Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
31.8.2007 | 00:36
Hvað er að ske
Ég er að verða komin á þá skoðun að Mummi sé búinn að fara heldur betur á bak við mig. Það hefur komið í ljós að hann virðist lesa knattspyrnureglurnar fyrir mig á meðan ég sef. Þarna er komin skýringin á því hvers vegna hann þarf alltaf að skoða augnlokin að innanverðu í hádeginu. Við erum búin að vera áskrifendur að Sýn í nokkur ár og þar er sýndur fótbolti. Er dálítið horft á hann og síðan samþykkti ég að gerast áskrifandi að Sýn2 um daginn og þar er líka sýndur fótbolti eða bara fótbolti að því er ég best veit. Hvað er hann að gera mér? Man hvað ég var ánægð með að geta komið mér hjá því að fá Skjáinn í fyrra en á honum var sýndur fótbolti. Síðan kom gíróseðill á mínu nafni í dag frá KSÍ þar sem var verið að rukka fyrir námskeiðsgjöld. Hvaða námskeið er ég að fara á?
Nei, Ég er að skreyta all verulega núna með með KSÍ, það kom enginn reikningur og ég er ekki að fara á neitt námskeið. Flest af hinu er samt alveg dagsatt, hef reyndar ekki fulla vissu fyrir næturlesningunni en sterkan grun fyrst ég er farin að kunna skil á rangstöðu.
Fórum aðeins niður í bæ í kvöld með Dísina okkar og 2 vinkonur hennar, til að njóta tónleika nokkurra hljómsveita. Áheyrendur voru að mestu unglingar en ég hafði mikla ánægju af að heyra í hljómsveitunum sem margar rokkuðu feitt. Flott framtíð í tónlistinni og ekki tímabært að örvænta um stöðnun á því sviði. Þetta var ágætis upphitun fyrir það sem koma skal um helgina en annað kvöld verða tónleikar og líka á laugardagskvöldið og um daginn og og og... hef ekki fingur til að skrifa allt upp hér þannig að ég bendi áhugasömum á slóð Ljósanætur www.ljosanott.is þar er dagskráin í hnotskurn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2007 | 11:55
Gleðilega Ljósanótt
Nú er búið að setja Ljósanótt. Ég brá mér út á stétt til að athuga hvort ég gæti séð til setningarathafnarinnar þrátt fyrir að vera langt í burtu. Ég heyrði ágætlega nema þegar einhverjir þurftu að komast frá A til B á bílunum sínum. Stetningin við Myllubakkaskóla þar sem allir nemendur í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskóla og báðum háskólum Reykjanesbæjar komu saman og hlustuðu á Nælon syngja að þær væru algert furðuverk og síðan var Meistari Jakob sunginn á nokkrum tungumálum til að minna á fjölbreytileika mannlífs og menningar því Reykjanesbær er fjölmenningalegt samfélag, síðan heyrði ég að sungið var "Velkomin á Ljósanótt" síðan var talið niður og himininn fylltist af alls konar litum blöðrum sem einnig er tákn fyrir margbreytileika íbúa bæjarins. Ótrúlega flott.
Ákvað að skella inn einni mynd af blöðrunum á leið til himins sem er tekin af vef víkurfrétta, www.vf.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2007 | 14:40
Undarleg lífsreynsla
Ég fór á fótboltaleik í gær og það var bara gaman þó svo að liðið "mitt" hafi orðið undir í þessum leik. Ég hef farið á nokkra leiki og aldrei orðið vitni af því að börurnar væru notaðar en í gær varð ég vitni af því og ekki bara einu sinni heldur þrisvar. Þar af voru tveir leikmenn sóttir af sjúkrabíl. Dálítið sjokkerandi fannst mér. Ásdís leiddi leikmann inn á völlinn og það finnst henni mikil upphefð og er afar stolt af því að gera það. Hún varð reyndar fyrir því óhappi í gær að misstíga sig rétt áður en hlaupið var inn á en hún lét það ekki á sig fá og hljóp stolt með leikmanninum sínum inn á völlinn. Ég verð að segja það að mitt móðurhjarta stækkaði duggulítið við að sjá skottuna mína þarna á vellinum. Þessi leikur var annar leikurinn sem ég hef setið í stúkunni og stutt mitt lið í sumar og voru strákarnir mínir sammála um það að ég ætti að sitja heima þegar næstu leikir verða spilaðir. Þeim fannst ég óttaleg óheillakráka en síðsti leikur var einmitt hinn marg um talaði Skagaleikur 4. júlí þar sem gerðist afar ljótt atvik og síðan í gær voru 3 leikmenn liðsins farnir meiddir af velli eftir einungis 20 mínútna leik og þeir reyna að benda á mig sem sökudólg. Hey, ég gerði ekki neitt, var bara þarna.
Talandi um fótbolta. Ég varð fyrir svakalegu áfalli í gær. Ásdís var að tala um rangstöðu og hvernig hún vildi til. Hvenær er maður rangstæður? Ég, fótboltaófanið sem hingað til hef alltaf haldið að þegar leikmaður er rangstæður að þá þurfi hann að hlaupa á klósettið, fór allt í einu að útskýra fyrir barninu hvernig þetta væri og gerði það líka, til að kóróna allt, nokkuð rétt. Púfffff. Hvað er eiginlega að verða um mig? Mummanum mínum var mikið skemmt og var jafnframt gríðarlega stoltur af sjálfum sér að hafa komið þessum skilning inn í hausinn á mér alveg án þess að ég vissi. Hverju öðru hann er búinn að lauma í mig verður merkilegt að komast að en ég lofa því að þetta eru ekki upplýsingar sem ég hef verið að sækjast eftir að vita. Má hann gera mér þetta? Vona samt að ég vakni ekki upp einn morguninn með áhuga á fótbolta. Það yrði ekki góður morgunn, held ég.
Við hjónaleysin skruppum á Papaball á Players á laugardaginn og mikið var gaman að sjá Papana spila aftur, er búin að sakna þess að fara á ball með þeim. Ég hef ekki farið hvorki á ball né kaffihús síðan reykingabannið var sett á og ég verð að segja að það er mjög mikill munur á andrúmsloftinu. Reyndar var dálítið fúlt að finna alla prumpufýluna sem gaus annað slagið upp og kom út á manni tárunum.
Núna er ég farin að hlakka til Ljósanæturinnar sem verður um næstu helgi og er mikill menningarviðburður. Heyrði af því að tæplega 200 sýnendur yrðu með verk sín á þessari menningarhátíð og munar um minna. Vona að sem flestir ákveði að skella sér í Keflavíkina á Ljósanótt. Ég ætla að minnsta kosti að reyna að njóta í botn.
Ætla að hætta í bili og þangað til næst, unnið hvert öðru.
Bloggar | Breytt 28.8.2007 kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2007 | 15:53
Það fæðist pallur
Well. Það er búið að vera hellingur að gera hjá mér undanfarið. Fór með Hugin til bæklunarlæknis og þar var ákveðið að hann fengi sérsmíðaðar spelkur á fæturnar til að aðstoða hann við að standa. Hann er komin á nýja næringu með fleiri kkal í ml en áður og þar af leiðandi á ekki að þurfa eins mikið magn af næringu og vonandi að kasta minna upp. Núna er staðan sú að hann er með smá hita og er að byrja að þorna. Hvort það sé vegna þess að hann fær ekki nægilegan vökva, er að dæla í hann vatni eða að hann sé að kasta of mikið upp og fær þar af leiðandi ekki nægilegan vökva. Alla vega þá er hann farinn að fá semper sem er salt/sykur lausn og vonandi hjálpar hún honum að komast yfir þetta núna.
Pallurinn minn. Já, pallurinn minn er að fæðast. Steyptum við hjónaleysin staurana niður á mánudag og núna er byrjað að klæða herlegheitin og er komin klæðning á næstum jafn marga fermetra og gamli pallurinn var. Núna er að vona að "hann" hangi þurr amk. til kvölds svo ég geti skellt pallaolíu á það sem komið er. Þá get ég skellt grillinu og fínu garðhúsgögnunum mínum á pallinn aftur. Það verður aldeilis lúxus. Það verður allavega hægt að grilla á pallinum á Ljósanótt þó svo potturinn verði kannski ekki alveg tilbúinn en það er ekki vandamál, ég get alltaf sótt garðslönguna mína og sprautað á liðið ef það verður að blotna að utan verðu, við innanblota verður að notast við annars konar aðferðir.
Börnin öll byrjuð í skólanum og eru sátt. Kennarinn hans Guðjóns skrifaði meira að segja upp á töflu nákvæmlega það sem unglingum finnst skemmtilegast að heyra eða, "hér er allt leyfilegt" hann bætti reyndar við smáu letri sem hljóðaði einhvern veginn svona "nema það sem er bannað". En það er ekki málið heldur að allt er leyfilegt. Ásdís og besta vinkona hennar eignuðust nýja vinkonu en það er stelpa sem er nýflutt í götuna og er með þeim í bekk. Þeim er víst boðið í mat til nýju stelpunnar í næstu viku. Þrælsniðugt hjá foreldrum hennar að gera þetta til að kynnast aðeins vinunum, ég ætti kannski að skoða að gera eitthvað svipað. Það verður kannski bara þannig að nýja vinkona verður heimagangur hér eins og besta vinkonan og þá verða fleiri í mat hér, ef þeim líst betur á það sem er í matinn hér en heima hjá sér, þetta var svona í fyrra og ég á ekki vona á miklum breytingum núna í vetur, Ásdís notar þetta óspart sérstaklega þegar er slátur eða grjónagrautur í matinn hjá vinkonunni því hún fær ekki mikið af svoleiðis mat heima hjá sér. Hafrún himinsæl í nýja skólanum sínum og er strax búin að eignast vinkonur og er ein þeirra líka á sjúkraliða/náttúrufræðibraut.
Verð að hætta núna því það er að koma til mín maður með ferðasúrefnisvél fyrir Hugin. Það verður rosalega mikill munur að hafa svoleiðs vél og geta losnað við flesta súrefniskútana af heimilinu og tala nú ekki um úr bílnum. Við höfum oft hugsað um þegar við erum að ferðinni að það væri nú ekki gott ef einhver keyrði aftan á okkur, við á einhvern eða ef bílinn myndi velta. Við erum alltaf með 2-3 súrefniskúta í bílnum og þeir eru lausir því það er ekki einfalt mál að festa þá svo öruggt sé. Ekki spennandi ef þeir springa eða lenda í hausnum á okkur. Ættum að verða laus við þetta vandamál eftir daginn í dag með ferðavélinni.
Þangað til næst munið að elska náungann og ykkur sjálf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2007 | 10:57
Eru allir múslimar vont fólk?
Ég var að horfa á bíómynd í gærkvöldi sem heitir Dirty war. Hörkuspennandi tryllir um hóp hryðjuverkamanna sem hefur undirbúið stórkostlega hryðjuverkaárás árum saman. Inn í söguna fléttast svo líf þeirra sem vinna við að berjast á móti hryðjuverkum. Þessir hryðjuverkamenn voru auðvitað múslimar.
Ég er með mikla fordóma gagnvart múslimum og almennt fólki sem er upprunið frá Mið-Asturlöndum. Ég held að allt fólk frá þessum svæðum sé vont fólk. Hvers vegna er auðskýranlegt. Fjölmiðlar og kvikmyndagerðarmenn hafa myndað þessa skoðun mína. Það berast fréttir frá hörmungum á þessum svæðum daglega og er það orðið svoleiðis að ég er orðin ónæm fyrir því að heyra að margir Palestínumenn, Ísraelar, Afganar eða Bandarískir hermenn hafi fallið í árásum dagsins, þó svo að margir hina föllnu séu börn. Sú hugsun læðist jafnvel að mér að þetta sé bara fínt mál. Ég skammast mín fyrir þessar hugsanir. Fólkið þarna hefur alveg sama rétt og ég á friði. En þetta eru múslimar og þeir eru í heilögu stríði við vesturlöndin og þess vegna er þetta ok. Vissulega hafa múslimar aðrar skoðanir en við vesturlandabúar. Þeir ala á gríðarlegri kvenfyrirlitningu og framkvæma skelfilega hluti á konum í nafni fjölskylduheiðurs og fara betur með hundinn sinn en konurnar í fjölskyldunni. Láta þær klæðast ótrúlegum fatnaði sem er sennilega ekki mjög þægilegur í þeim hita sem er á þessum svæðum. Þeir fara í heilagt stríð við villutrúarmenn og þeir sprengdu Twin Towers. Heilaga stríðið þeirra felst í því að fremja hryðjuverk og nota til þess allar hugsanlegar aðferðir. Ég verð alltaf jafn forviða þegar ég heyri um að sjálfsmorðsárásir. Þvílíkur heilaþvottur sem á sér stað að geta fengið fullt af fólki til að vefja sig sprengjubelti og fara á einhvern ákveðinn stað og sprengja sjálfan sig í loft upp og helst sem flesta aðra. Allt fyrir málstaðinn. Mér finnst þetta klikkun og get engan vegin skilið það.
En ástæðan fyrir þessum pælingum mínum er sú hvers vegna fást leikarar til að leika múslimska hryðjuverkamenn? Eru menn virkilega til í að taka þátt í að auka ótta og hatur vesturlandabúa á múslimum með því að taka þátt í svona kvikmyndum, þó svo þeir tapi í myndinni og við "góðu"vesturlandabúarnir vinnum"ljótu"kallana. Við vitum að það er ekki alltaf þannig í raunveruleikanum. Eru þessi hlutverk kannski "sprengjubelti" Vestulandanna til að réttlæta stríðið í Afganistan og Írak? Ala á ótta okkar, fordómum og hatri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2007 | 23:06
Menning, menning
Mikið vona ég að allir hafi átt góða helgi og allir hafi komið sem minnst skaðaðir frá henni. Ég held ég hafi sloppið ágætlega vel frá henni. Fór ekki í Reykjavík á Menningarnótt heldur var heima í rólegheitunum. Fór heldur ekki á Danska daga í Stykkishólm eða á Kántrýdaga á Skagaströnd og er vel sátt við það. Bíð þvílíkt spennt eftir Ljósanótt og ætla að njóta hennar í botn.
Heldur vorum við heima og skelltum upp staurunum í girðinguna í gær, bróðir minn kom og aðstoðaði okkur við það. Takk fyrir hjálpina. Þetta þýðir að við getum steypt staurana niður á morgun og þá er bara að klæða palldrusluna. Reyndar fengum við dolluna á pallinn líka í gær, þetta er reyndar engin dolla heldur virkar þetta svipað stórt og sundlaugin í Sundmiðstöðinni, svo stór er dollan. Ok. ég veit ég er að ýkja helling en potturinn er svo miklu stærri en hann var í búðinni, held reyndar að þegar hann verður kominn á sinn stað þá verði hann bara venjulegur heitur pottur fyrir 6-8 manns.
Á föstudaginn varð fjölgun í stórfjölskyldunni þegar bróðurdóttir míns heittelskaða eignaðist son. Guttinn var fullsnemma á ferðinni og er drengurinn því fremur smár eða rétt rúmar 2 merkur. Honum heilsast bara nokkuð vel sem og móður hans. Hann dvelur nú á Vökudeild Barnaspítalans og veit ég af eigin reynslu að þar er allt gert til að barninu líði vel. Starfsfólkið er allt mjög fært og veit hvað það er að gera. Óska ég foreldrunum innilega til hamingju með frumburðinn.
Ég horfði á afmælistónleika Kaupþings og skemmti mér almennt ágætlega þar til Stuðmenn mættu en þeir eru svo sannarlega barn síns tíma og ættu að fara að viðurkenna það fyrir sjálfum sér.
Bubbi kom sá og gerði sig að fífli. Hvernig á maður að geta tekið mark á textunum hans, þar sem hann segir hvað "litli" maðurinn á erfitt uppdráttar, þegar hann er ofurseldur kapítalismanum sjálfur og lifir sjálfur þvert á innihald texta sinna. Síðan ætlar hann sennilega að fara að syngja bakraddir því hann er að fara af stað með "Bubba rock star" þátt. Ohhjj Enn einn ofuramerískureftirhermuraunveruleikaþátturinn. Var ekki nægilegt að gera Idol, X-factor, ástarfleyið og batchelor. Greinilega ekki og enn og aftur OHHHJJJ barasta. Hvað heldur Bubbi eiginlega að hann sé?
Nýja strákabandið hans Einars Bárðar er fullt af sætum strákum sem geta sungið sæmilega en ég er ekki viss um að eftir þennan flutning myndi ég kaupa með þeim plötu. Efast reyndar um það. Vona bara að þeir komi til með að þroskast.
Mikið rosalega er ég eitthvað neikvæð í þessum skrifum mínum. Held að það sé best að fara að hætta núna áður en allrir sem lesa verða komnir í vont skap. Lífið er ósköp indælt og oftast ágætt þótt það sé ekki alltaf eins og við héldum að það yrði. Þá er bara að vinna úr því. Þangað til næst, elskið hvert annað þrátt fyrir allt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.8.2007 | 00:00
Hef ekki hugmynd um hvað þessi færsla á að heita
Ekki veit ég á hverju ég var eiginlega þegar ég ákvað að fara að smíða þennan pall minn en það var örugglega eitthvað. Hann er um það bil helmingurinn af lóðinni og ég hef um það bil engan tíma til að smíða hann og um leið og ég er að verða búin með timburstaflann þá er kominn nýr og miklu stærri stafli. Við fórum nefnilega í dag og sóttum klæðninguna á hann og það er ekkert smá magn. Ég svitna næstum því bara við að sjá hann. Get vonandi farið að vinna eitthvað í honum á morgun og þá minnkar staflinn . Er því núna öll lurkum lamin, marin og blá eftir að hafa borið ábyggilega hálft tonn í gegnum húsið og út í garð. Þetta er kannski ekki rétta leiðin til að slaka á og ná púlsinum niður en ég verð samt að segja það að þessi smíðavinna er á vissan hátt mjög slakandi þó það sé kannski ekki á líkamlegan hátt þá er það á andlegan hátt. Það er frábært að finna þreytuna í líkamanum og vita af hverju hún stafar. Ég er semsagt að segja að það sé gott að vera þreytt. Ég held ég ætti að vita hvort ég geti ekki fengið einhver lyf eða eitthvað við þessu rugli í mér.
Í næstu viku byrja skólarnir aftur eftir sumarfrí. Sum af börnunum mínum eru mikið spennt, önnur minna. Hugsa að Hafrún sé spenntust því hún er núna að byrja í framhaldsskóla og er það svolítið spennandi. Hún stefnir á að verða sjúkraliði til að byrja með og valdi að læra hann í Heilbrigðisskólanum í Ármúla, FÁ. Þar sem það hefur orðið svo mikil fjölgun í '93 árganginum verður kennt í 3 bekkjardeildum. Veit ekki enn hvað Guðjóni finnst um það en vona samt að hann verði sáttur en 2 bestu vinir hans verða í öðrum bekk en samt eru einhverjir vinir hans með honum ennþá í bekk. Þetta kemur allt í ljós. Guðjón og Ásdís eru enn í sveitinni hjá ömmu sinni og afa en ég reikna með þeim heim einhvern tímann kringum helgina enda ekki seinna vænna, skólinn að skella á. Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki ósátt við það, því þá kemst lífið einhvern veginn í fastari skorður en er núna þó án þess að það sé eitthvað rugl á því.
Litli gullrassinn minn hlustar á tónlist á meðan hann sefur. Núna undanfarið höfum við stillt á popptv og heyrum við tónlistina í barnapíunni niður til okkar. Það er ekki bara verið að spila nýjustu tónlistina á þessari stöð heldur mikið tónlist síðan 2003. Mér finnst það skemmtilegt því það eru svo mörg lög sem eru í nokkurs konar uppáhaldi frá þeim tíma og alltaf gaman að fá smá flash back og hugsa þá tíma. Annars er Huginn alveg hugfanginn af tónlist. Honum finnst flest skemmtilegt en annað er samt skemmtilegra. Honum líka sérstaklega róleg, hlýlega sungin lög (veit eiginlega ekki hvernig ég á að segja þetta) eins í kvöld þá var Friðrik Ómar að syngja í Kastljósinu og stráksi hætti að leika sér til að horfa á sjónvarpið, brosti og hló. Lagið sem Friðrik söng var svona fallegt og ljúft. Einnig er Óskar Péturs í uppáhaldi hjá honum, James Blunt og svo framvegis. Hann hefur líka gaman af að hlusta á fjöruga tónlist, klassík og Rammstein en verður reyndar fljótlega þreyttur á því enda mjög mikið stuð.
Nú ætla ég að skella mér í rúmið að sofa svo ég verði líka falleg á morgun svo þangað til næst elskið hvert annað og brosið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.8.2007 | 15:13
Ég er stressuð!
Jæja var að fá niðurstöður frá blóðsugunum og segja þær að ég sé með góðan blóðhag. Nægilega mikið af vítamínum og steinefnum (greinilegt að það dugar að borða nokkuð rétt) og flott kólesteról, þrátt fyrir hrikalega fjölskyldusögu og fullt af Doritos á hverjum degi. Þar sannast enn einu sinni orð gamals læknis sem ég fór til sem sagði að ég gæti orðið feit kyrrsetukelling án þess að hafa áhyggjur af kólesterolinu. Getið þið séð mig fyrir ykkur þannig? Sem sagt allar tölur góðar nema smá hækkun í sumum lifrargildunum og ætla ég að sýna snillingnum niðurstöðurnar og vita hvað hann segir um þær. Annars er ég víst bara stálhress og greinilega bara að farast úr stressi og þess vegna er hjartað mitt að flýta sér svona mikið. Verð greinilega að fara að slaka aðeins á og óska ég hér með eftir góðum ráðum til þess. Hef reyndar trú á að álag síðustu ára sé ekki auðlagað en það má reyna.
Smíðavinnan í pallinum mínum er farin að ganga eitthvað og er ég farin að sjá loksins fyrir endan á þessum ósköpum. Ég lofa því að setja inn mynd af honum þegar hann verður tilbúinn. Hann verður ógó flottur.
Hætt í bili þarf að skella mér í pallvinnu því Magga pass er mætt og þá þýðir ekkert að slæpast, svo þangað til næst elskið hvert annað án þess að negla á puttana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.8.2007 | 20:53
Hvernig veistu hvort þú ert hommi?
Nú standa yfir Hinsegin dagar og mikið húllum hæ út um borg og bý. Mér finnst þetta skemmtileg hátíðahöld og svo öðruvísi en flest önnur hátíðarhöld. Gleðigangan er hápunkturinn að margra mati og fara rosalega margir í þá göngu ýmist til stuðnings málefninu eða vegna einhvers sem þau þekkja sem er hommi eða lesbía. Síðan eru auðvitað fjölmargir sem fara í gönguna sem eru hommar eða lesbíur og einnig gengur fólk bara til þess að vera með því þetta er stór viðburður og stórskemmtilegur. Mér finnst samt afar sárt til þess að vita að árið 2007 eru hommar og lesbíur enn að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum fyrir sig og síðan segjumst við lifa í upplýstu samfélagi sem hefur litla fordóma. Hvers vegna á þá fólk svona erfitt með að koma út úr skápnum? Það að viðurkenna kynhneigð sína á að vera og er sjálfsagt mál. En... samt virðist það ekki vera svo sjálfsagt. Hvers vegna get ég ekki skilið. Ég þekki samkynhneigt fólk og er þetta fólk allt saman venjulegt fólk með sömu langanir og þrár og gagnkynhneigt fólk. Hvað er þá vandamálið? Er það fáfræði eða eitthvað annað? Ekki mitt að svara.
Bróðir minn er hommi. Hann er einn minn besti vinur og það er frábært að geta talað við hann um stráka, föt og þess háttar. Hann skilur mig. Sennilega betur en nokkur annar. Hann var í Gleðigöngunni í dag og hefði ég gjarnan viljað ganga með honum en var það ekki mögulegt að þessu sinni. Ég veit að heimur samkynhneigða er oft aðeins öðruvísi en fólks sem er gagnkynhneigt og hef þess vegna spurt hann bróður minn ótrúlegra spurninga. Því upplýsing vinnur á fordómum. Ein af þessum ótrúlegu spurningum var hvernig hann vissi að hann væri hommi. Hann horfði á mig og spurði mig til baka hvernig ég vissi að ég væri ekki lesbía. Og ég skildi. Ég elska þennan bróður min og mér er nákvæmlega hver kynhneigð hans er því það er ekki það mikilvægasta í lífinu frekar en húðlitur eða í hvaða trúfélag fólk er skráð í heldur er mikilvægast að vera sáttur við sjálfan sig, orð sín og gjörðir og þá verður allt einfaldara.
En að öðru. Á miðvikudaginn ákváðum við hjónaleysin að skella okkur í sveitina til foreldra minna með Huginn. Við lögðum í hann á fimmtudaginn og komum heim aftur í dag. Við höfum ekki farið norður með Hugin síðan um páska 2005 enda hefur hann ekki verið mikið ferðafær og síðan er mikið fyrirtæki að fara með hann til að vera yfir nótt. Því við verðum að taka allar vélar með okkur og þær eru ekki fáar né smáar. En þar sem við vissum að við yrðum bara 3 á ferð og Gullrassinn búinn að vera súper hress þá ákváðum við að skella okkur. Mamma varð svo glöð að heyra að við væru að koma að ég heyrði hana hoppa af ánægju. Það er ekki leiðinlegt að fá svona viðbrögð. Ferðin gekk vel, Huginn hress allan tímann, foreldrar mínir í skýjunum, börnin mín glöð og ég þurfti ekki að elda . Alltaf gott að vera á hótel mömmu. Takk elsku mamma og pabbi fyrir góðar stundir.
Erum komin heim núna og sitjum hér saman kærustuparið og kúrum alein og alsæl í heiminum (Huginn er sofnaður) það er gott að elska og ætla ég að hafa það lokaorðin í bili.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.8.2007 | 22:06
Ekki hringt í mig
Er að spáí að henda inn nokkrum línum til að fólk haldi ekki að ég hafi andast úr leti eða einhverju sambærilegu.
Ég hef verið að fylgjast með umræðunni um Fit-málin. Mér finnst þessi sekt algert rán og finnst frekar svekkjandi að fá sekt upp á 750 kr. fyrir að fara óvart kannski 100 kr. yfir á reikningnum og það jafnvel vegna þess að búðirnar hafi ekki hringt allt inn úr posanum í einhverja daga. Varð mikið hissa þegar ég las síðan í Fréttablaðinu í gær viðtal við mann, sem ég auðvitað man ekki hvað heitir og nenni ekki að fara og athuga með, þar sem hann fullyrti að allir bankar hringdu alltaf í viðskiptavini sína þegar og ef þeir færu yfir á reikningum sínum. Ég hef nokkrum sinnum farið yfir og aldrei hefur verið hringt í mig til að láta mig vita af því með ómældum kostnaði. Þess vegna fékk ég mér smá yfirdrátt til að dekka þessi smávægilegu óvart yfirfærslur mínar. En viti menn, ég fór allt í einu að fá Fit-póst. Afhverju í ósköpum hugsaði ég, ég er með yfirdrátt og hann er sko alls ekki allur notaður. Tékkaði á þessu og þá hafði bankinn tekið yfirdráttinn út og ég vissi ekki af því en lítið mál að laga það og Fit-kostnaður er aftur úr sögunni. En mikið er ég sammála því að þessi gjöld eru tímaskekkja og tímabært að fella þau burt eins og verðtrygginguna.
Það er búið að rigna og rigna og þess vegna hefur lítið verið gert í pallinum mínum. Veit þvílík leti. Ég lofa að eftir helgina verður farið á fullt í að skella girðingarstaurunum í steypu og klæðningu á potthlutann á pallinum svo hægt verði að henda dollunni þar og síðan að skella restinni af klæðningunni á. Og allt tilbúið á Ljósanótt .
Við hjónaleysin erum komin með konu til að passa Gullrassinn okkar og höfum nýtt okkur passið til að fara saman í búð og á rúntinn og svoleiðis. Þetta er alveg ótrúlega frábært. Konan heitir Magga og er hún ótrúlega tilbúin til að læra á Hugin og allt sem honum fylgir og það er ekki lítið verk. Ég dáist að því hversu órög hún er og ef hún er stressuð þá segir hún það bara og er það mjög gott. Eftir smá tíma þá veit ég að hún hættir að vera stressuð og gerir allt sem þarf að gera eins og hún hafi aldrei gert annað og hlær að stressi fortíðar. Núna þurfum við eiginlega að finna aðra frábæra konu til að passa á móti Möggu því það er alltaf betra að hafa tvær. Önnur getur alltaf forfallast á hinn ýmsa máta og ekki getað passað þegar við þurfum pass. Einhver sem bíður sig fram?
Í gærkvöldi skelltum við hjónaleysin okkur í bíó og sáum bíómyndina um Simpson's. Ágætis afþreying og allt það. En myndi kannski ekki vinna óskar en samt er það jafnvel líklegt. Síðan skruppum við saman í vinnuna hans Mumma í dag og ég fékk að sjá allt nammið, áfengið og snyrtivörurnar. Vá maður ekkert smá magn. Fengum nammi sem hafði lent í slysi og ég var næstum dáin því einhver sá svoleiðis eftir því ofan í mig og fór hreinlega að gráta því ég hóstaði svo mikið og var illt lengi á eftir.
Er að fara til læknis á morgun útaf þessum blessaða púls í mér. Það verður að finna einhverja lausn á þessum hraða. Hjartað í mér er örugglega að verða of stórt eða eitthvað. Verð að viðurkenna að ég er hálf smeik við þessi læti í hjartanu í mér. Það er gígantísk hjartasaga í báðum ættum hjá mér og afhverju ætti ég að sleppa við einhvern af þeim hjartasjúkdómum sem herja á fjölskylduna mína. Ég drekk reyndar rauðvín í miklum móð vegna þess að það er svo gott fyrir hjartað, ekki vegna þess að það er svoooo gott með góðri steik, ostum eða bara eitt sér. Ég er í skítsæmilegu formi, hef oft verið í verra formi og er formið að fara batnandi. Sé fram á að ég fari að fá einhvers skonar sixpack fljótlega, veit reyndar ekki alveg hvernig hann muni koma til með að líta út því kviðvöðvarnir voru auðvitað skornir alveg í sundur, þegar ég gaf part af lifrinni í mér, og ekki saumaðir gallalaust saman aftur þannig að ég er með smá poka eða eitthvað þessháttar á miðjum maganum en það er ekki mikið mál miðað við að ég bjargaði mannslífi.
Jæjka ætla að hætta þessu bulli í bili og fara að skrúfa sundur rúm en þangað til næst elskið hvert annað því það er mannbætandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Þegar kviknar á deginum
Tenglar
Fólk á förnum vegi
- Huginn Heiðar Ofurkrúttið
- Berglind vinkona
- Stína Blöndal
- Árný
- Ragnheiður
Vert að skoða
Bloggvinir
- Mummi Guð
- Evaa<3
- Ásdís Rán
- Áslaug Helga Hálfdánardóttir
- Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
- Gerða Kristjáns
- Anna Gísladóttir
- Rannveig Lena Gísladóttir
- .
- Dísa Dóra
- Ólafur fannberg
- Huld S. Ringsted
- Gísli Torfi
- Halla Rut
- Guðsteinn Haukur Barkarson
- Lady Elín
- Emma Agneta Björgvinsdóttir
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Gulli litli
- Bryndís
- Brynja skordal
- Vertu með á nótunum
- Guðrún Hauksdóttir
- Erna Sif Gunnarsdóttir
- Anita Björk Gunnarsdóttir
- Bwahahaha...
- Ragnar Emil
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar