki eftir kvöldmat.

Verður núna farið að auglýsa eftir unglingapíum líkt og barnapíum til að passa á meðan foreldrarnir skreppa aðeins af bæ?


mbl.is Móðirin hringdi sjálf í lögregluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ef þetta er satt?

Hvað gerist ef þessar ásakanir eru sannar? Þarf Paris þá að sitja dóminn af sér aftur og þá jafnvel í öðru fangelsi með "vondum" fangelsisstjóra sem fer ekki í póstútburð?
mbl.is Paris Hilton og fangelsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föstudagurinn 13. Ógurlega svakalega hræðilegur dagur ef...

Í dag er ógurlegur dagur. Að minnsta kosti í augum þeirra sem lifa eftir hjátrúnni. Það er Föstudagurinn 13. úúú. Mér finnst reyndar föstudagar ágætir dagar og sérstaklega þeir sem eru 13. dag mánaðarins, ég er reyndar ótrúlega óhjátrúarfull kona og hef óspart grín gert að þeim sem lifa eftir hjátrú í huga mér. Ok. stundum hugsa ég líka upphátt. Í dag hefjast Hundadagar og samkvæmt hjátrúnni ræðst veður sumarsins af veðrinu sem er í dag. Hér er glaða sólskin, hægur vindur og hlýtt. Ja svei mer þá ef ég velji ekki bara að trúa á þetta núna. Ég er ekkert ósátt við veðrið eins og það er í dag og hef ekkert á móti því að það verði svona út sumarið.  Ég ákvað að lesa stjörnuspána mína, í dag hún hljómar svo: "Þú er svo vinsæll að þér finnst þú ekki þurfa að ganga í augun á neinum. Leyfðu öðrum líka að tala og sýna hvað í þeim býr". Þetta er það flott stjörnuspá að ég er að hugsa um að trúa henni í dag. Það hentar ágætlega nema kannski að þurfa að þegja.  Það er sem sagt ljóst eftir skrif mín hér að ofan að ég er hentistefnumanneskja, amk. þegar hjátrú og stjörnuspá er um að ræða.

Guðjón minn er enn í sveitinni og unir vel. Honum datt í hug að taka þátt í Héraðsmóti í frjálsum íþróttum þrátt fyrir að hafa aldrei æft frjálsar nema auðvitað í leikfimi í skólanum. Guttinn fór, sá og sigraði. Hann tók þátt í 6 greinum og tók gull í 2 og silfur í öðrum 2 auk þess sem hann skilaði stigum í 1 grein og tókst að verða ekki síðastur í þeirri síðustu. Og ekki nóg með það heldur var hann einnig stigahæstur pilta á mótinu og fékk að launum dýrindis dollu og þátttökurétt á stærra móti sem verður haldið í ágúst. Hann ætti kannski að skella sér í að æfa frjálsar og stefna á að verða næsti Jón Arnar.

Ég er enn í iðnaðarmanns gírnum er pallinn varðar. Gerist lítið en gerist samt smá. Þá er ég svo sannarlega að tala um smá. Einn daginn er mokuð hola, næsta dag önnur hola svona gengur þetta koll af kolli. Ég er reyndar að gæla við þann draum að geta gert dálítið meira á dag en grafa eina holu á næstu dögum. Við erum nefnilega búin að fá konu sem ætlar að hjálpa okkur með Huginn og er upplagt á meðan aðlögun stendur að fara ekki lengra en hinu megin við vegginn og smíða pall. Ætla samt ekki að fullyrða neitt um hraða verksins en vona samt að hraðinn verði meiri en hraði snigilsins. Það hlýtur að verða þannig því eins og allir vita þá flytur trúin fjöll og er dagurinn í dag sérstaklega tilvalinn til að trúa. 

Nóg í bili. Þangað til næst elskið hvort annað þó þið komist ekki í Húsafell. (þar er fullt)


Ég er efni í iðnaðarmann

Sól sól skín á mig. Ég er farin að halda að hitabylgjan sem hefur verið í Danmörku síðast liðið ár sé komin til Íslands. Ekki að ég sé að kvarta heldur þvert á móti. Man varla eftir svona heitu og góðu sumri. Það er reyndar ekkert að marka að ég muni ekki hvernig síðasta sumar var eða þar síðasta og tala ekki um sumarið '94. Því ég er líkt og svo margir Íslendingar með mikið skammtíma minni á veður. Hver man ekki eftir því til dæmis þegar það var alltaf rigning á 17. júní alveg sama hvernig veðrið var í raun? Ég er alveg sannfærð um að það hafi oftar verið rigning á þeim merka degi en ekki. En í fyrra sá ég samantekt frá veðurstofunni sem sýnir að ég hef svo rangt fyrir mér því að "góðir" 17. júní voru mun fleiri en "slæmir" 17. júní veðurfarslega séð. Minnið er stundum að leika mann grátt.  Ég er alla vega sátt við þetta yndislega sumarveður sem yljar okkur þessa dagana og vona að það haldi áfram lengi enn.

Það hefur mikið verið talað um að iðnaðarmenn séu sérstakir og ekki auðfengnir. Þeir komi gjarnan til fólks þegar um er beðið og mæli og taki út verkið sem vinna þarf en sjáist síðan ekki fyrr en eftir dúk og disk og komi þá og geri smá og fari síðan aftur. Ég held að ég sé að verða svoleiðis. Að minnsta kosti þegar við tölum um pallinn. Það er lítið að gerast með hann en gerist samt alltaf eitthvað smá og ég sé því fram á að hann geti hugsanlega verið tilbúinn um Ljósanótt. En eins og einhver sagði "góðir hlutir gerast hægt" og verð ég því bara að trúa því þrátt fyrir að vera ekki þolinmóðasta manneskja í heimi.

Ætla að hætta núna. Þangað til næst elskið hvert annað.


Ísland tært og ómengað

Frábært að gefa svona gott fordæmi. Ísland er auglýst sem hreint og ómengað. Þetta er góð leið til að undirstrika hreinleikann og meðvitund okkar fyrir umhverfinu. Við förum vonandi að sjá aðra forsvarsmenn Íslenska ríkisins á tvinnbílum eða sambærilega lítið mengandi. ÁFRAM ÍSLAND!


mbl.is Forsetaembættið fær nýjan bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

enn helgi

Kominn enn einn föstudagurinn og vikan búin að líða í rólegheitum. Huginn er enn í Rjóðrinu og gengur vel. Við förum í dag og sækjum hann. Mikið verður gott að fá hann heim aftur ég er búin að sakna hans helling. Annars gengur allt sinn vanagang hérna. Ásdís á fullu í boltanum, er að æfa með strákunum en fer og spilar leik í dag með stelpunum. Voða spennandi.

Við fórum upp á Skaga á miðvikudaginn til að sjá fótboltaleik milli ÍA og Keflavíkur og ég þarf ekkert að ræða meir um þann leik því ég held að allflestir Íslendingar hafi fengið vitneskju um hvað gekk á þar. Fórum líka í heimsókn til Péturs og Ríkeyjar. Undanfarin ár þá hef ég sagt þeim að ég ætli að koma á leikinn en aldrei farið fyrr en núna þannig að ég passaði mig á því að láta þau ekki vita fyrr en það væri pottþétt að ég myndi komast. Finnst svo leiðinlegt að segjast ætla að koma og koma svo ekki. Alltaf gaman að koma til þeirra, takk fyrir okkur.

Var að fatta svolítið í morgun. Ég hef aldrei skrifað dagbók og hef í raun aldrei ætlað það. Síðan áttaði ég mig á því að þetta blogg mitt er dagbók, þannig að ég held dagbók án þess þó að hafa ætlað það. Fyndið hvernig maður platar sjálfan sig.

Loksins kom rigning og ættu bændur því að fagna og láta af regndansi sínum. Síðan fara bændur líklega að bölva regninu því hey liggur flatt á túnum og það skemmist því það er ekki hægt að hirða það. Það var svo sem kominn tími til að rigna því allt var að skrælna og mikil hætta á sinubrunum út um allt land. Ekki spennandi að lenda í öðrum svona "Mýrabruna" eins og var í fyrra eða árið þar áður. Gríðarleg mengun, hætta og umhverfisspjöll. Þó svo að afleiðingarnar kæmu vísindamönnum á óvart. Það er ekki víst að þær yrðu sambærilegar annars staðar. Hrikalega erfitt að gera fólki til geðs. Ég reyndar skil fólk vel sem er núna í útilegu, fátt eins ömurlegt eins og blaut tjöld. Vona samt að allir skemmti sér vel á Landsmóti, N1 móti og á Írskum dögum. Þar er reyndar skjálfti í mönnum fyrst SMS skilaboðin virkuðu ekki um síðustu helgi en virka vel núna. Finnst reyndar frekar leiðinleg og ósanngjarnt að setja alla unglinga undir sama hatt og segja þau óalandi og óferjandi. Það er ekki nema brot af krökkunum sem haga sér óásættanlega og skemma allt fyrir hinum. Vissulega hafa þessir krakkar hátt og þurfa ekki að sofa eins mikið og eldra fólk en það þarf ekki að skíta alla krakkana út fyrir það.

Hætt í bili. Þangað til næst elskið hvort annað og líka unglingana.


Búin að prófa það

Ég hef verið flutt með sjúkrabíl á sjúkrahús úti á landi. Sjúkraflutningamennirnir samanstóðu af bílstjóra. Ég þurfti meira að segja sjálf að finna  einhvern sem gæti aðstoðað hann til að koma mér út úr húsi og í bílinn því ekki getur einn maður haldið á sjúkrabörunum og ég bjó á 2. hæð. Á leiðinni á sjúkrahúsið talaði bílstjórinn við mig, sjálfsagt til að fylgjast með ástandi mínu en hann gat ekki horft á mig því hann var að keyra bílinn. Það vildi til að ég var ekki alvarlega veik heldur að fara að fæða barn. Hef stundum hugsað til þess hvað ef barnið hefði fæðst á leiðinni eða ef ég hefði misst meðvitund. 
mbl.is Sjúkraflutningamenn oft einir á ferð með sjúklinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í einu júlí

Nú er kominn júlí alveg án þess að maður viti af því. Alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og án þess að maður taki eftir því. Það eru bara að koma jól. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um að pallurinn myndi verða tilbúinn núna þá er hann það alls ekki. En það er þó byrjað að koma mynd á hann og eitthvað af efninu komið í garðinn. En betur má ef duga skal. Núna er Huginn í Rjóðrinu og er því ekki hægt að nota hann sem ástæðu fyrir hve hægt gengur en síðan er verið að benda mér á það að ég þurfi líka smá hvíld og eigi að sofa meira. Ok. Ég ætla að sofa á morgun. Planið í dag er að skella sér á fótboltaleik upp á Skaga. Já ég stefni á að fara á fótboltaleik með Mummanum mínum og ætla að vera meðvirk, því þegar meðvirknin er með í för þá er ekkert svo leiðinlegt að fara á leik. Hef reyndar ekki tekist að virkja meðvirknina þegar fótboltinn er í sjónvarpinu þannig að hann er hundleiðinlegur þar ennþá. Mumminn minn heldur samt í þá von að það komi til með að breytast og vonar enn meir að það gerist sem fyrst.

Ásdís er komin heim frá Eyjum, alsæl með mótið. Hún skemmti sér konunglega við leik og störf. Vinskapur hópsins efldist til mikilla muna og hlakkaði hana mikið til að fara á æfingu í morgun til að hitta strákana aftur. Við höfum fengið að heyra margar sögur um hvað var gert og eru þar nefnd fleiri nöfn en áður og þó sérstaklega eitt oftar en önnur.

Í gærkvöldi skelltum við okkur í bíó. Það er langt síðan við höfum getað gert það. Ótrúlegt hvað svona sjálfsagður hlutur er mikils virði þegar hann er ekki svo sjálfsagður lengur. Við erum reyndar farin að sjá fram á að þetta sé samt eitthvað sem við getum farið að gera meira af því að núna loksins erum við að fá einhvern sem getur leyst okkur aðeins af og við þá farið að taka þátt í hinu almenna lífi að einhverju ráði aftur. Við verðum samt örugglega frekar klaufsk við það svona til að byrja með því við erum eiginlega búin að gleyma hvernig það er að geta farið saman eitthvað eins og bara út í búð en þetta er örugglega eins og að hjóla. Einu sinni lært og þá er maður fljótur að rifja upp gamla takta.

Jæja ætla að hætta þessu bulli í bili. Þangað til, munið að elska hvert annað. 


Allt og ekkert

Núna erum við Huginn alein heima. Ásdís farin á vit ævintýranna í Eyjum og ætti að vera komin um borð í Herjólf núna og vona ég að hún verði ekki sjóveik. Strákarnir eru í sínum vinnum í Rvk. og Sveitinni, Hafrún farin á starfsmannafund og Mumminn á fótboltaleik. Huginn er orðinn töluvert sybbinn en ég ætla samt að láta hann vaka aðeins lengur svo hann vakni ekki fyrir sjö í fyrramálið. Því þótt máltækið segji að morgunstund gefi gull í mund þá finnst mér óþarfi að fara á fætur áður en smáfuglarnir vakna.

Annars er nú lítið að frétta héðan af Teignum nema að það var hringt í dag frá Rjóðrinu og Hugin boðið að koma þangað á mánudaginn og vera fram á föstudag. Vegna þess hversu illa hefur gengið með hann þar þá munu sjúkraliðar frá Skurðdeildinni fylgja honum í Rjóður og kenna starfsfólkinu þar á hann. Mikið vona ég að þetta virki í þetta sinn og Huginn þurfi ekki einu sinni enn að verða sendur upp á Bráðamóttöku mikið veikur.

Þangað til næst elskið hvort annað og segið frá því.


Ég er heppin

Ég er ótrúlega heppin kona. Ég á fullt af æðislegum börnum sem veita mér mikla gleði. Reyndar veita þau mér líka fullt af áhyggjum og stressi þegar þau teygja svo á rammanum að hann er við það að bresta. En það er víst eins og það á að vera, reyna að komast eins langt og hægt er og helst aðeins lengra. Það er víst þáttur í því að verða fullorðinn, sjálfstæður einstaklingur. Ég hef alla trú á því að öll börnin mín munu koma til með að gera það sem þeim langar til í lífinu og farnast vel þrátt fyrir að unglingsárin virðist stundum vera hrikalega erfið og himin og jörð sé að farast nokkuð reglulega og að enginn skilji hvað þau eru að ganga í gegnum. Ég veit, ég fæddist fullorðin alveg eins og aðrir foreldrar og skil því ekki neitt. Þessi börn eru svo yndisleg.

Hlýnun jarðar hefur verið áhyggjuefni undanfarin ár og er orðið töluvert vandamál með alls konar náttúruhamförum. Ég hef verið mjög eigingjörn undanfarið og eingöngu hugsað um líðandi stund. Því ég er ekkert voðalega ósátt við þessi hlýindi sem hafa verið undanfarna daga og vona að þau vari sem lengst. Það er bara allt miklu skemmtilegra í góðu veðri. 

Núna er Ásdís á fullu að undirbúa ferð sína til Vestmannaeyja. Hún fer á morgun og hlakkar ekkert smá mikið til. Það eru nokkrir dagar síðan hún fór að pæla í hvað hún ætti að taka með sér og er planið að pakka niður í dag. Í gær var lokafundurinn fyrir mótið og var smá grillveisla, þar fengu krakkarnir tösku og vatnsbrúsa að gjöf frá Glitni ásamt því að húfurnar komu loksins. Það verður glæsilegur hópur sem fer héðan til Eyja og vona ég að allir skemmti sér konunglega. Ég verð örugglega alltaf á netinu til að fylgjast með hvernig litla afleggjaranum mínum gengur. Ótrúlegt!  Ég sé fram á að eyða helginni í að fylgjast með fótbolta. Mér sem leiðist fótbolti. Það er greinilega annað þegar barnið manns er partur af fótboltanum. Mumminn minn verður sennilega mjög hamingjusamur með þennan skyndilega áhuga en hann hefur átt svolítið erfitt í sumar. Báðir strákarnir í burtu og hann VERÐUR að tala um fótbolta við mig sem hef lítinn áhuga og nákvæmlega ekkert vit á honum. Verð þó að viðurkenna að vitneskjan er stórum að aukast. Verð kannski orðin rosa klár í haust. Púff.

Jæja ætla að hætta í bili þori ekki að hafa þetta lengra því undanfarnar færslur hafa bara horfið rétt áður en ég hef getað staðfest þær og nenni ekki að þessi fari sömu leið. Þannig að þangað til næst Elskið hvert annað.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband