Færsluflokkur: Bloggar

Hef ekki hugmynd um hvað þessi færsla á að heita

Ekki veit ég á hverju ég var eiginlega þegar ég ákvað að fara að smíða þennan pall minn en það var örugglega eitthvað. Hann er um það bil helmingurinn af lóðinni og ég hef um það bil engan tíma til að smíða hann og um leið og ég er að verða búin með timburstaflann þá er kominn nýr og miklu stærri stafli. Við fórum nefnilega í dag og sóttum klæðninguna á hann og það er ekkert smá magn. Ég svitna næstum því bara við að sjá hann. Get vonandi farið að vinna eitthvað í honum á morgun og þá minnkar staflinn Smile. Er því núna öll lurkum lamin, marin og blá eftir að hafa borið ábyggilega hálft tonn í gegnum húsið og út í garð. Þetta er kannski ekki rétta leiðin til að slaka á og ná púlsinum niður en ég verð samt að segja það að þessi smíðavinna er á vissan hátt mjög slakandi þó það sé kannski ekki á líkamlegan hátt þá er það á andlegan hátt. Það er frábært að finna þreytuna í líkamanum og vita af hverju hún stafar. Ég er semsagt að segja að það sé gott að vera þreytt. Ég held ég ætti að vita hvort ég geti ekki fengið einhver lyf eða eitthvað við þessu rugli í mér.

Í næstu viku byrja skólarnir aftur eftir sumarfrí. Sum af börnunum mínum eru mikið spennt, önnur minna. Hugsa að Hafrún sé spenntust því hún er núna að byrja í framhaldsskóla og er það svolítið spennandi. Hún stefnir á að verða sjúkraliði til að byrja með og valdi að læra hann í Heilbrigðisskólanum í Ármúla, FÁ. Þar sem það hefur orðið svo mikil fjölgun í '93 árganginum verður kennt í 3 bekkjardeildum. Veit ekki enn hvað Guðjóni finnst um það en vona samt að hann verði sáttur en 2 bestu vinir hans verða í öðrum bekk en samt eru einhverjir vinir hans með honum ennþá í bekk. Þetta kemur allt í ljós. Guðjón og Ásdís eru enn í sveitinni hjá ömmu sinni og afa en ég reikna með þeim heim einhvern tímann kringum helgina enda ekki seinna vænna, skólinn að skella á. Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki ósátt við það, því þá kemst lífið einhvern veginn í fastari skorður en er núna þó án þess að það sé eitthvað rugl á því.  

Litli gullrassinn minn hlustar á tónlist á meðan hann sefur. Núna undanfarið höfum við stillt á popptv og heyrum við tónlistina í barnapíunni niður til okkar. Það er ekki bara verið að spila nýjustu tónlistina á þessari stöð heldur mikið tónlist síðan 2003. Mér finnst það skemmtilegt því það eru svo mörg lög sem eru í nokkurs konar uppáhaldi frá þeim tíma og alltaf gaman að fá smá flash back og hugsa þá tíma. Annars er Huginn alveg hugfanginn af tónlist. Honum finnst flest skemmtilegt en annað er samt skemmtilegra. Honum líka sérstaklega róleg, hlýlega sungin lög (veit eiginlega ekki hvernig ég á að segja þetta) eins í kvöld þá var Friðrik Ómar að syngja í Kastljósinu og stráksi hætti að leika sér til að horfa á sjónvarpið, brosti og hló. Lagið sem Friðrik söng var svona fallegt og ljúft. Einnig er Óskar Péturs í uppáhaldi hjá honum, James Blunt og svo framvegis. Hann hefur líka gaman af að hlusta á fjöruga tónlist, klassík og Rammstein en verður reyndar fljótlega þreyttur á því enda mjög mikið stuð.

Nú ætla ég að skella mér í rúmið að sofa svo ég verði líka falleg á morgun svo þangað til næst elskið hvert annað og brosið.


Ég er stressuð!

Jæja var að fá niðurstöður frá blóðsugunum og segja þær að ég sé með góðan blóðhag. Nægilega mikið af vítamínum og steinefnum  (greinilegt að það dugar að borða nokkuð rétt) og flott kólesteról, þrátt fyrir hrikalega fjölskyldusögu og fullt af Doritos á hverjum degi. Þar sannast enn einu sinni orð gamals læknis sem ég fór til sem sagði að  ég gæti orðið feit kyrrsetukelling án þess að hafa áhyggjur af kólesterolinu. Getið þið séð mig fyrir ykkur þannig? Sem sagt allar tölur góðar nema smá hækkun í sumum lifrargildunum og ætla ég að sýna snillingnum niðurstöðurnar og vita hvað hann segir um þær. Annars er ég víst bara stálhress og greinilega bara að farast úr stressi og þess vegna er hjartað mitt að flýta sér svona mikið. Verð greinilega að fara að slaka aðeins á og óska ég hér með eftir góðum ráðum til þess. Hef reyndar trú á að álag síðustu ára sé ekki auðlagað en það má reyna.

Smíðavinnan í pallinum mínum er farin að ganga eitthvað og er ég farin að sjá loksins fyrir endan á þessum ósköpum. Ég lofa því að setja inn mynd af honum þegar hann verður tilbúinn. Hann verður ógó flottur.

Hætt í bili þarf að skella mér í pallvinnu því Magga pass er mætt og þá þýðir ekkert að slæpast, svo þangað til næst elskið hvert annað án þess að negla á puttana.


Hvernig veistu hvort þú ert hommi?

Nú standa yfir Hinsegin dagar og mikið húllum hæ út um borg og bý. Mér finnst þetta skemmtileg hátíðahöld og svo öðruvísi en flest önnur hátíðarhöld. Gleðigangan er hápunkturinn að margra mati og fara rosalega margir í þá göngu ýmist til stuðnings málefninu eða vegna einhvers sem þau þekkja sem er hommi eða lesbía. Síðan eru auðvitað fjölmargir sem fara í gönguna sem eru hommar eða lesbíur og einnig gengur fólk bara til þess að vera með því þetta er stór viðburður og stórskemmtilegur.  Mér finnst samt afar sárt til þess að vita að árið 2007 eru hommar og lesbíur enn að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum fyrir sig og síðan segjumst við lifa í upplýstu samfélagi sem hefur litla fordóma. Hvers vegna á þá fólk svona erfitt með að koma út úr skápnum? Það að viðurkenna kynhneigð sína á að vera og er sjálfsagt mál. En... samt virðist það ekki vera svo sjálfsagt. Hvers vegna get ég ekki skilið. Ég þekki samkynhneigt fólk og er þetta fólk allt saman venjulegt fólk með sömu langanir og þrár og gagnkynhneigt fólk. Hvað er þá vandamálið? Er það fáfræði eða eitthvað annað? Ekki mitt að svara.

Bróðir minn er hommi. Hann er einn minn besti vinur og það er frábært að geta talað við hann um stráka, föt og þess háttar. Hann skilur mig. Sennilega betur en nokkur annar. Hann var í Gleðigöngunni í dag og hefði ég gjarnan viljað ganga með honum en var það ekki mögulegt að þessu sinni. Ég veit að heimur samkynhneigða er oft aðeins öðruvísi en fólks sem er gagnkynhneigt og hef þess vegna spurt hann bróður minn ótrúlegra spurninga.  Því upplýsing vinnur á fordómum. Ein af þessum ótrúlegu spurningum var hvernig hann vissi að hann væri hommi. Hann horfði á mig og spurði mig til baka hvernig ég vissi að ég væri ekki lesbía. Og ég skildi. Ég elska þennan bróður min og mér er nákvæmlega hver kynhneigð hans er því það er ekki það mikilvægasta í lífinu frekar en húðlitur eða í hvaða trúfélag fólk er skráð í heldur er mikilvægast að vera sáttur við sjálfan sig, orð sín og gjörðir og þá verður allt einfaldara.

En að öðru. Á miðvikudaginn ákváðum við hjónaleysin að skella okkur í sveitina til foreldra minna með Huginn.  Við lögðum í hann á fimmtudaginn og komum heim aftur í dag. Við höfum ekki farið norður með Hugin síðan um páska 2005 enda hefur hann ekki verið mikið ferðafær og síðan er mikið fyrirtæki að fara með hann til að vera yfir nótt. Því við verðum að taka allar vélar með okkur og þær eru ekki fáar né smáar. En þar sem við vissum að við yrðum bara 3 á ferð og Gullrassinn búinn að vera súper hress þá ákváðum við að skella okkur. Mamma varð svo glöð að heyra að við væru að koma að ég heyrði hana hoppa af ánægju. Það er ekki leiðinlegt að fá svona viðbrögð. Ferðin gekk vel, Huginn hress allan tímann, foreldrar mínir í skýjunum, börnin mín glöð og ég þurfti ekki að elda W00t. Alltaf gott að vera á hótel mömmu. Takk elsku mamma og pabbi fyrir góðar stundir.

Erum komin heim núna og sitjum hér saman kærustuparið og kúrum alein og alsæl í heiminum (Huginn er sofnaður) það er gott að elska og ætla ég að hafa það lokaorðin í bili.


Ekki hringt í mig

Er að spáí að henda inn nokkrum línum til að fólk haldi ekki að ég hafi andast úr leti eða einhverju sambærilegu.

Ég hef verið að fylgjast með umræðunni um Fit-málin. Mér finnst þessi sekt algert rán og finnst frekar svekkjandi að fá sekt upp á 750 kr. fyrir að fara óvart kannski 100 kr. yfir á reikningnum og það jafnvel vegna þess að búðirnar hafi ekki hringt allt inn úr posanum í einhverja daga. Varð mikið hissa þegar ég las síðan í Fréttablaðinu í gær viðtal við mann, sem ég auðvitað man ekki hvað heitir og nenni ekki að fara og athuga með, þar sem hann fullyrti að allir bankar hringdu alltaf í viðskiptavini sína þegar og ef þeir færu yfir á reikningum sínum. Ég hef nokkrum sinnum farið yfir og aldrei hefur verið hringt í mig til að láta mig vita af því með ómældum kostnaði. Þess vegna fékk ég mér smá yfirdrátt til að dekka þessi smávægilegu óvart yfirfærslur mínar. En viti menn, ég fór allt í einu að fá Fit-póst. Afhverju í ósköpum hugsaði ég, ég er með yfirdrátt og hann er sko alls ekki allur notaður. Tékkaði á þessu og þá hafði bankinn tekið yfirdráttinn út og ég vissi ekki af því en lítið mál að laga það og Fit-kostnaður er aftur úr sögunni. En mikið er ég sammála því að þessi gjöld eru tímaskekkja og tímabært að fella þau burt eins og verðtrygginguna.

Það er búið að rigna og rigna og þess vegna hefur lítið verið gert í pallinum mínum. Veit þvílík leti. Ég lofa að eftir helgina verður farið á fullt í að skella girðingarstaurunum í steypu og klæðningu á potthlutann á pallinum svo hægt verði að henda dollunni þar og síðan að skella restinni af klæðningunni á. Og allt tilbúið á Ljósanótt LoL.

Við hjónaleysin erum komin með konu til að passa Gullrassinn okkar og höfum nýtt okkur passið til að fara saman í búð og á rúntinn og svoleiðis. Þetta er alveg ótrúlega frábært. Konan heitir Magga og er hún ótrúlega tilbúin til að læra á Hugin og allt sem honum fylgir og það er ekki lítið verk. Ég dáist að því hversu órög hún er og ef hún er stressuð þá segir hún það bara og er það mjög gott. Eftir smá tíma þá veit ég að hún hættir að vera stressuð og gerir allt sem þarf að gera eins og hún hafi aldrei gert annað og hlær að stressi fortíðar. Núna þurfum við eiginlega að finna aðra frábæra konu til að passa á móti Möggu því það er alltaf betra að hafa tvær. Önnur getur alltaf forfallast á hinn ýmsa máta og ekki getað passað þegar við þurfum pass. Einhver sem bíður sig fram?

Í gærkvöldi skelltum við hjónaleysin okkur í bíó og sáum bíómyndina um Simpson's. Ágætis afþreying og allt það. En myndi kannski ekki vinna óskar en samt er það jafnvel líklegt. Síðan skruppum við saman í vinnuna hans Mumma í dag og ég fékk að sjá allt nammið, áfengið og snyrtivörurnar. Vá maður ekkert smá magn. Fengum nammi sem hafði lent í slysi og ég var næstum dáin því einhver sá svoleiðis eftir því ofan í mig og fór hreinlega að gráta því ég hóstaði svo mikið og var illt lengi á eftir.

Er að fara til læknis á morgun útaf þessum blessaða púls í mér. Það verður að finna einhverja lausn á þessum hraða. Hjartað í mér er örugglega að verða of stórt eða eitthvað. Verð að viðurkenna að ég er hálf smeik við þessi læti í hjartanu í mér. Það er gígantísk hjartasaga í báðum ættum hjá mér og afhverju ætti ég að sleppa við einhvern af þeim hjartasjúkdómum sem herja á fjölskylduna mína. Ég drekk reyndar rauðvín í miklum móð vegna þess að það er svo gott fyrir hjartað, ekki vegna þess að það er svoooo gott með góðri steik, ostum eða bara eitt sér. Ég er í skítsæmilegu formi, hef oft verið í verra formi og er formið að fara batnandi. Sé fram á að ég fari að fá einhvers skonar sixpack fljótlega, veit reyndar ekki alveg hvernig hann muni koma til með að líta út því kviðvöðvarnir voru auðvitað skornir alveg í sundur, þegar ég gaf part af lifrinni í mér, og ekki saumaðir gallalaust saman aftur þannig að ég er með smá poka eða eitthvað þessháttar á miðjum maganum en það er ekki mikið mál miðað við að ég bjargaði mannslífi.

Jæjka ætla að hætta þessu bulli í bili og fara að skrúfa sundur rúm en þangað til næst elskið hvert annað því það er mannbætandi.


Held ég sé klikkuð

Ég held að ég sé hálfviti. Ég er búin að vera á útopnu í dag og sennilega búin að eyða allri þeirri  auka orku sem ég safnaði í bústaðnum í síðustu viku. Byrjaði strax í morgun að vinna í þessum blessaða palli mínum og kláraði það sem ég get gert áður en búðirnar opna aftur eftir frídag verslunarmanna, dreif mig síðan í að baða Hugin og að því loknu datt mér í hug að þrífa Bensann minn. Ryksaug hann og skúraði utan sem innan. Þá var kominn tími á að elda steikina sem ég gerði með öllu tilheyrandi og át hana síðan með bestu lyst. Eftir matinn var kominn tími á að koma gullrassinum mínum í rúmið og síðan ákvað ég að setjast niður og horfa á sambandsráðgjafann í karlaveldinu Elmo.

Þetta væri svo sem í lagi ef ég hefði fulla orku og eðlilegan púls. En þar sem það er ekki í boði þá er ég alveg búin á því í bili og er orðin þreytt. Verð vonandi fersk á morgun og til í að halda áfram að smíða pallinn hann á nefnilega að vera tilbúinn á Ljósanótt. Ég held að það takist nema ef eitthvað komi upp á. Við fáum "stóra baðið" sem á að vera á honum í vikunni og þá fer þetta allt að koma og Huginn ætti að verða mikið glaður að minnsta kosti ef ég miða við ánægjuna hjá honum að vera í pottinum í sumarbústaðnum.

Átti frábæran gærdag. Það komu fullt af gestum til okkar sem er alltaf skemmtilegt en samt of sjaldgæft. Fyrstu gestirnir sem komu og fóru komu síðan aftur og borðuðum við saman kvöldmat sem var yndislegt. Takk fyrir góða kvöldstund elsku Berglind og Jón og þið hin takk æðislega fyrir komuna. Það koma sjaldan gestir til okkar því fólk er eðlilega hálf smeykt við að bera eitthvað með sér sem gæti sýkt Hugin en sem betur fer er hann að eflast og ónæmiskerfið að styrkjast og hann veikist síður en áður. Hann hefur ekki orðið veikur síðan í janúar ef frá er talið þegar hann þornaði upp í Rjóðrinu og var fluttur á spítalann og var þar í nokkra daga á meðan hann var vökvaður. Þetta segir okkur að hann sé að eflast. Því ætti að vera orðið nokkuð öruggt að heimsækja okkur. Reyndar er aldrei hægt að koma algjörlega í veg fyrir að fólk veikist og ef við ætlum ekki að búa í kúlu þá verðum við að taka áhættu. Því segi ég komið og verið ekki hrædd.

Jæja ég ætti að leggjast upp í sófa með tærnar upp í loft og slaka svolítið á og ná púlsinum kannski niður fyrir 100 og þá verð ég ótrúlega hress á morgun.  Þangað til næst elskið hvert annað og púlsinn fer upp InLove


I'm home

Jæja þá er ég komin aftur til byggða. Við fórum fjölskyldan í sumarbústað í viku með krosslagða putta og vonuðum að vikan yrði vika en ekki bara nokkrir dagar. Það færi allt eftir því hvernig Huginn myndi líka vistaskiptin. Honum líkaði þau ágætlega og vorum við því í viku fríi. Fórum síðasta föstudag og ég var með létta tremmu yfir því að koma ekki öllum farangrinum og börnunum í bílinn í einu en það leystist farsællega því Hafrún var beðin um að passa á föstudagskvöldið og yrði henni síðan skutlað í bústaðinn eftir passið. Þannig að við komum 3 börnum og hálfu sjúkrahúsi ásamt öðrum farangri í bílinn. Áttum síðan yndislega viku í fríi fjarri netheimum og ýmsum öðrum munaði en vorum engu að síður í munaði. Er bara ekki frá því að ég hafi aðeins náð að hvíla mig og safna smá á rafhlöðurnar mínar sem eru löngu orðnar galtómar. Vona bara að hleðslan dugi í einhvern tíma. Síðan þegar fór að líða að heimferð fengum við hjónaleysin aftur tremma því við þyrftum að fara heim með 4 börn, hálft sjúkrahús og annan farangur þannig að til að losna við að börnin þyrftu að sitja undir súrefnisvélunum á heimleiðinni fóru Mumminn og Guðjón heim með allt það dót sem við þurftum ekki að nota í gærkvöldi og komu síðan austur aftur, sváfu og síðan í morgun hentum við því sem við gátum ekki verið án í bílinn, síðan fóru börnin 4 í bílinn og við og allir sátu frjálsir og áttum við flotta heimferð þar sem vel fór um alla. Þegar við komum heim tóku tvö afskaplega glöð kattarkvikindi á móti okkur, héldu sennilega að við kæmum ekki aftur til þeirra. Ekki að það hafi væst um þau því Berglind dekraði við þau út í eitt á meðan við vorum í burtu. Hún fór meira að segja og keypti eitthvað gúmmulaði handa greyjunum, þau áttu svooo bágt, alein heima. Takk Berglind fyrir passið á kvikindunum okkar.

Þegar við komum heim var húsið ískalt, allt í lagi ekki ískalt heldur bara svolítið mikið svalt. Mér láðist nefnilega að kveikja á ofnunum þegar við tókum súrefnissíurnar úr sambandi og því var húsið ekki kynnt á meðan. Við kyndum nefnilega með súrefnisvélunum. Ég ætti kannski að kveikja á hinni vélinni á meðan það er að hitna aðeins? Nei geri það bara í kvöld og skelf þangað til nema ég hafi opið fram í þvottahús á eftir þegar ég set í þurrkarann fæ mér svo bara kaffi þó klukkan sé orðin 2, þá hlýtur mér að hlýna aðeins.

Álagningarseðlarnir biðu okkar þegar við komum heim og kom þar í ljós að við höfðum greitt ríkinu næstum allt sem við höfðum átt að gera á síðasta ári sem þýðir að við þurfum ekki að greiða til Ríkissjóðs þetta árið sem er ágætt og síðan fáum við bætur fyrir að eiga svona mörg börn. Fáránlegt að kalla þetta barnabætur nær væri að kalla þetta styrk eða eitthvað svoleiðis. Það er eins og fólk eigi að fá bætur fyrir að eignast börn, líkt og fólk fær tryggingarbætur eftir að það verður fyrir tjóni.  Mér finnst þetta ekki sambærilegt. Því mér finnst það alls ekki tjón að eiga börn ekki einu sinni þó barn sé alvarlega veikt. Það er álag að eiga börn og ekki alltaf auðvelt en alls ekki tjón heldur þvert á móti. Síðan get ég haldið fyrirlestur um þetta málefni en ætla að geyma hann til annars tíma.


Nenni ekki

Sit hérna fyrir framan tölvuna á algjörum bömmer. Er um það bil að látast úr leti. Nenni ekki að baða Huginn sem liggur á gólfinu og hlær við Panther sem er reyndar fjólublái frílinn í einhverri Disney mynd sem ég man alls ekki hvað heitir og nenni ekki að muna. Alveg merkilega fyndinn fríll.  Nenni ekki að fara út og gera eitthvað í þessum blessaða palli mínum sem er farinn að öskra svo hátt á mig að verða kláraður að nágrannarnir eru farnir að kvarta undan óhljóðunum í honum. Nenni ekki að fara sjálf í bað þrátt fyrir að vera orðin svo skítug og illa lyktandi að ef ég væri buxur þá stæði ég sjálf. Nenni alls ekki að hugsa um hvernig í ósköpunum ég eigi að koma öllum farangrinum og börnunum í minn stóra bíl til að komast í sumarbústað. Einhvernveginn er sú hugsun samt alltaf að trufla mig. Ætti kannski að leggja mig og bíða eftir því að hugsunin líði frá. Nenni því ekki heldur. Ja, reyndar get ég það ekki. Verð að passa gullrassinn minn, baða hann og mig svo minn heittelskaði unnusti flýji ekki þegar hann kemur heim frá því að safna fyrir saltinu út á grautinn minn. Ég er eins og hundurinn, svínið og kötturinn sögunni um "litlu gulu hænuna" sem alltaf sögðu "ekki ég" og þar sem það er enginn annar sem getur núna verið litla gula hænan þá verð ég að vera hún líka og segja "það vil ég" og með þeim orðum minni ég á nauðsyn þess að elska náungann og er farin að blása lífi í næstum látna mig, fæ mér ópal og dríf í að gera flesta þá hluti sem ég NENNI alls ekki að gera.


Dagurinn í dag

Ég fór í gær í heimsókn á leikskólann "minn" til að skoða loksins allar breytingarnar sem hafa verið gerðar á honum og auðvitað líka til að hitta gellurnar sem vinna þarna. Margar "gamlar" vinkonur hættar og enn aðrar að fara að hætta. En hitti samt margar vinkonur þarna. Mér fannst mjög skemmtilegt að komast loksins í heimsókn en ég hef ekki getað farið vegna Hugins því eins og hefur verið þá er leikskóli frekar hættulegur staður fyrir litla gullrassinn minn. Reyndar var eitt sem skyggði á ánægjuna en það var er ég hitti eina konu sem sagði svolítið sláandi og illa ígrundað við mig. Mér varð eiginlega svo um að ég gat ekki svarað henni og ég hef heldur ekki getað rætt þessi orð við neinn. En mér líður illa yfir þessum orðum og þykir leitt að hafa ekki getað svarað konunni því það hefði kannski vakið hana til smá umhugsunar um hversu særandi þessi orð voru. Ég hef alltof oft sagt eitthvað sjálf sem er illa ígrundað og alls ekki fallegt fyrir áheyrandann án þess að meina í raun neitt með því en sagt samt án þess að hugsa. Mér þykir það mjög leitt og biðst afsökunar á því að hafa sært einhvern. Vegna lífsreynslu minnar undanfarin ár hef ég lært að dagurinn í dag er mikilvægasti dagur lífs míns og ætla ég því að reyna að hætta að hugsa um sársauka gærdagsins og líta björtum augum til dagsins í dag því hann er hreint ágætur.

Í dag er rigning, í gær var líka rigning. Bráðum fer fólk að kvarta undan rigninunni og tala um að það sé komið nóg af henni og sumarið sé búið. Mér finnst fyndið hvernig þetta er, sól í margar vikur og allir farnir að tala um hversu nauðsynlega þyrfti að rigna og nú rignir og þá er það ekki nógu gott. Ég er ekkert skárri í þessum kveinstöfum. Mín vegna mætti koma sól á morgun og vera næstu vikur með hlýindum svona fram að jólum.

Núna er baðið hans Hugins tilbúið og við ætlum því að fara og njóta þess að vera í baði, eða sko Huginn í baði og ég að baða hann, svo ég minni ykkur á að lokum eftir að elska hvert annað, líka í rigningunni.


Frábær helgi

Það er kominn mánudagur eftir óvenjulega helgi. Hún var ekkert óvenjuleg fyrir venjulegt fólk en mjög óvenjuleg fyrir mig og Mummann minn. Við vorum tvö ein heima og fórum meira að segja upp í Borgarfjörð í heimsókn til hennar systur minnar. Við gistum í sveitinni og er þetta allt mjög sérstakt fyrir okkur undanfarin misseri. Man ekki hvenær ég svaf ekki síðast heima hjá mér fyrir utan spítalann og Rjóðrið. Sem sagt helgin var frábær og ég mun lifa slatta lengi á henni.  Stelpurnar skelltu sér norður með bróður mínum og eyddu helginni í dekri hjá ömmu sinni og afa þeim finnst það alltaf svo frábært. Huginn er enn þá í Rjóðrinu en við erum að fara núna á eftir að sækja hann. Það verður gott að fá hann heim aftur.  Annars verð ég að þakka sveitafólkinu mínu kærlega fyrir frábæra helgi.

Pallurinn minn er á blússandi ferð og með þessu áframhaldi verður hann tilbúinn fyrir Ljósanótt. Alla vega er Mumminn búinn að bjóða fólki í pottinn þá helgi þannig að við erum í vondum málum ef það klikkar. Held samt að það klikki ekki. Er nefnilega að hamast við að setja bönd yfir dregarana og þá er bara að setja klæðninguna yfir og og og. Sko eins og heyrist þá er hann alveg að verða tilbúinn.

Ætla að hætta að bulla í bili og þangað til næst verðið þið að muna eftir að elska hvert annað.


Raus

Langar til að henda inn einu bloggi um það sem hefur verið að gerast undanfarið. Guðjón kom heim á sunnudaginn til að fara með okkur í tívolí. Það var góðgerðardagur Smáralindar og þangað er félögum í hinum og þessum félögum boðið. Við fórum sem sagt á mánudaginn í tívolí öll saman og skemmtum okkur vel í yndislegu veðri. Gaman að því hversu vel Huginn nýtur sín utandyra. Hann var alveg sáttur allan þennan tíma sem við vorum þarna en það voru rúmir tveir tímar. Síðan skelltum við okkur á KFC og borðuðum saman. Á þriðjudaginn steyptum við loksins undirstöðurnar fyrir þennan blessaða pall okkar og nú er hægt að fara að setja bitana á og síðan klæðninguna. En alveg nýtt. Við höfum engan tíma fyrir þetta fyrr en á laugardag og gerist því ekki neitt amk. þangað til.

Ásdís æfir fótboltann sinn af miklum móð og spilar leiki bæði með stelpum og strákum þess á milli. Hún fór með stelpunum um daginn inn í Reykjavík að spila við Víking og kom heim án takkaskónna sinna. Við leituðum um allt og allir möguleikar útilokaðir og ekki fundust skórnir, Ásdís var farin að halda að hún hefði gleymt þeim fyrir utan húsið á Iðavöllum og einhver hefði tekið þá. Viku seinna fóru meistarflokksstelpurnar í leik og þegar þær voru farnar úr rútunni fór þjálfarinn yfir hana til að athuga hvort eitthvað hefði gleymst. Viti menn þá voru skórnir þar. Búnir að vera í viku í rútunni og bæði þjálfarinn og starfsfólk SBK búin að fara oft yfir hana. Ótrúlega merkilegt. Allavega var stelpan himinsæl með að fá skóna sína aftur.

Guðjón fór aftur í gær. Verður hjá pabba sínum í dag og síðan er það sveitin á föstudag. Frétti að heyskapur er hafinn mátulega daginn fyrir rigningu. Annars er fínt að fá smá regn en er samt að vona að það verði ekki mjög lengi og alls ekki lárétt. Það er fátt eins leiðinleg og lárétt regn. Hafrún fór gölluð í unglingavinnuna í morgun enda ekki gaman að vera óvarin í skólagörðunum í rigningu. Hún fer síðan að vinna í líkamsræktinni seinnipartinn. Gerði það líka í gær. Naddinn er bara í sinni vinnu í Reykjavíkinni og unir sér vel. Merkilegt hvað hann er orðinn stór, ja kannski ekki merkilegt drengurinn er orðinn fullorðinn 18 ára karlmaður.

Við erum að fara með Hugin til Lúthers í dag og fáum væntanlega fína skoðun og síðan er ætlunin að hann fari í Rjóður á morgun og verði þar yfir helgina. Þar sem allt gekk svona vel um daginn þá er ég frekar bjartsýn á að helgin komi til með að ganga upp og hann verði þar alla helgina án viðkomu á bráðadeildinni.

Ætla að hætta núna og skella Hugin í bað. Þangað til næst, elskið hvert annað.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband