Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Helgarsamban

Helgin er búin að líða hjá í ljúfum gír. Samkvæmt dagatalinu og Sigga Stormi er sumarið komið og var grillið því notað ágætlega til matreiðslu steikanna sem heimilisfólkið gerði síðan á góð skil. Sunnudagurinn hófst fyrir allar aldir við það að horfa á fótbolta. Sá meira að segja 2 leiki í röð. Leikirnir voru spilaðir í Reykjaneshöllinni af 5. flokki kvenna og stóðu stelpurnar sig ágætlega. Eftir amerískan brunch fórum við út í kirkjugarð til að laga aðeins til  lúllið hans Hugins. Blómin voru orðin hálf rytjuleg og kominn tími á að taka þau. Við settum sæta engla og kertaljós á leiðið þannig að núna er alltaf ljós hjá Gullrassinum mínum. Mér finnst leiðið vera svo bert og kuldalegt eftir að við tókum blómin og mig langar hreinlega til að breiða sæng yfir það. Síðan þegar líða tekur lengra á vorið stefnum við á að setja nokkur sumarblóm á leiðið. Annars vitum við svo sem ekkert um það hvernig við viljum hafa það ennþá, við kunnum ekkert á almenna umhirðu og fegrun leiða en erum að prófa okkur áfram.

Lúllið hans Hugins

Svona lítur lúllið hjá Gullrassinum mínum út núna.

Hætt í bili en þangað til næst mæli ég með brosi. Það gerir öllum gott.

 


Takk fyrir veturinn

Gleðilegt sumar kæru vinir og takk fyrir veturinn. Þrátt fyrir að sumar og vetur hafi ekki frosið saman að þessu sinni hef ég alla trú á því að sumarið verið einstaklega gott. Finnst reyndar að ég og þú eigum það skilið.  Núna er ég farin að bíða spennt eftir því að það hætti að rigna og ég verði aðeins hressari líkamlega svo ég geti farið að halda áfram með verkefnið sem hófst síðasta sumar en náðist ekki að klárast fyrir veturinn. Pallurinn minn. Hann er núna hálfkláraður, potturinn liggur á hvolfi og bíður eftir að komast á sinn stað, girðingin bíður eftir að komast upp og á meðan skrælnar grasið á lóðinni undan pallaefninu sem liggur á því og bíður eftir að breytast í pall og skjólveggi. Sé orðið fram á að ég þurfi að sá fræi í garðinn þegar ég verð loksins búin að koma þessum spítum á burt. Mig vantar reyndar að fá pípara í smá stund til að hjálpa mér með aðrennsli vatns í laugina, ég held nefnilega að ég sé ekki nægilega klár fyrir þann gjörning. Einhver sem vill aðstoða mig Smile?

Ég er komin á þá skoðun að það sé ekki sanngjarnt gagnvart nokkrum háskóla landsins að ég verði nemandi þeirra næsta vetur. Það getur ekki verið gott að hafa nemanda með teflon húðaðan heila í námi hjá sér. Þannig að stefnan er tekin á atvinnumarkaðinn næsta vetur og síðan eftir það er von mín og trú að ég verið búin að rispa teflonhúðina nægilega til að eitthvað geti fest við hana og ég skutlist aftur í skóla.

Núna ætla ég að skúra aðeins yfir gólfin, þau eru öll útí moldugum loppuförum eftir kattarskammirnar sem fengu að fara aðeins út í morgun. Þangað til næst, knúsist svolítið og njótið dagsins.


Og hvað svo?

Í dag eru fjórar langar vikur síðan Gullrassinn minn kvaddi okkur. Fjórar langar vikur síðan ég sá fallega brosið hans og fékk ljúft knús frá honum. Ég sakna hans ógurlega.

Huginn Heiðar

Síðustu fjórar vikur hafa margir spurt að því hvað ég ætli nú að fara að gera. Ég veit það ekki. Á ég að fara aftur í leikskólann? Ég veit að ég stóð mig mjög vel í því starfi, það kemur greinilega í ljós þegar ég hitti börnin "mín" og foreldra þeirra sem spyrja mig hvort ég sé ekki að koma aftur, þau sakni mín. Á ég að fara aftur í skóla? Eða á ég jafnvel að söðla alveg um og fara að vinna á kassa í Bónus? Ég veit það ekki. Viðurkenni þó að kassastarfið heillar mig ekkert mjög mikið þar sem ég hef svolítið gaman að því að fást við áskoranir(þær eru heilmargar í leikskólanum). Kannski ég ætti að reyna að nýta reynslu mína öðrum til góðs, það er ekki svo galið því ég hef af miklu að miðla í reynsluheimi langveikra fjölskyldna. Gallinn við það er sennilega sá að það gefur væntanlega ekki mikið í aðra hönd og þar sem full þörf er á því þessa dagana á þessum krepputíma í þjóðfélaginu. Þannig að ég stend hér hálfpartinn í lausu lofti með framtíðina í mistri. Tek öllum góðum hugmyndum opnum örmum ef einhverjar eru.

Þangað til næst, gerið það sem þið ætlið í dag. Á morgun verður það kannski of seint.


Lundúnir

Komin heim aftur eftir flotta ferð til heimsborgarinnar Lundúna. Held að ég sé afar sátt með móður mína Ljónshjarta og tengdamóður mína þar sem þær voru mjög sammála um að við ættum alls ekki að hætta við að fara í þessa ferð sem var löngu plönuð.

Jæja ég lofaði víst einhverjum ferðasögunni þannig að hér kemur hún.

Við fórum á fimmtudaginn og fundum hótelið okkar sem er á fínum stað í London. Örstutt frá næsta undirgrándi sem var notað óspart til að komast á milli stórmerkilegra staða borgarinnar. Þegar hótelið var fundið skruppum við aðeins út að ganga og þar sem það var svooo kalt úti var stefnan tekin á einhverja búð sem var opin og þar keypti ég mér buxur og gekk út úr búðinni í þeim með pilsið mitt í poka. Við fórum snemma að sofa þar sem ég var algerlega orðin uppgefin enda vöknuð löngu á undan fuglunum og lítið fyrir að sofa í einhverju sem hreyfist.  Föstudagurinn fór í smá skoðun um miðborgina og síðan tókum við lest til Suður- London til að kaupa miðann á fótbotaleik stórliðsins og til baka. Síðan meiri skoðun og meiri skoðun og meiri skoðun. Laugardagurinn var tekinn snemma og skroppið út til að skoða meira áður en við stukkum aftur upp í lest til Suður-lundúna á leikinn. Ég stóð við það sem ég hafði lofað og var hellings meðvirk og skemmti mér konunglega á leiknum. Við sátum á 5. bekk og gátum næstum því snert leikmennina þegar þeir hlupu hjá. Stemmingin var fín bæði á leiknum og einnig fyrir leikinn. Síðan var farið aftur til baka í miðborgina og skoðað miklu meira. Á sunnudeginum urðum við að greiða fyrir allt skoðið okkar og neyddumst við því til að eyða deginum á Oxford street. Það er víst ekki hægt að koma heim með jafnmikið og farið var með út þegar maður er svo heppinn að eiga fullt hús af flottum afleggjurum.

Eins og þeir sem mig þekkja vita er matur eitt af mínum aðaláhugamálum og gat ég sinnt þessu áhugamáli mínu ágætlega þarna úti í heimsborginni. Hvert sem við fórum var yndisleg matarlykt af ýmsum toga og ég var ábyggilega hálf óþolandi, endalaust að tala um þessa dásamlegu lykt eða að tala um að borða. Við fengum almennt góðan mat, sístur var hann þó fyrsta kvöldið en þá borðuðum við pasta á hótelinu. Bættum við úr því næsta kvöld og borðuðum kínverskt, þá indverskt og síðasta kvöldið fórum við á frábæran ítalskan veitingastað þar sem við fengum æðislega góðan mat og frábærlega skemmtilega þjónustu. Ekki skemmdi fyrir að hörpuleikari lék fyrir okkur á meðan við nutum kræsinganna. Mæli 100% með þessum stað og næst þegar ég verð í London þá fer ég aftur þangað.

Núna ætla ég að skella mér í að lesa eitthvað í bókunum sem ég keypti mér þarna úti. Þangað til næst farið vel með ykkur og elskið hvort annað.

 


Af hverju þarf alltaf eitthvað að standa hér?

Sit hérna alein og veit ekki alveg hvað ég á af mér að gera. Enginn Huginn til að sprella við. Er þó að bíða eftir að þurrkarinn verði búinn að þurrka rúmfötin svo ég geti brotið þau saman.

Síðustu dagar eru búnir að vera erfiðir en samt erum við búin að vera að reyna að gera okkur smá glaðan dag. Fórum til dæmis og sáum revíuna um Árnaborg, sem er hreint ágæt skemmtun. Þar sem það hefur staðið til síðan snemma þessa árs að skella sér til stórborgarinnar Lundúna á ákveðinn fótboltaleik, jebb ég er að fara á fótboltaleikBlush, ákvað minn heittelskaði unnusti að hita aðeins upp í gær og reyna um leið að láta mig eitthvað og fórum við því brunandi í bæinn á pöbb þar sem samankomnir voru helstu aðdáendur stórliðsins til að sjá hvernig Idolin þeirra rúlluðu gamla liðinu hans Gauja Þórðar upp. Ég var hjartanlega boðin velkomin aftur á pöbbinn.  Næsti leikur verður þó fyrir okkur live. Hinir verða bara að vona að sjá grilla í okkur á skjánum. Verð að viðurkenna að ég er smá spennt fyrir leiknum og hef lofað að vera ofboðslega meðvirk á honum og þá verður hann skemmtilegur.

Nenni ekki að skrifa meira í bili enda kominn tími á rúmfötin. Þangað til næst elskið hvert annað.


Þoka

Síðustu dagar hafa liðið hjá í þoku. Ég nuddaði enninu mínu í síðasta sinn við enni litla Gullrassins míns og kyssti hann bless. Það er svo skrítið að að hugsa til þess að ég sjái hann aldrei framar. En ég á minningarnar og myndirnar til að hugga mig við.

Útförin var mjög falleg og friðsæl. Frændur mínir sungu svo fallega til litla drengsins okkar. Það voru hræðilega þung sporin á etir litlu kistunni út kirkjugólfið og síðan að gröfinni.

Við ákváðum að hafa erfidrykkju á eftir athöfninni til að geta á einhvern hátt þakkað öllum þeim sem hafa stutt okkur í gegnum tíðina. Bæði fjölskylda og vinir og einnig þeim sem hafa verið á bak við tjöldin en gefið okkur samt svo mikið. Það var ánægjulegt að sjá hve margir komu. Okkur datt í hug að láta mynd af Hugin á flest borðin í erfidrykkjunni og var það svo hlýlegt og gott að geta séð fallega brosið hans hvert sem litið var.

Ætla að hætta núna og bið ykkur þangað til næst að njóta augnabliksins.


Um bloggið

Þegar kviknar á deginum

Höfundur

Fjóla Æ.
Fjóla Æ.

Lífið er stundum erfitt en í samanburði við hvað?

Bloggarar

Topplistinn

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband