Jafnrétti ..eða forréttindi?

Af hverju er ekki haldin svona "fléttunámskeið" fyrir mömmur? Bara pabba. Er virkilega verið að halda því fram að mömmur kunni að flétta en pabbar ekki? Afhverju? Ég er mamma og ég kann ekki að flétta hár. Ég þoli ekki svona fullyrðingar.

Prinsessan æfir fimleika og þegar það eru mót þá er jafn mikilvægt að mæta með fastar fléttur í hárinu og að vera í fimleikabol. Plús félagsbúningur og glimmer í hárið. Í morgun var fimleikamót, það fyrsta í vetur og ég vakti prinsessuna eldsnemma til að ná að flétta hárið almennilega. Aldrei þessu vant þá tókust flétturnar í fyrstu tilraun. Það hefur aldrei gerst áður. Kannski er batnandi mömmum best að lifa.  Annað í sambandi við fimleikamótin. Hvers vegna í ósköpunum er aldrei hægt að standast tímaáætlanir? Ég man ekki eftir því að tímaáætlanir hafi staðist á þessum mótum og í morgun var engin breyting á. Þó var bara hálftíma seinkun, man eftir móti í fyrra þar sem var 3 tíma seinkun. Hvers vegna er þetta alltaf svona mikið klúður? Ég er búin að fara á mörg fótboltamót og þar stenst tímaáætlunin alltaf og ég endurtek alltaf. Þó svo að það séu miklu fleiri krakkar á þeim mótum þá stenst tímaáætlunin. Óskiljanlegt. Hef reyndar frekar mikla áráttu fyrir stundvísi.

En talandi um jafnrétti. Mér finnst umræðan um jafnréttið vera frekar einhliða. Konur mega allt en karlar helst ekki neitt. Mér finnst það ekki rétt. Jafnrétti er jafnrétti og gildir það um bæði kynin. Gott dæmi er forræði barna. Ég eignaðist mitt 4. barn með unnustanum og annarri konu og ég hef ekki hugmynd um hversu oft ég hef verið spurð að því hvers vegna pabbinn væri með forræðið, en það er mjög oft. Einnig er ég reglulega spurð að því hvort að það sé eitthvað í ólagi hjá móðurinni en samkvæmt öllu þá hlýtur það að vera. Móðirin sem ég á fullorðna barnið með er flott kona sem hefur aldrei verið í neinu rugli. Hún er vel menntuð og hefur alltaf haft hagsmuni barnsins síns í fyrirrúmi. Þess vegna varð ég svo lánsöm að eignast fullorðna barnið mitt og að þurfa að bera ábyrgð á því alla daga og finnst ég heppin að fá að gera eins og segir í textanum "ég vil að börnin fæðist stærri, um fermingu væri nærri lagi". Ég eignaðist hann nefnilega um fermingu hans. Spurningar um forræðið hef ég fengið frá leikmönnum og einnig fagfólki sem starfa innan barnaverndarnefndar, bæði þegar við leituðum til þeirra sem stuðningsaðila fyrir börnin okkar þegar við þurftum að fara með Gullrassinn til Bandaríkjanna í aðgerðina og einnig þegar blessaður barnsfaðir minn kærði okkur til þeirra vegna vanrækslu 2 barna af 3 sem hann á með okkur. 

Annað dæmi. Pallurinn minn. Ég er að smíða hann og fæ aðstoð frá unnustanum eftir þörfum. Samt fæ ég reglulega þá spurningu hvers vegna ég láti hann ekki gera þetta.  Mér finnst bara mjög gaman að smíða og er bara nokkuð flink við það þó ég segi sjálf frá og því miður þá er unnustinn óvart með  fleiri þumalputta en góðu hófi gegnir. Þó svo að ljósmyndir heimilisins sýni annað. Held að það séu bara til myndir af mér mála pallinn en honum við svo margt annað. Strákar hafa áhuga á bílum ekki stelpur. Ég veit hvernig á að keyra og hvar á að mæla olíuna en allt annað veit ég ekki. Unnustinn ekki heldur og þess vegna eru bifreiðaverkstæði til.  Það eru ekki allir strákar sem kunna allt á bíla.  Í fyrra varð Gullrassinn 2 ára og við gáfum honum dúkku í afmælisgjöf. Dúkkan er í bleikum fötum. Hann elskar hana. Þegar hann grætur og allt er ómögulegt og ekkert leikfang er skemmtilegt þá er dúkkan hans alltaf æðisleg. Hann breytir alveg um tón þegar hann fær hana. Besta leikfang sem hann hefur eignast. 

Bróðir minn er hommi og hefur gaman að því að fara á veiðar. Hann hefur ótal sinnum verið böggaður fyrir það því ef menn eru hommar þá eru þeir kvenlegir og eins og allir vita þá mega konur ekki hafa áhuga á veiðum. Þær sem það hafa eru strákalegar og veiðar eru strákasport.

Ég man eftir einhverum manni sem kærði til jafnréttisráðs einhverja starfsráðningu. Það er kona var ráðin í starf en karlinn var miklu hæfari. Allir gerðu grín að manngreyinu sem kærði. Vegna þess að það eru bara konur sem kæra til jafnréttisráðs.

Með öðrum orðum þá erum við að ákveða hvað er stelpulegt og hvað er strákalegt. Og síðan erum við hissa á því að það sé mismunun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Góður pistill og minnir mann á að oft er maður sjálfur það sem mest hamlar framförum. Eigin meinlokur og hugsanaskekkjur.

Ragnheiður , 21.10.2007 kl. 00:06

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Eins og talað út úr mínu hjarta. Nýjast á blogginu núna er að tala um að konur séu konum verstar, það er líka innræting til að reka fleyg á milli kvenna, eins og þetta með að við stelpur kunnum ekki að bakka í stæði, elskum búðaráp og sannsögulegar bíómyndir (helst sorglegar), séum lakar stærðfræði og þess háttar. Strákar eru ekki mikið betur settir þegar kemur að staðalímyndum og innrætingu, þeir eiga að hafa áhuga á íþróttum, ropi og bjór, svo fátt eitt sé nefnt, hata búðir og tilfinningar. Vona að þetta fari að minnka, ég er alveg að verða brjáluð á þessu. Ég var svo áhrifagjörn þegar ég var yngri og lifði alveg eftir þessu í stað þess að vera bara ég sjálf. Samt vil ég alveg að strákar séu strákar og stelpur stelpur ... bara hætta að draga fólk niður með svona bulli. Knús yfir hafið!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 21.10.2007 kl. 00:16

3 identicon

Sammala! þetta er nú meira kjaftæðið,

Bleikt er fyrir stelpur blátt er fyrir stráka... kjaaaaftæði

Takk fyrir okkur elsku mamma min ;*

Steikin var æði..

Hafrún (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 01:03

4 Smámynd: Fjóla Æ.

Það er alveg kristaltært að við innrætum kynjamuninn í börnin okkar. Vissulega er munur á kynjunum en samt er innrætingin mikil. Til dæmis má nefna leikföngin sem börnin okkar fá, hvaða litur er á fötum ungbarnanna og svona má lengi telja. Það er ætlast til að strákar séu fyrirferðamiklir og stelpur settlegar og ef þessu er eitthvað öðruvísi farið þá er talað um stelpustrák og strákastelpu.

Fjóla Æ., 21.10.2007 kl. 10:49

5 Smámynd: .

Bara sammála þér.........

., 22.10.2007 kl. 20:20

6 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Nákvæmlega, ég elda heima hjá mér, og sumir jafnvel dirfast segja við mig að konan eigi að gera það! Viðkomandi fær mikinn reiðilestur og sýnt dagatal  og beðinn svo vel að lifa. Þessar stöðluðu ímyndir eru bara kjaftæði og tek ég undir allt í grein þinni. Guð blessi þig Fjóla.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 23.10.2007 kl. 10:30

7 Smámynd: Árný Sesselja

Hey Fjóla ég skal sko kenna þér að flétta fastarfléttur, fiskifléttu og allar þær fléttur sem ég kann.... kann meira að segja að flétta bókstafi í hausa ( ef hárið er nógu sítt þ.e.)Kveðja frá mér....

Árný Sesselja, 24.10.2007 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband