Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
25.9.2007 | 14:55
Meiri jól
Þar sem mér finnst gaman að tala um jólin og það eru ekki nema 90 dagar sléttir þangað til þau renna upp finnst mér ástæða til að fjalla aðeins meira um þau. Í gærkvöldi sá ég auglýsingu frá Garðlist, þar sem verið var að augýsa þjónustu fyrir jólin. Frábært. Þetta er reyndar aðeins fyrr en venjulega því eftir því sem mig best minnir þá hefur Ikea yfirleitt verið fyrst með jólaauglýsingarnar í byrjun október. Þannig að það styttist í að fólk fari að missa sig yfir þeim.
13 einstaklingar innan KFUM og KFUK datt í hug fyrir nokkrum árum að íslenska verkefnið "Operation Christmas Child" sem stendur fyrir flutningi á jólagjöfum í skókössum í um 90 löndum og ákváðu að munaðarlaus börn í Úkraínu þyrftu svo sannarlega á "jólum í skókassa" að halda. Verkefnið var fyrst kynnst fyrir jólin 2004 og þá gaf fólk 500 gjafir. Í fyrra 2006 söfnuðust um 4900 gjafir og vöru mörg glöð börn sem þáðu þær gjafir. Ein af þeim gjöfum var frá dóttur minni og lagði hún mikla vinnu og mikinn metnað í að finna bestu hlutina og bestu gjöfina fyrir börnin sem annars myndu ekki fá gjöf. Hún hugsaði mikið um hvað hún sjálf myndi vilja fá og hvað kæmi stúlkunni sem fengi gjöfina frá henni sem best og valdi gjafir samkvæmt því. Einhverju sinni var verið að tala um "jól í skókassa" á vaktinni inni á Barnaspítala og ég fór að tala um þegar ég var að kaupa fyrir stelpuna hluti í skókassann sá ég eina hjúkkuna lyftast frá sætinu sínu og leggja við hlustir. Ég var að segja frá því hversu mikilvægt þetta hefði verið fyrir stelpuna þegar hjúkkan sagði að hún væri ein af þessum 13 manna hópi sem hefði startað þessu. Hún sagði frá því þegar hún fór út til Úkraínu til að gefa gjafirnar og hvað börnin voru innilega glöð og þakklát og sagði hversu mikil fátækt væri þarna. Það sem okkur þykir svo eðlilegt og sjálfsagt að eiga nóg af er ekki sjálfsagt þarna. Hún sagði líka frá því að hún hefði verið að ganga frá því að hún færi aftur með gjafirnar. Mig langar til að biðja alla um að finna til nokkra hluti og setja í skókassa til að gefa þessum börnum. Sum þeirra höfðu aldrei fengið gjöf áður en þau fengu skókassagjöfina. Okkur munar ekkert um þetta en þetta skiptir mjög miklu máli þarna á munaðarleysingjahælunum í Úkraínu.
Hætt í bili og þangað til næst munið að elska hvert annað og að það er gott að gefa og okkur munar almennt ekkert um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.9.2007 | 15:29
Bráðum koma jólin
Sennilega er kominn tími á að blogga smá núna. Þessa viku hefur Huginn verið í Rjóðrinu og ég hef því haft frekar lítið að gera en samt ekki gefið mér tíma í að henda hér inn nokkrum linum. Merkilegt. Annars höfum við hjónaleysin haft það fínt í vikunni með 2 af börnunum okkar,(hin 2 eru í Rvk. í skóla). Við erum búin að viðra dásamlegu bláu farskjótana okkar svolítið og þannig skoðað fallega bæinn okkar á nýjan hátt. Það er alveg merkilegt hvað umhverfið breytist við það að hjóla um það. Litirnir verða einhvernveginn skýrari, og lyktin maður. Hún er himnesk. Núna er sérstaklega gaman að skoða umhverfið sitt því haustlitirnir eru að byrja að sjást. Mér finnast haustlitir ótrúlega fallegir og þreytist seint á að horfa á þá og skoða hvernig allt getur breyst á einni nóttu. Haustið er reyndar ekki minn tími, ég er hrifnari af vorinu. Það á kannski upptök sín frá því ég var að alast upp í sveitinni því á vorin kviknar allt til lífsins og lífið er dásamlegt.
Haustið er samt ágætt í litadýrð sinni og þá fer líka að styttast í jólin. Jólin eru svo frábær tími. Reyndar finnst mér ekki hentugt að eiga afmæli rétt fyrir jólin og þrátt fyrir að vera komin hátt á hinn rosalega fertugs aldur þá hef ég aldrei haldið upp á afmælið mitt. Fannst ömurlegt þegar ég var barn að fá sameiginlega jóla og afmælisgjöf. Það eru sem betur fer allir hættir að gefa mér svoleiðis núna. Ég fæ bara bæði. Ég var spurð að því um daginn hvort ég ætlaði að fá mér nýja hringingu í símann minn þegar jólin væru að koma. Kannski sumarsmellinn. Ég skil ekki hvað fólki finnst að hingingunni minni. Hvað er að því að hafa jólalag sem hringitón allt árið? Ég segi alltaf að það séu alltaf jól hjá mér og það megi glöggt sjá bara í nafninu mínu, Fjóla. Ég hlakka svolítið til jólanna núna, því ég held að Huginn muni hafa skemmtilegt á jólunum og finnast gaman að öllum ljósunum og pökkunum og öllu því sem jólunum fylgir. Ég er farin að spá í hvað við eigum að gefa ástvinum okkar í jólagjöf og verð líka að viðurkenna að við erum búin að fjárfesta í hluta af nokkrum. Síðan fara að koma jólaauglýsingar í fjölmiðlana núna eftir nokkra daga og þá verður bara gaman. Hef alveg ótrúlega gaman að því þegar fólk missir sig alveg yfir því að það sé byrjað að auglýsa jólin í október. Á sama tíma er jafnvel þetta sama fólk að tala um hvað það sé sniðugt að kaupa jólagjafirnar snemma, jafnvel að dreifa innkaupunum yfir allt árið svo það sé hægt að eiga aðventuna í rólegheitum og einnig að þurfa ekki að setja sig á hausinn í desember eða réttara sagt í febrúar þegar himinhái kreditkortareikningurinn kemur með síðasta jólasveininum honum Kortaklippi. Mér finnst þetta fínt og fagna fyrstu auglýsingunni jafnvel og fyrsta jólalaginu í útvarpinu sem er önnur ástæða fyrir fólk að missa sig yfir. Of mikið, of snemma, of þetta og of hitt og allir búnir að fá ógeð á jólunum þegar þau loksins renna upp, það eru rökin hjá þessu fólki sem er að missa sig yfir þessu öllu. Það er ekki hægt að gera öllum til hæfis en mér finnst þetta fínt svona.
Ætla að hætta að tala um jólin að þessu sinni svo það verði ekki um of. Þangað til næst slakið á og elskið hvert annað núna, það er ekki víst að það komi annað tækifæri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.9.2007 | 16:29
Hálf öfundsjúk
Ég verð að viðurkenna það að ég öfunda börnin mín svolítið núna. Málið er að þau eru að fara norður í sveitina í stóðréttir en ekki ég. Stóðréttirnar voru og eru einn stærsti viðburðurinn í sveitinni yfir árið. Mikill fjöldi hrossa smalað saman í rétt og síðan kemur mjög mikill fjöldi manna til að skoða hrossin og upplifa réttarstemminguna. Þegar var farið að kynna þessar réttir fyrir almenningi var pabbi beðinn um að reka öll sín hross til réttar í Skrapatungu en annars var hann vanur að skilja sín úr á Kirkjuskarði. Þetta var gert til þess að halda uppi fjöldanum í réttinni. Hann þurftir reyndar að nota 2 dilka undir sitt stóð og var frekar þröngt á þeim. Hann á enn mikið af hrossum þó þeim hafi fækkað mikið þá er hann enn að nota 2 dilka en það er ekki eins þröngt um þau.
Ég get alveg farið en það er svo mikið meira en að segja það þannig að ég ætla að vera heima og sleppa réttunum í ár. Reyndar er Guðjón farinn, en hann þurfti að fara með frænda sínum á gæs í kvöld. Stelpurnar fara á eftir með pabba sínum. Besta vinkona Ásdísar fer með og eru þær svo yndislega spenntar að ég er orðin spennt með þeim.
Guðjón verður reyndar á smá faraldsfæti í haust og bíður hann spenntur eftir að nóvember renni upp. Þá fer hann til London á fótboltaleik þar sem Arsenal og Manchester United munu mætast á heimavelli Arsenal. Við Mummi gáfum honum þessa ferð í fermingargjöf í vor enda það eina sem hann langaði í. Mumminn ætlar að fara með stráksa og veit ég með vissu að þetta verður þeim frábær ferð.
Ég var að lesa blogg hjá bloggvinkonu minni henni Höllu J. þar sem hún segir frá ungum hreinskilnum dreng. Ég hef heyrt margar góðar sögur um þennan góða dreng og við að lesa sögurnar mundi ég eftir einni. Það var þannig að kálfurinn hans dó og var hann svolítið leiður með það. Síðan kom föfurbróðir hans í heimsókn og biður strákurinn hann um að gera við kálfinn sinn. Frændinn spyr hvað sé að kálfinum og strákur svarar: Hann er bara dauður. Strákurinn hafði mikið traust á þessum frænda sínum og hans viðgerðarhæfileikum og fannst ekkert athugavert að hann lagaði kálfinn frekar en einhverjar vélar.
Hætt í bili. Þangað til næst elskið hvert annað líka í réttunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.9.2007 | 11:02
Undurfagurt blátt farartæki
Síðustu dagar hafa verið hreint ljómandi ágætir. Ég fór á föstudaginn og keypti mér fararskjóta, undurfagurt blátt reiðhjól. Nú á sko að fara að taka á því að hreyfa sig, stunda útivist og eyða tíma með mínum hjartaknúsara. Við fengum hana Möggu okkar til að passa á laugardaginn og skruppum í borg óttans, um miðjan dag því ekki er nægilegt að ég eigi mér dásamlegt útivistarfarartæki ef Mumminn minn á ekki neitt sambærilegt þar sem ætlunin er að nota græjuna til samverustunda. Ég er ekki að sjá mig reiða gæjann þar sem ég á alveg nóg með að halda mér í jafnvægi. Þannig að við skelltum okkur og fundum annað dásamlega blátt reiðhjól í hans númeri og höfum við farið í smá reiðtúra um götur bæjarins á okkar dásamlega bláu reiðskjótum. Fórum í gær og skoðuðum 2 gæslu/rólóvelli hér í bæ og verð ég að segja að þessir vellir eru fjölskyldu/barnvæna Reykjanesbæ hreinlega til háborinnar skammar. Tækin fá, illa farin og umhverfið óaðlaðandi og stundum hreinlega hættulegt börnum. Held að bæjarstjórinn okkar, hinn blái Árni, ætti að senda gengið sitt á vellina til að hreinsa til og endurnýja síðan tækin. Okkur tókst að fjárfesta í jólagjöfinni frá foreldrum mínum, sem þau gáfu okkur á jólunum 2005, á laugardaginn. Mér þykir það mikið afrek að það skuli taka 2 ár að kaupa eina gjöf.
Smíðaði helling í pallinum mínum á sunnudaginn og ætlaði síðan að leggjast í bað en það fór ekki betur en svo að ég endaði í sturtu á stofugólfinu. Það er víst betra að skrúfa fyrir vatnið þegar karið er orðið fullt. Svona sturta fer ekki vel með parketið mitt í loftinu, en þetta er samt svolítið fyndið svona eftir á.
Jæja ætla að fara að horfa á regnið berja rúðurnar og leika við Gullrassinn minn en þangað til næst, elskið hvert annað og munið eftir að njóta dagsins því hann er besti dagur lífs þíns.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.9.2007 | 15:20
Eðlilegt líf.
Sit hérna með Gullrassinn minn í fanginu, steinsofandi og hlusta á lag með dóttur minni sem hún söng inn á geisladisk í sumar. Eftir því sem ég hlusta oftar á sönginn hennar á diskinum verð ég alltaf montnari með hana. Hún syngur stórvel. Hún er afar skrautleg til andlitsins þessa dagana enda með þetta fína glóðarauga eftir að hafa fengið bolta í andlitið á fótboltamóti um daginn. En það er samt ekkert mál, hún náði að standa sína vörn. Það er bara að fórna sér, segir hún brosandi og stekkur síðan á fimleikaæfingu. Við þurfum að skoða vel hvernig hún geti verið að æfa bæði fótbolta og fimleika og vona að æfingarnar rekist ekki mikið á.
Guðjón er enn að bíða eftir því að fá að vita hvort verði boðið upp á æfingar í frjálsum íþróttum hér í vetur. Annars verðum við sennilega að finna einhverja aðra lausn á því. Hann hefur reyndar verið frekar slæmur í fótunum undanfarið en það lagst vonandi fljótlega og getur þá farið að beita sér af öllum krafti.
Annars gengur lífið sinn vanagang stóru börnin í skólanum og Mumminn í vinnunni og ég bara heima að chilla með Hugin. Við Mummi skruppum í bíó í gærkvöldi og var Magga að passa. Fín tilbreyting að komast svona út saman. Ég er enn að læra á þetta. Það að fólk geti farið saman í bíó eða eitthvað annað út er svo vanmetið. Það er ekki fyrr en það er ekki í boði sem maður áttar sig á mikilvægi þess. Vissulega er gott að vera heima í faðmi allra í fjölskyldunni en stundum verður að maður að geta farið til að rækta parasambandið og líka stundum að fara og vera einn með sjálfum sér. Það að geta farið út af heimilinu nokkuð áhyggjulaus er því ný reynsla fyrir mig og á ég svolítið erfitt með það en er þó að venjast því. Verð sennilega orðin góð í því í vor. Það að við fengum hana Möggu til okkar er mikil himnasending og loksins getum við fengið smá nasasjón af "eðlilegu" lífi. Án þess þó ég ætli að fara að skilgreina hvað sé eðlilegt líf. Að minnsta kosti getum við farið saman í bíó, afmæli og þessháttar sjálfsagða mannfagnaði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.9.2007 | 17:42
Góð Ljósanótt
Þá er Ljósanótt að baki. Afskaplega skemmtileg helgi með mörgum menningarviðburðum. Reyndi að skoða sem flestar sýningarnar en varð að vísu frá að hverfa mjög skyndilega þegar ég fékk símtal um að lítil stúlka hefði slasast. Hún var að leika við Ásdísi mína og vinkonu hennar. Ég stökk auðvitað af stað til stelpnanna og hringdi í móðurina á hlaupunum. Þegar ég kom til skottunnar var hún skelfingu lostin og talsvert meidd en náði að róa sig niður við að sjá vinkonu sem hún treysti. Var ákveðið að drífa hana á sjúkrahúsið, þar sem móðir hennar kom og tók við henni, því meiðslin voru þess eðlis, hún var síðan send til Reykjavíkur til frekari rannsókna.
Kvöldið leið síðan í góðra vina hópi, var grillað og skemmt sér heima við og síðan var farið aftur niður í bæ og notið skemmtidagskráinnar. Eftir stórkostlega flugeldasýningu, sem hvarf svolítið í sjálfri sér, hitti ég föður slösuðu stúlkunnar sem er fyrrverandi mágur minn og nýju konuna hans og var sú slasaða með þeim. Þegar ég ætlaði að tala við þau þá fékk ég heldur betur kaldar kveðjur frá þeim. Þar var mér tjáð að þar sem ég skildi við bróður hans þá tilheyrði ég fortíðinni og hann vildi ekkert við mig tala og ég skildi halda mig algjörlega fjarri þeim. Þeim kæmi ég ekki við lengur. Mér sárnaði þetta því ég veit ekki til að ég hafi unnið fyrir þessari framkomu af þeirra hálfu. En samkvæmt kenningu og skoðunum föður litlu stúlkunnar og fósturmóður, þá hefði ég átt að segja í símann þegar dóttir hans slasaðist að mér kæmi stelpan ekkert við hún væri í minni fortíð og ég á ekki að púkka neitt upp á hana og halda síðan áfram að skoða sýningarnar áhyggjulaus með minni fjölskyldu. Það sem mér finnst enn leiðinlegra er að þetta var greinilega ekkert fyllerísröfl í þeim þar sem fósturmóðurin hefur hefur farið ljótum orðum um mig á bloggsíðu sinni síðan og hefur verið dugleg að kommenta hjá öðrum um hversu slæm ég er.
Þrátt fyrir þessa leiðinlegu og óvæntu uppákomu þá naut ég hátíðarinnar að fullu. Við fengum fullt af gestum um helgina enda liggur heimilið vel við, í um 5 mínútna göngufæri frá aðalsviðinu. Ég þakka öllum sem komu og skemmtu sér með okkur á Ljósanótt, takk fyrir frábært kvöld og einnig þeim sem stóðu að hátíðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Þegar kviknar á deginum
Tenglar
Fólk á förnum vegi
- Huginn Heiðar Ofurkrúttið
- Berglind vinkona
- Stína Blöndal
- Árný
- Ragnheiður
Vert að skoða
Bloggvinir
- Mummi Guð
- Evaa<3
- Ásdís Rán
- Áslaug Helga Hálfdánardóttir
- Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
- Gerða Kristjáns
- Anna Gísladóttir
- Rannveig Lena Gísladóttir
- .
- Dísa Dóra
- Ólafur fannberg
- Huld S. Ringsted
- Gísli Torfi
- Halla Rut
- Guðsteinn Haukur Barkarson
- Lady Elín
- Emma Agneta Björgvinsdóttir
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Gulli litli
- Bryndís
- Brynja skordal
- Vertu með á nótunum
- Guðrún Hauksdóttir
- Erna Sif Gunnarsdóttir
- Anita Björk Gunnarsdóttir
- Bwahahaha...
- Ragnar Emil
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar