Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Allt að verða vitlaust og allt úr skorðum fer

Núna er allt að verða vitlaust í þjóðfélaginu. Fólk farið að ryðjast inn á lögreglustöð til að fá fanga látinn lausann sem frekar vildi sitja af sér sekt vegna brota sinna en greiða hana með peningum og er síðan hneykslað á því að lögreglan beiti táragasi til að verjast inngöngunni. Á sama tíma er fólk réttilega að missa sig yfir fólskunni sem sýnd var á myndbandi frá skólalóðinni í Njarðvík um leið og það virðist vera tilbúið til að beita sömu brögðum gegn valdstjórninni og það á að vera í lagi. Ég segi bara eins og nýbúakonan sagði einhvern tímann í Spaugstofunni "ég ekki skilja þessar íslendingur".

En að allt öðru. Ég er búin að vera að baka í dag.  Ekki til jólanna heldur í tilefni þess að Gullrassinn minn varð 4 ára síðastliðinn þriðjudag og er ætlunin að halda upp á daginn á morgun. Í tilefni af afmælinu hans fórum við hjónaleysin síðast liðinn sunnudag og umbreyttum Lúllinu hans. Núna er Lúllið svo mikið fallegt. Við höfum gert ýmislegt fyrir Lúllið í sumar og breytt því nokkrum sinnum vegna þess að við vitum ekki hvernig við viljum hafa það og höfum í raun ekki verið sátt við hvernig það hefur verið. Hvernig á maður svo sem að geta verið sáttur við að Lúllið sem barnið manns sefur í sé í einhverjum kirkjugarði? En við reynum og verðum að sætta okkur við það og núna finnst okkur við hafa gert það sem við gætum verið sátt við þar til við munum setja stein á það. Af fenginni reynslu munum við skoða mikið og vel áður en við tökum ákvörðun um stein og ekki panta fyrsta flotta steininn sem við sjáum fyrr en við höfum skoðað marga aðra. Lúllið er allavega mjög fínt í dag og erum við mjög sátt við það. Núna er höfuðverkurinn, hvernig jólaljós eigum við að setja hjá litla Gullrassinum mínum og hvar fáum við jólaljós. Erum að vinna í því.

Erfiðir dagar búnir og fleiri framundan og ég virðist vera að farast úr stressi. Allavega virðist Óli Lokbrá eitthvað vera að svíkja mig. Það er ekki gott fyrir liði og fjölskylduna mína og er ætlunin að fá sér 1 bjór til að vita hvort hann virki ekki eitthvað svipað og pilla í óræðum lit.

En þar til næst bíð ég bara góða nótt og sofið rótt.


4 ára Engill

Í dag eru 4 ár síðan litli Gullrassinn minn leit dagsins ljós. Hjartanlegustu afmæliskveðjur til þín ástin mín í Englaheiminn. Ég sakna þín endalaust mikið.

IMG_0240


Jesús Pétur Kiljan og hin heilaga jómfrú og aumingja ég

Núna er kominn 15. nóvember og jólin eru handan við hornið LoL eftir nákvæmlega 39 daga mun ég væntanlega sitja hér í sófanum og dást af gleði barnanna minna yfir jólagjöfunum sínum. Gleðin er ekkert minni þó þau séu sum orðin fullorðin og hin alveg að verða það. Ég hlakka líka til jólanna en um leið kvíður mig líka smá til þeirra. Ætla samt að reyna að láta gleðina hafa öll völd. Ætla að fara að henda upp nokkrum jólaseríum í gluggana og spila jólalög á fleiri hljóðfæri en símann minn. Skipti kannski um hringingu og skelli kannski "hæ hó jibby jei, það er kominn 17. júní" í símann. Alveg glatað að hafa eins hringingu og allir aðrir. En.. Kannski ég haldi mig bara við jólalagið mitt þar sem ég þoli illa breytingar amk. sumar.

Annars er ég hrikalega kvíðinn þessa dagana. Gullrassinn minn verður 4 ára á þriðjudaginn, 18. nóvember.  Ég hef ekki hugmynd um hvernig sá dagur verður fyrir mig og fjölskylduna mína því við höfum aldrei prófað svona afmælisdag Crying. Hann verður okkur vonandi þó góður.  Planið er að halda aðeins upp á daginn um næstu helgi.

Við erum að dunda okkur núna við að gera lúllið hans Hugins viðkunnalegra. Kirkjugarðurinn lítur hræðilega út og ég segi það satt að það er ekkert of gott að koma þangað núna. Þess vegna ákváðum við Mumminn minn að reyna að gera eitthvað sem fengi okkur til að líða betur þegar við komum í heimsókn til Gullrassins okkar.

Annars héldum við upp á dag íslenskrar tungu í leikskólanum í gær meðal annars með því að fara í heimsókn í heimaskólann okkar. Þar sungu börn af öðrum leikskóla lagið "snert hörpu mína" og ég get sagt ykkur það að ég beygði af. Ég hef svo oft hlustað á þetta lag síðan Huginn var jarðaður en í gær gerðist eitthvað. Sennilega það að það voru börn sem sungu en ég hef bara heyrt lagið flutt af fullorðnum.

Að lokum ætla ég að vitna í dagbókina mína góðu segir fyrir vikuna 16.-22. nóvember "Foreldrar- munið að allt sem börnin gefa ykkur er fallegt" og verð ég að segja að það er BARA rétt.


Lífið er stundum erfitt, en í samanburði við hvað?

Þar sem ég er næstum heimsins latasti bloggarinn þá hef ég stundum hugsað um að hætta að blogga en akkúrat þá langar mig svo mikið til að blogga þannig að ég ætla ekki að hætta. Það verður bara að fá að líða langt á milli.

Reyndar á þetta bloggleysi sér líka ástæður en þær eru að mér finnst ég hafa svo mikið að gera núna sem ég í raun skil ekki. Ég vinn 8 tíma í leikskólanum þar sem ég reyni að kenna grislingunum nauðsynlega undirstöðu fyrir grunnskóla síðan tekur við um það bil 8 tíma vinna hér heima við hin ýmsu heimilisstörf. Þetta gera um 16 klst á sólarhring sem er ekki neitt því ekki fyrir svo löngu vann ég í 28 tíma á sólarhring og fannst það ekkert mál. Ég skil ekki hvað ég er að kvarta þannig að það er best ég hætti því hér með.

Annars það helsta sem ég hef tekið mér fyrir hendur undanfarið er að ég er búin að nota heita sullupollinn minn þvílíkt mikið og mæli með að allir fái sér slíkan unaðsstað. Með betri fjárfestingum sem ég hef gert.

Um síðustu helgi fór ég og mín fjölskylda á Hótel Loftleiði til að taka á móti gjafabréfi frá Vildarbörnum. Ásdís Rán fékk úthlutað draumaferðinni sinni og þar sem við erum svo heppin að vera í hennar fjölskyldu þá fáum við að fljóta með í hennar draumaferð. Við vitum reyndar ekki alveg hvenær við förum en það er allt í skoðun. Við vitum þó hvert við viljum fara.

Síðan í dag vorum við hjónaleysin á Grand hótel að flytja fyrirlestur á ráðstefnu gjörgæslu-og svæfingarhjúkrunarfræðinga. Fyrirlesturinn hlaut mjög góðar undirtektir og margar fyrirspurnir og að lokum fengum við fallegan blómvönd fyrir okkar framlag. Ég vona bara að það sem við höfðum að segja frá muni koma öðrum til góða sem þurfa á þjónustu gjörgæslu að halda. Það var ekki mikið mál að  flytja þennan fyrirlestur en undirbúningurinn var stundum svolítið erfiður. Við þurftum að rifja upp viðkvæm augnablik og síðan ákváðum við að hafa myndir frá lífi Gullrassins okkar rúllandi undir lestri mínum. Það að fara í gegnum allar myndirnar var stundum ekkert auðvelt en að lokum völdum við tæplega 500 til að fara með. Margar þeirra voru áður óbirtar en við ákváðum að sýna þær þarna.

Núna er ég í miklum pælingum með framtíðina og held að ég sé að taka ákvörðun um hana og það sem meira er rétta ákvörðun. Sko mig. En er maður samt ekki alltaf að pæla í framtíðinni hvort sem er? Eða er núið það sem maður hugsar bara um? Það er svo sem í samræmi við það sem ég segi svo oft "lífið er núna, njóttu þess". Hef samt fulla trú á því að hugsunin um framtíðina eigi stóran þátt í því að gefa lífinu tilgang.

En þangað til næst mæli ég með því að brosa því lífið er núna og því á að grípa augnablikið og njóta. 


Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband