Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Ég er hérna enn

Ég er búin að vera í algeru óbloggstuði undanfarna daga. Hef eytt síðustu dögum í að undirbúa jólin, halda jólin og síðan að lesa, borða nammi og reyna að slaka aðeins á. Við fórum með Gullrassinn í Rjóður í gær og var mér því kleift í morgun að sofa eins lengi og ég vildi. Sem ég og gerði. Mumminn eiginlega vakti mig þegar hann kom heim í hádeginuBlush en mikið var þetta samt gott og langþráð að geta leyft sér þetta. Órofinn svefn í 12 tíma, get ekki munað eftir síðasta skipti sem þetta gerðist hjá mér. Samkvæmt þessu ætti ég að sofa til 2 á morgun.

Ég hef stundum sagt að lífið sé ekki alltaf einfalt. Í dag var ég að pæla í þessu og komst eiginlega að þeirri niðurstöðu að líf mitt væri einmitt einstaklega einfalt, ég er heima með Gullrassinn, sinni því sem þarf að gera og svoleiðis. Síðan þegar hann fer í Rjóður þá get ég gert eitthvað annað en hvað geri ég þá? Er heima og geri það sem gera þarf þar. Þannig að mitt líf er mjög einfalt.

Ætlaði að skrifa eitthvað meira en nenni því ekki núna,  ætla að fara að knúsa unnustann og mæli með að aðrir knúsi sína nánustu dálítið. Það er bara gott. Bíð því bara góða nótt.


Jólakveðja

Mig langar til að þakka fyrir allar afmæliskveðjurnar sem ég hef fengið. Afmælisdagurinn minn var yndislegur, sennilega einn sá besti sem ég hef átt. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að eiga afmæli á þessum árstíma og þó sérstaklega þegar ég var barn. En í gær var góður dagur. Takk allir fyrir að gera mér daginn yndislegan og eftirminnilegan.

Mig langar einnig til að óska öllum sem læðast inn á bloggið mitt Gleðilegra jóla og þakka kærlega fyrir árið og megið þið njóta farsældar og vellíðunar á komandi ári.


Hurðaskellir kom í nótt og viðbúnaður settur á hæsta styrk.

Jólin eru handan við hornið en þau koma samt ekki án þess að staldra aðeins við á afmælinu mínu. Það eru víst bara 6 dagar þar til þau koma í hús. Undanfarna daga hef ég verið á fullu að undirbúa jólin. Fór í gær í bæinn til að kaupa gjöf handa unnustanum og er búin að pakka herlegheitunum inn í glitrandi pappír. Tók með mér tvö börn og þegar við komum heim stökk prinsessan upp í herbergi og sótti jólasokkinn sinn og kom með niður. Hún ætlaði sko ekki að láta Hurðaskelli vekja sig og til að vera alveg örugg þá hafði hún galopið inn í herbergi í alla nótt.

Annars gerðist eitt skemmtilegt í innkaupaferðinni í gær. Við vorum í Kringlunni að bíða í röð eftir því að geta keypt okkur að borða. Fyrir aftan okkur stóð kona sem var að tala í símann, hún sagði meðal annars að hún væri búin að kaupa allt nema að hún þyrfti að kaupa í skóinn fyrir strákinn sinn. Prinsessan mín hvíslaði því í eyrað á mér að þessi umræddi aumingja strákur væri svo mikið óþekkur. Mamma hans yrði að gefa honum í skóinn því að jólasveinninn gerði það ekki. Greinilegt hver gefur í skóinn á þessu heimili.

Eftir að hafa sent gríðarsterka hríðarstrauma yfir hafið upp á Skaga á laugardaginn varð ég ömmusystir í 3. sinn. Þar fæddist undurfögur ljóshærð prinsessa sem hefur fengið hið fallega nafn Katrín. Hlakka svo til að hitta dúlluna. Til hamingju elsku Pétur, Ríkey, Aron og Sindri.


Ofur stressað Lognið

Mig langar að blogga en hef samt ekki hugmynd um hvað ég ætti að blogga. Kannski Lognið sem hefur undanfarið verið að missa sig í jólastressinu sem mest þá má og lítur út fyrir að það sé lítið að afstressast. Margt mannfólkið verður að þrífa híbýli sín hátt og lágt fyrir jólin og ekki lætur Lognið sitt eftir liggja í þeim efnum. Það hamast og hamast, svo mikið að allt lauslegt og sumt naglfast fer á flug og feykist burt. Hef af því fréttir að Logninu finnist ekki enn nóg komið og ætli að þrífa aðeins meira til á næstu dögum.  Mér finnst reyndar að það sé allt orðið fínt og nú sé kominn tími fyrir Lognið að slaka aðeins á í stressinu.  Kannski finnst Logninu þessar jólaskreytingar sem við mannfólkið erum að setja upp úti um allt ekki fallegar og óttalegt drasl. Eitthvað er það, því Lognið linnir ekki látum við að losa sig við skrautið á haf út.

Munið nú að slaka aðeins á í stressinu og hugleiðið hvað er mikilvægast í lífinu. Setjumst niður, slökum á  og knúsumst aðeins.


Of lengi í BNA fyrir löngu

Ég var að flakka um á netinu eins og ég geri stundum þá rakst ég á blogg sem gerði mig orðlausa. Þar segir frá konu sem skrapp til NY og lenti þar í alls konar hremmingum. Samkvæmt hennar reynslu er eins gott að hafa ekki dvalið einhverntímann of lengi í Bandaríkjunum. Man eftir því hversu nauman tíma við unnustinn höfðum eftir af vegabréfsárituninni þegar við vorum úti með Gullrassinn. Við vorum komin með alla pappíra í hendurnar til að framlengja áritunina ef til þess kæmi, en sem betur fer þurftum við ekki að senda þá af stað. Komumst heim 4 dögum áður en áritunin rann út. Set hér inn slóðann á færsluna um þessar hræðilegu hremmingar hjá konunni.

http://erla1001.blog.is/blog/erla1001/entry/388660/


Jólin eru að koma...

Kominn tími á að blogga smá. Síðustu daga hef ég verið ferlega upptekin af Gullrassinum mínum enda hefur hann verið mjög veikur. Síðasta helgi fólst í því að vona að hann þyrfti ekki að fara í öndunarvél og var allt tilbúið til að intúpera hann. En þar sem hann er mikið töff þá náði hann að halda sér frá vélinni og er það mjög mikill sigur. Því ef hann þarf að fara í vél þá er það mikil afturför. Hann fer á það sterk lyf til að halda honum sofandi að það þarf mánuð til að trappa hann niður af þeim. Má þar nefna meðal annarra lyfið Fentanil sem dró unga stúlku til dauða á LSH í haust. Síðast þegar Gullrassinn fór í vél þá þurfti hann fullorðinsskammt af þessum lyfjum því hann hefur fengið svo mikið af þeim í gegnum tíðina að hann hefur alltaf þurft meira magn en síðast.  Þannig að það má sjá hversu mikið mál það er ef Gullrassinn minn fer í öndunarvél. Annars tókum við hann heim af spítalanum töluvert áður en hann var orðinn hress en það var með vilja gert. Við erum mjög fær að annast hann og spítalinn er fullur af slæmum sýkingum og eins og margir vita þá er mikil hætta á að sýkjast af einhverjum óþverra á spítala. RS- vírusinn er í miklum blóma og hann er frekar hættulegur litlum lungnaveikum Gullrassi þrátt fyrir 3 ára aldur og mótefnasprautur. En nóg um þetta.

Í gær var jólasýningin hjá Fimleikunum og fórum við að sjá Prinsessuna okkar dansa. Sýningin var að venju glæsileg og mikið í hana lagt. Þessi sýning er eiginlega startið á hinu virkilega mikla jólaskapi sem heltekur mig flest jól. Þyrfti að skella mér í aðventustund í kirkjunni og þá get ég misst mig algjörlega. OK. klikkuð, ég veit en ég á mér góðar málsbætur. Skoðið bara nafnið mitt. Og síðan á ég afmæli 2 dögum fyrir jól og og og ... Þarf ég að segja meir? Er búin að dunda mér í dag við að bæta aðeins við skrautið á heimilinu og skella upp aðeins fleiri jólaljósum á bara eftir að setja í 1 herbergi og það er vegna eindregna óska um að bíða aðeins með það og síðan auðvitað ljósin á jólatrénu. Þau eru ekki komin því það er ekki enn búið að fjárfesta í gripnum. Ætlum að bíða með að kaupa tré þangað til Kiwanismenn fara að selja trén. Viljum gjarna styrkja gott málefni ef við getum og versla við þá. Við höfum verið gott málefni og það hefur reynst okkur ótrúlega vel. Takk fyrir það. Annars býst ég við að þurfa að kaupa enn eina seríuna á tréð. Það er að minnsta kosti vaninn. Í fyrra voru um 400 perur á trénu svo þið sjáið að ég er svolítið klikk.  Stefnan er síðan tekin á að skella í nokkrar dísætar smákökur á morgun ef ég nenni eins og segir í jólalaginu og efast ekki um að því verði vel tekið. Undanfarið hef ég þurft að baka sirka einu sinni í viku fram að jólum. Gaman að því bara. Annars dáist ég að staðfestu minni. Ég á nokkrar gjafir upp í skáp sem bíða eftir að vera pakkað inn og eru búnar að því í langan tíma, amk. langan tíma þegar horft er á mig. Ætla reyndar að fara að leyfa mér þann munað að pakka þeim og mikið rosalega hlakkar mig til þess. Mér finnst svoooo gaman að gera fallegan pakka og er búin að vera að sanka að mér allskonar dóti til að gera gjöfina sem fallegasta.

Jæja þá er kominn tími á að skella sér í háttinn eða að skrifa nokkrar jólakveðjur, en allavega þangað til næst, hvenær sem það verður, elskið hvert annað og kveikið á kertum, sérstaklega núna á aðventunni því hún er erfiður tími fyrir marga.


Svarta krumlan

Inni í mér er svört krumla sem heldur um hjartað í mér. Stundum heldur hún ekki fast en oft herðir hún takið all hressilega svo það er sárt. Þessi krumla er óttinn. Óttinn við að missa barnið sitt. Hún hefur haft mikil áhrif á líf mitt undanfarin 3 ár. Gert það að verkum að ég er að mestu hætt að leyfa mér að gera áætlanir til framtíðar og líka hefur hún alltof oft komið í veg fyrir að ég leyfi mér að hlakka til einhvers atburðar sem undir venjulegum kringumstæðum eru mikið tilhlökkunarefni. Mér líkar ekki þessi svarta krumla. Ég hreinlega þoli hana ekki. Svo einfalt er það.

Núna kreistir þessi svarta krumla hjarta mitt svo ég finn til. Gullrassinn minn er á spítala á Hágæslu en hefði samt átt að vera á gjörgæslu en þar var ekki pláss nema ef... svo að hágæslan er notuð. Gullrassinn minn er svo mikið veikur en eins og honum er von og vísa þá er hann batnandi og verður bráðum orðinn jafngóður og áður. Hann átti að eyða helginni í Rjóðri og hin börnin ekki heima um helgina, þannig að við hjónaleysin sáum fram á fríhelgi. Vegna þess ákváðum við að eyða helginni á rómantískum stað upp í sveit 2 saman alein. Ætluðum að slaka vel á og rækta okkar samband við kertaljós og kósýheit. En fyrirætlanir okkar tóku U-beygju og núna sitjum við reyndar saman hér heima með kertaljós og ræktum okkur en án mikillar slökunar samt. Við verðum bara að reyna aftur seinna og vonandi tekst það í mars. Fyrr getum við ekki vænst að geta farið eitthvað því að við fáum ekki helgarfrí fyrr.

Stundum heyri ég að fólk kvarta yfir því að það geti ekki farið neitt vegna ýmissa ástæðna fjárhagslegra, vegna veikinda í fjölskyldunni, það fái ekki pössun og þess háttar. Vissulega eru þetta góðar ástæður en stundum eru þær ekki ástæður heldur afsakanir, leið til að fá samúð frá samfélaginu eða flótti frá því að vera saman.  Við höfum kynnst því að geta virkilega ekkert farið út úr húsi tvö saman því við höfðum engan sem treysti sér til að passa Gullrassinn okkar, ekki einu sinni til að versla í matinn saman. Börnin okkar hafa virkilega fengið að kynnast því að foreldrarnir geti lítið tekið þátt í störfum þeirra utan heimilisins nema í umræðu. Við höfum lært að meta virkilega þær stundir sem okkur gefast til að fara saman út af heimilinu, það er meira að segja ánægjulegt að fara í Bónus ef við erum saman. Þar til í sumar varð alltaf annað okkar að vera heima með Gullrassinn, unnustinn þurfti að taka sér frí í vinnunni til að ég gæti farið til læknis, í foreldraviðtöl og svo framvegis.  Þegar ég heyri fólk sem hefur ekki ástæður til, kvarta undan þessum atriðum þá finn ég stundum til smá öfundar og stundum verð ég reið. En það sér enginn en ég finn það.

Ég er í dag svo uppfull af brostnum vonum og væntingum að ég er að springa. Lífið er ekki skemmtilegt í dag en samt er ég svo þakklát fyrir það sem ég hef. Ég ætti ekki að kvarta, ég hef það fínt en samt er þessi svarta krumla þarna inni umvefjandi hjartað mitt og það er vont. Ég vil losna við hana.

Eyðið tima með þeim sem þið elskið þegar þið hafið tækifæri til, ekki vanmeta tímann sem þið hafið saman þrátt fyrir að aðstæður séu ekki þær bestu. Lifið í núinu og verið sátt þegar þið lítið til baka. Lífið er núna. Ekki á morgun eða í næstu viku, það gæti verið of seint.


Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband