Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Árið er liðið

Nú þegar árið er að líða er vani að líta aðeins yfir það. Árið 2008 í mínu lífi hefur verið mér erfitt, sorglegt, ár missis og tómleika. Einnig ár gleðinnar, þakklætis og bjartsýnis. Hér er stutt yfirlit yfir það helsta sem gerðist í mínu lífi á árinu.

Mumminn minn varð stór (40) og héldum við smá partý í tilefni þess í upphafi árs. Auðvitað urðu fleiri fjölskyldumeðlimir aðeins stærri eða amk. eldri á árinu. Ásdís varð 11 ára í febrúar, Hafrún og Guðjón í mars og Natan í júní. Huginn hefði orðið 4 ára í nóvember og vorum við með smá kaffi í í tilefni þess. Afmælisári fjölskyldunnar lauk síðan með mínu eigin afmæli núna í desember. Nú er verið að skipuleggja á fullu 1. afmæli næsta árs sem er bara núna um helgina. Það mætti halda að það væru alltaf afmæli í þessari fjölskyldu enda töluvert mannmörg.

Í mars voru páskarnir og ég var full gleði yfir því að 2 af börnunum mínum héldu upp á afmælin sín þann 22. og 23. En fljótt skipast veður í lofti og stutt á milli hláturs og gráts því Elsku litli Gullrassinn minn kvaddi okkur þann 24. aðfaranótt annars í páskum einungis 3 ára og 4 mánaða. Þessi litli drengur breytti lífi mínu á flestan hátt og kenndi mér aðra lífsskoðun og gildismat.

Við tók tími tómlætis og tími þess að lifa af. Við hjónaleysin skruppum til London í afmælisferð unnustans og var það ágæt ferð eins langt og hún náði. Það var þó tímasetningin sem skemmdi, ekki neitt annað, svona þannig séð. Áður en við fórum út leið okkur stundum eins og við værum aftur orðin 5 ára og eru mæður okkar ástæða þess. Þær börðust fyrir því að við skyldum fara til Lundúna og ekkert múður. Í dag er þessi hegðun okkar ástkæru mæðra kveikja bros og væntumþykju í hugum okkar.

Við ákváðum í upphafi sumars að fjárfesta í Skuldahala svo við gætum lagst út með mannsæmandi hætti án þess að eiga á hættu kvef og eitthvað verra. Ferðuðust við samt ekki eins mikið og við hefðum viljað með Skuldahalann en orsökin er einna helst súað við höfðum skipulagt sumarfríið í febrúar og þá voru allt aðrar aðstæður.

Í haust ákvað ég að ég myndi hætta mér út á almennan vinnumarkað og eftir miklar pælingar tók ég þá ákvörðun um að fleygja mér beint út í djúpu laugina. Í byrjun september hóf ég aftur störf á leikskólanum. Ég vissi að ég hafði kunnað þetta starf mjög vel og ég vissi að ég væri mjög fær í mínu starfi. Það kom í ljós að ég hef litlu gleymt og í raun bætt ansi miklu í reynslubankann sem kemur til með að nýtast mér vel í þessu starfi.

Núna er árið alveg að renna í aldanna skaut og ég er svolítið leið. Því þrátt fyrir hræðilega erfitt ár þá er smá tregi að kveðja árið en ég ætla að trúa á stjörnuspána sem Mogginn birti í morgun fyrir næsta ár en þar segir einhvernvegin á þessa leið: Útlit er fyrir að árið verði þér auðveldara en síðastliðið ár.

Að lokum langar mig til þess að óska öllum gleði og farsældar á komandi ári og þakka kærlega allan þann stuðning sem mér og minni fjölskyldu hefur verið veittur á þessu erfiða ári, hann hefur verið okkur mikils virði. Er farin að horfa á Áramótaskaupið og ég vona að það veri okkur öllum tilefni hláturs sem og komandi ár.


Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott...

Ég vil byrja á að þakka fyrir allar þær kveðjur sem mér hafa borist í tilefni afmælis míns. Einnig allar jólakveðjurnár og sendi til baka mínar bestu jólaóskir um leið og ég óska öllum mikillar farsældar á komandi ári. Megi nýja árið færa ykkur mikla gleði og hamingju. Ég trúi því að ég verði ekki undanskilin. Þrátt fyrir að ég hafi fengið að upplifa þá mestu sorg sem nokkur einstaklingur getur upplifað á árinu sem er nú að líða í aldanna skaut þá er ég nokkuð bjartsýn á að framtíðin beri ekki slíka hörmung með sér fyrir mig. Heldur beri hún með sér gleði og hamingju. Ég er reyndar heppin manneskja. Hef átt gott líf og er það þakkarvert. Gullrassinn minn, kenndi mér marga hluti og breytti lífi mínu til hins betra að ég tel og er eitt af því besta sem fyrir mig hefur komið á minni lífsleið. Ég tel mig bæði betri og meiri manneskju eftir okkar samferð. Ég er í dag í góðu sambandi með mínum yndislega unnusta sem í raun er alls ekki svo sjálfsagt eftir allt sem við höfum þurft að takast á við og fyrir það er ég afar þakklát og tel mig heppna. Hin börnin mín sem ég er svo heppin að fá að hafa hér hjá mér í lífinu gengur vel og virðist framtíðin brosa við þeim öllum. Og er hægt að fara fram á meira? Ég  held ekki.

En að allt öðru. Mumminn minn er núna að farast úr ljósmyndadellu og dundar sér nú við flest tækifæri að taka myndir af öllu mögulegu og leika sér síðan með þær. Ekki verri della en hver önnur. Ég ætla að reyna að smitast aðeins af henni. Við fórum í dag smá rúnt út á Reykjanesið. Það er alltaf jafn fallegt alveg sama hvaða árstími er. Hann tók einhvern helling af myndum og þegar ég skoðaði þær sá ég að ég hafði verið fyrirsæta á ótrúlega mörgumán þess ég vissi. Gaman að því.

Annars var ég að fá nýjan office pakka í tölvurnar mínar. Wordinn er svo flottur að ég er farin að hlakka til að skrifa lokaritgerðina mína. Sagði meira að segja við Mummann minn að wordinn væri svo flottur að ég væri að hugsa um að skrifa bók. Kannski ég geri það, kemur í ljós.

Ætla að hætta núna og bið ykkur um að fara varlega í ræktinni, það er nefnilega ekki gott að meiða sig.


Ég er orðin ári eldri en í gær.

Mér hafa borist kvartanir út af blogginu mínu. Ekki að það sé eitthvað óviðeigandi eða neitt svoleiðis heldur að það sé stórkostlegur skortur á færslum. Mér átti til dæmis að berast afmæliskveðja í gegnum bloggið en vegna tímamarka á athugasemdum var ekki unnt að gera það. Kveðjan barst því á annan hátt ásamt formlegri beiðni um úrbætur.

Annars er svo sem lítið að frétta af mér. Ég vinn og síðan hamast ég við að undirbúa jólin eins og líklega flestir aðrir landsmenn. Mér gengur það ljómandi vel. Jólatréð var skreytt áðan eftir að ég hafði skellt á það u.þ.b. 400 rauðum ljósum. Prinsessan á heimilinu valdi tréð sem er mjög fallegt og að venju óx það helling á þeim tíma sem það beið í bílskúrnum eftir að verða sett upp. Ég get svo svarið fyrir það að það var ekki svona stórt þegar við keyptum það. Ég er að hugsa um að leggja peningana mína inn í bílskúrinn. Þeir hljóta að vaxa líka þar líkt og jólatrén gera alltaf. Kannski verða þeir bara stærri og hver er hagurinn af því.

Jæja núna er ég búin að verða við beiðnunum og blogga og þangað til næst sem ég gæti miðað við undanfarið  orðið ekki alveg strax ætla ég að óska ykkur bloggvinir góðir og einnig öllum öðrum þeim sem hingað villast Gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og megi það bera gæfu og lán í ykkar líf. 


Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband